149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það vill nú svo vel til að ég er hér með í höndunum minnihlutaálit sem þingmaðurinn vitnaði til, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég hygg að hann sé á mælendaskrá á eftir og geti þá skýrt það sem honum finnst þurfa að skýra varðandi sinn málflutning og sitt nefndarálit.

Í nefndarálitinu hans kemur reyndar fram að hann telur að hér sé of hratt farið og staldra eigi við vegna þess að borist hafi ábendingar frá mönnum með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu og þeir vara við. Ég viðurkenni það, herra forseti, að þar sem starf þingmanns veltur oft mjög mikið á að hlusta á sérfræðinga, hlusta á álit þeirra, taka það til áður en þeir taka ákvarðanir, hef ég í þessu tilfelli, eins og stundum áður, tendens til þess að vilja hlusta. Þau varnaðarorð sem hafa verið mælt eru að mínu mati það sterk og það öflug að okkur ber að taka tillit til þeirra.

Ég gef, satt að segja, ekkert fyrir það þó að einhverjar nefndir, sem ég held að telji nú bara 70 manns þegar allt er talið í þessu nýja seðlabankafrumvarpi, komi fyrir nefnd þingsins einu sinni á ári. Mér finnst það ekkert rosalega skilvirkt. Það róar mig ekki heldur.

Ég segi aftur: Ég held að við ættum að staldra við vegna þess að við höfum möguleika á því, það er ekkert sem rekur á eftir okkur. Fyrst að þetta mál er svona seint fram komið eins og raun ber vitni, eins og reyndar fleiri stórmál sem hafa komið inn í þingið á síðustu vikum, eigum við ekki að afgreiða það í flýti, ekki mál af þessari stærðargráðu. Okkur liggur ekkert á og við eigum að fara nánar yfir það. Við eigum að hlusta á þau varnaðarorð sem okkur eru gefin til kynna áður en við hröpum að því að gera eitthvað sem við eigum eftir að sjá eftir síðar.