149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[17:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna hlaupandi eftir að við í þeirri stjórnarandstöðu, sem ég kalla ábyrgu stjórnarandstöðuna, náð samkomulagi við stjórnina um þinglok. Þá er þetta oft þannig að þá fara mál að renna í gegn. Þau fá minni athygli. Kannski eðlilega í því ölduróti sem hefur verið núna í þinginu hafa stór og mikil mál ekki fengið viðeigandi athygli. Því að þetta eru prinsippmál.

Það mál sem við erum að ræða um, breytingar á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, þ.e. stjórn veiða á makríl, er risamál. Þetta er prinsippmál sem við hefðum þurft miklu meiri tíma til að fara yfir og ræða. Því að það er ekki bara verið að festa í sessi ótímabundna úthlutun aflahlutdeildar í makríl — það er verið í rauninni að gera það sama núna með makrílinn og í stóra fiskveiðistjórnarkerfinu, það er ekki verið að tímabinda aflahlutdeildir, það er verið að fara inn í kerfi sem við höfum mörg hver verið mjög ósátt við, hvernig m.a. er farið í auðlindagjöld á greinina — heldur er það ekki síður allrar athygli vert að það er að verða ákveðin kúvending í hugmyndafræði, pólitík og stefnu tiltekinna flokka, rótgróinna flokka á þingi. Þeir tengjast náttúrlega ríkisstjórninni. Það er erfitt að horfa upp á að það er verið að kúvenda frá nálgun auðlindanefndarinnar sem á sínum tíma, árið 2000, kom með mjög skýra línu sem flokkar sammæltust um að standa að, m.a. í tengslum við tímabundna samninga. Allir hafa vitað það og það hefur verið erfitt að flytja Sjálfstæðisflokkinn á þessu skipi. Hann var einn flokka svona nokkuð á móti því — og ekkert „nokkuð“ á móti — fyrir tveimur árum að ræða tímabundna samninga. Allir aðrir flokkar voru reiðubúnir með einhverjum hætti, ekki síst Framsóknarflokkurinn sem í gegnum tíðina, og kannski fyrir tveimur, þremur árum síðan, lagði fram mjög athyglisvert frumvarp sem nálgaðist þessa tímabundnu samninga. Eiginlega lagði fram tímabundna samninga en aðra gjaldtökuleið. Gott og vel. Við getum líka rætt það. Gjaldtökuleiðirnar eru mjög mikið álitamál. Á að fara markaðsleið, uppboðsleið eða á að fara í gegnum tekjuskattinn eða skattkerfið? Um það eru deildar meiningar. En það sem skiptir langmestu máli í þessu er það að við tökum prinsippákvörðun um tímabundna samninga. Af hverju segi ég það? Er þetta eitthvert tæknimál? Nei, þetta undirstrikar að þjóðin á fiskveiðiauðlindina. Að fiskveiðiauðlindin, sjávarauðlindin okkar sem er í hafinu í kringum Ísland, er sameign íslensku þjóðarinnar.

Hvað er þetta frumvarp núna um breytingar á makríl að gera annað en að fjarlægjast þá hugsjón, hugmyndafræði, sýn og stefnu? Það finnst mér vera makalaust að Vinstri græn séu núna að hverfa í rauninni algerlega frá þessu eina stærsta prinsipp- og grundvallarmáli íslenskra stjórnmála síðustu tvo áratugi. Það er sárt og það er vont og þessu verður að mótmæla og vekja athygli á. Því að það er verið að gefa eftir. Af hverju í ósköpunum var ekki hægt að taka makrílinn út?

Auðvitað stóðu Vinstri græn að því á sínum tíma. Samfylkingin gat ekkert gert, þáverandi sjávarútvegsráðherra gat breytt því, að taka makrílinn tímabundið inn í þetta kerfi, þ.e. leitað annars vegar markaðslausna, fara uppboðsleiðina og síðan hitt, að gera tímabundna samninga. Það var ekki gert á sínum tíma en við höfum tækifæri núna. Tækifærið er núna til að alla vega nota tiltölulega nýja tegund innan landhelginnar til að fara aðra leið en hefur verið farin með þorskaflamarkið. Af hverju í ósköpunum er það ekki nýtt? Það liggja fyrir núna hæstaréttardómar sem ber að fara eftir. Já, það gera það, en hæstaréttardómarnir taka ekki valdið frá þingi til að marka rammann utan um það hvernig við annars vegar skipuleggjum okkar fiskveiðistjórnarkerfi og hins vegar högum okkar gjaldtöku. Ég undirstrika að það er ótrúlegt umhugsunarefni og undrunarefni að Vinstri græn skuli hleypa þessu máli svona áfram. Þau eru með öðrum orðum að segja: Við ætlum ekki lengur að leggja áherslu á tímabundna samninga. Það á ekki lengur að leggja áherslu á að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það á að láta það tækifæri úr greipum sér renna að fara þá leið. Þess þá heldur er verið að setja þetta inn í það kerfi sem er mjög umdeilt þegar kemur að prinsippmálum: Annars vegar hverjir það eru sem eiga fiskinn í sjónum og hins vegar hvernig við högum gjaldtöku.

