149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að byrja á að leiðrétta hv. þingmann örlítið. Seðlabankinn er ekki að hafa eftirlit með sjálfum sér. Með þessum breytingum, með fyrirliggjandi frumvarpi, og ég tala nú ekki um með þeim breytingum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar var að gera — ég hygg að félagi þingmanns, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, geti verið mér sammála, hann er að vísu ekki í salnum og þess vegna er ekki gott að vera að vitna í hann — er að búa til nýja stofnun sem er öflug stofnun. Við lærðum að skilja í sundur með þeim hætti sem við gerðum hér fyrir hrun fjármálakerfisins 2008 þar sem okkur skorti yfirsýn yfir fjármálakerfið í heild sinni hjá einum aðila. Við erum að reyna að tryggja að það sé gert með þessum sameiginlega hætti. Það eru auðvitað sterk rök, eins og ég vék að, að halda viðskiptaháttaeftirlitinu fyrir utan Seðlabankann. Það eru rök að halda því inni og þau eru sterkari að mínu viti.

Þetta eru auðvitað nefndir sem eru skipaðar óháðum aðilum utan Seðlabankans og það veitir aðhald. Það veitir Seðlabankanum aðhald þegar það er sett með skýrum hætti inn í lögin að allar nefndir, peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, skuli koma fyrir nefndir þingsins og gera grein fyrir störfum sínum með reglubundnum hætti, a.m.k. einu sinni á ári þegar síðastnefndu nefndirnar eiga í hlut en peningastefnunefndin tvisvar á ári. Það sem meira er að þegar utanaðkomandi nefndarmenn eru skipaðir í þessar nefndir þá skulu þeir líka koma sjálfstætt fyrir þingnefnd.