Þess vegna leggjum við í Viðreisn fram þessa breytingartillögu. Við undirstrikum að það verði frá og með árinu — það stendur hér 2019, það er hægt að gera það í haust. Þá eigi Fiskistofa að deila heildaraflahlutdeild í makríl í 20 jafna hluta. Við erum sem sagt að leggja til að það verði 20 ára samningar. Það er hóflegur tími. Sumir hafa talað um 25 ár. Ég er alveg reiðubúin til þess að ræða það. Það þarf að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki fyrir útgerðina og við erum að færa útgerðinni 20 ára fyrirsjáanleika, lengra en er m.a. gert í fiskeldinu — og ég fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin skuli hafa séð ljósið þar og það sé verið að gera tímabundna samninga um aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sameiginlegu hafsvæði þjóðarinnar. Það er verið að gera tímabundna samninga í fiskeldinu upp á 16 ár. 16 ár í fiskeldinu er talinn hæfilegur tími fyrir fiskeldisfyrirtækin hvað fyrirsjáanleika varðar. En í makrílnum er það fjarri lagi.

Þess vegna erum við að reyna að rétta kúrs ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og fara ekki þessa leið. Ekki láta draga ykkur þangað, Framsóknarflokkur og Vinstri græn. Ég bið ykkur um að íhuga það mjög gaumgæfilega. Við leggjum þess vegna til að í rauninni verði úthlutað makríl í 20 jöfnum hlutum á hverju ári. Á árinu 2020 skal Fiskistofa síðan bjóða til sölu á uppboðsmarkaði til 20 ára 5% heildaraflahlutdeildar í makríl. Þannig að það eru 5% á hverju ári í 20 ár. Fyrsti samningurinn er upp á eitt ár, annar samningur upp á tvö ár, þannig að heildarsamningur fyrir útgerðir er til 20 ára en alltaf boðið upp 5% á hverju ári. Þar fyrir utan felur tillagan í sér að smábátarnir — og við verðum að taka tillit til þeirra, verðum sérstaklega að huga að þeim og viðurkenna þá sérstaklega og reyna að fara þá leið af því að ég hugsa hana þannig: Gott og vel, getum við sameinast um að þetta verði alla vega til tilraunar? Tilraunaverkefni í einhver ár að m.a. að fara þessa leið? Og þá tökum við að sjálfsögðu tillit til smábátanna sem fá þá 5% af aflahlutdeild sem verða eyrnamerkt smábátum og eingöngu þeir geta boðið í 5% hlutdeild og þeir geta ekki fært á milli báta eftir að þeir hafa fengið úthlutað aflahlutdeild á grundvelli uppboðs.

Þannig að með þessari tillögu er verið að taka tillit sérstaklega til smábátanna og undirstrika fyrst og fremst að úthlutun aflahlutdeildar eigi að vera tímabundin, ekki ótímabundin. Ég verð ekki þreytt á að undirstrika að þrátt fyrir, eins og menn hafa verið að tala um, að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar gæti við fyrstu sýn reynst ósköp sakleysislegt eins og bent hefur verið á er þetta stórmerkilegt frumvarp fyrir þeirra hluta sakir að þar er um kúvendingu að ræða hjá Vinstri grænum, kúvendingu að ræða hjá Framsóknarflokknum. Það er verið að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að úthlutun á makríl. Af hverju notum við ekki tækifærið og gerum 20 ára samninga? Við bjóðum upp 5% á hverju ári á markaði og tökum frá líka 5% fyrir smábátana. Þetta er ósköp einföld tillaga sem við leggjum hér fram og viljum að verði tekin afstaða til. Ég undrast andstöðu Vinstri grænna núna við að nýta hvert það tækifæri sem við fáum til að tryggja þjóðareign á auðlindinni.

Ég er búin að vera í stjórnarskrárnefndinni með öðrum formönnum og það liggur fyrir auðlindaákvæði sem við væntum að fari í stjórnarskrána. Ég hefði viljað sjá inni í ákvæðinu sjálfu skýra greinargerð um að um tímabundna úthlutun verði að ræða, ekki að verið sé að veita eitthvert svigrúm til ótímabundinnar úthlutunar. Vissulega er það tekið fram í greinargerð með stjórnarskrárákvæðinu, eða drögum að stjórnarskrárákvæði, og það er sérstaklega vert að draga það fram að m.a. formaður Framsóknarflokksins hefur tekið undir að það verði um tímabundnar heimildir að ræða. Þess vegna spyr ég: Hví í ósköpunum erum við ekki að nota tækifærið núna til að tryggja þjóðareign á auðlindum? Af hverju erum við að taka þetta skref þannig að það verði erfitt fyrir okkur að breyta því í þá veru sem ég trúi ekki öðru en að drjúgur þorri þjóðarinnar vilji að verði? Að það verði undirstrikað að það er sameign þjóðarinnar sem gildir en ekki eitthvað allt annað — og þetta allt annað er þá að þetta verði eingöngu í eigu útgerðarinnar.

Ég ætla ekki að taka þátt í því að þegar við erum að ræða þetta komi fólk og segi: Þið í Viðreisn eruð bara á móti fiskveiðistjórnarkerfinu. Nei, ég hef undirstrikað margoft. Ekki síst núna er það náttúrlega ákveðið umhugsunarefni þegar veiðiráðgjöf Hafró var kynnt fyrr í dag að við erum að sjá það, alla vega með þorskinn, að stofnstærð þorsksins hefur ekki verið sterkari um árabil. En það er náttúrlega umhugsunarefni með aðrar tegundir sem við þurfum auðvitað að fara yfir. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur líka í hagræði, hagkvæmni og verðmætasköpun skilað mjög miklu og allir flokkar á þingi, vinstri sem hægri flokkar, hafa átt þátt í því að gera kerfið jafn skilvirkt og gott og það er. En það er alltaf eftir þessi stóri, þungi baggi og það er hvernig á að greiða fyrir auðlindina. Við fengum að vita það fyrr í vetur, þá þrýsti ríkisstjórninni í gegn stórfelldri lækkun á veiðigjöldum á útgerðina, upp á milljarða króna. Núna stöndum við frammi fyrir því að á sama tíma og það var gert á að skera niður, m.a. í velferðarkerfinu. Það er náttúrlega ekkert samhengi þarna á milli og mér finnst vont að við náum aldrei að klára þessa pólitísku umræðu um það hvort við ætlum og höfum döngun og löngun til þess virkilega að tryggja að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Hvert tækifærið á fætur öðru er að renna okkur úr greipum. Við skulum bara hafa það hugfast. Þetta er ekki eitthvert léttmeti. Þess vegna undrast ég það enn og aftur að Vinstri græn láta þetta bara fara fljótandi í gegn og leyfa Sjálfstæðisflokknum að ráða þessu. Það er ótrúlega sorglegt og dapurlegt að upplifa það.

Þess vegna undirstrika ég að við setjum fram þessa tillögu okkar í Viðreisn og erum samkvæm sjálfum okkur. Við teljum að það þurfi að gera, út af hagsmunum þjóðarinnar, tímabundna samninga við útgerðarmenn. Við erum meira en reiðubúin til þess að gera þá til 20 ára, jafnvel 25 ára, upp á fyrirsjáanleikann fyrir atvinnugreinina sem slíka að gera. Við skiljum það að sjálfsögðu. Og síðan getum við náttúrlega rökrætt um hvaða greiðslu eða gjaldtökuleið við eigum að fara. Við erum enn þá sannfærð um og höfum ekki breytt þeirri skoðun okkar á að við treystum markaðnum til þess. Við eigum að setja þetta á markað. Það er alveg með ólíkindum að flokkur sem einu sinni taldi sig markaðshyggjuflokk geti ekki tekið undir það. Af því að það hentar ekki þeirra vinum að fara markaðsleiðina. Við erum sannfærð um að þegar markaðurinn er erfiður borgar útgerðin einfaldlega minna. Þegar meiri eftirspurn er eftir fiski og aflahlutdeildum verður borgað meira. Þannig að þjóðin fær eðlilega hlutdeild í sameiginlegri fiskveiðiauðlind. Þetta verði ekki háð bara dyntum eftir því hver er í ríkisstjórn hverju sinni, hver berji í borðið hverju sinni og fái sitt fram, heldur verði bæði gegnsæi og það sé eðlilegt og sjálfsagt að þjóðin fái hlutdeild í þeirri sameiginlegu auðlind sem fiskveiðiauðlindin er.

Þannig að hér erum við að horfa fram á það að við erum að leggja til tímabundna samninga, leggja til markaðsleið. Við erum að leggja til að það verði sérstakt tillit tekið til smábáta. Þetta er eitthvað sem menn ættu að geta tekið undir. Skynsemi er fólgin í þessum breytingartillögum en um leið er synd að svona mikilvægt mál, eins og ég gat um áðan, skuli fljóta í gegn á þingi á síðustu dögum því að við erum ekki með betri skikk og stjórnun á þinginu en raun ber vitni þegar kemur að því að setja niður mikilvæg mál á dagskrá. Þannig er það nú.

Við í Viðreisn munum halda þessu máli áfram vakandi. Við teljum að það þurfi að tryggja eðlilegan rétt og hlutdeild þjóðarinnar þegar kemur að stjórn fiskveiðiauðlindarinnar. Við erum stolt af sjávarútvegskerfi okkar en það þarf að laga það á ákveðnum stöðum. Það þarf að koma auknu réttlæti inn í fiskveiðistjórnina þannig að þjóðin geti verið sátt við stjórn á henni, ekki bara til skemmri tíma heldur til lengri tíma. Það er til farsældar fyrir alla, fyrir útgerð, fyrir samfélag og fyrir þjóðina í heild.