149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:53]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er nokkuð ljóst að þetta mál er stórt og mikilvægt. Ekki af þeim sökum að það sé endilega gott, en það er mikilvægt vegna þess að alla tíð frá hruni, í það minnsta, hefur verið mikil viðleitni við að byggja upp gott og öflugt og áreiðanlegt fjármálaregluverk á Íslandi. Það hefur aðallega falist hingað til í því að tvær stofnanir, Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið, séu nægilega sterkar og burðugar til að geta sinnt sínu vel. Þetta mál kemur til núna af því að það eru ákveðnir veikleikar í núverandi fyrirkomulagi fjármálaregluverks á Íslandi sem snúa að þjóðhagsvarúð, innra eftirliti og öðru, og séð fram á að hægt sé að ná fram betri niðurstöðu með því að sameina stofnanirnar tvær, að mati sumra.

Ég ætla ekki að rekja og endurtaka það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir var að flytja þar sem ég er alfarið sammála því, enda er það úr áliti minni hlutans sem ég er hluti af. En hins vegar langar mig til að koma inn á nokkra punkta sem mér finnst ágætt að undirstrika. Fyrsti punkturinn er að það er í sjálfu sér ekkert beinlínis rangt við það að seðlabanki lúti einhvers konar ytra valdi. Við erum með bankaráð sem er nokkurs konar ytra vald sem er skipað af Alþingi en leitast er við það almennt að takmarka völd bankaráðs. Í rauninni byggir öll áherslan á það að Seðlabanki Íslands sé sjálfstæð stofnun, og sumir hafa kallað hann ríki í ríkinu, á því að við treystum ekki stjórnmálastéttinni á Íslandi. Jafnvel við hér á Alþingi treystum ekki sjálfum okkur, að þegar sumir komist til valda fari þeir ekki að pota í peningakerfið í pólitískum tilgangi og til að þjóna eigin hagsmunum. Sú ógn og sú hræðsla er áunnin. Hún er eitthvað sem við sem stjórnmálastétt og fólk í stjórnmálum þurfum að taka til okkar og líta það mjög alvarlegum augum að við séum það ótraustvekjandi að eigin mati að við getum ekki treyst hvert öðru til þess að fara vel með peningastefnu. Það er vissulega vandamál.

Á hinn bóginn verðum við að átta okkur á því að starf og hlutverk seðlabanka er að reka m.a. peningakerfi og peningakerfi er í eðli sínu pólitískt. Það að við séum með krónu frekar en evru eða einhvern annan gjaldmiðil er pólitísk ákvörðun. Það að markmið um verðbólgu skuli vera það sem það er, endurspeglar á vissan hátt ákveðna pólitík, þó svo að það liggi vissulega einhver hagfræði til grundvallar.

Ég nefni þetta bara til að halda því til haga að það er ekki til neitt augljóst og eðlilegt fyrirkomulag á rekstri Seðlabankans heldur er það í sjálfu sér alltaf ákvörðun hvers tíma. Rökin sem hafa verið færð fyrir því að gera þetta núna með þessum hætti eru, að hluta til, að einhver eða einhverjir hafa verið staðnir að því að stunda svona hlaupa til mömmu og hlaupa til pabba leik. Þegar fjármálaeftirlitið er ekki nógu hrifið af einhverju er leitað til Seðlabankans og þeim er stundum att saman í þágu einhvers þriðja aðila.

Eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta er augljósa lausnin á þessu hreinlega sú að þessar tvær stofnanir tali meira saman, að þær hafi betri samskipti sín á milli. Þetta virkar í sumum löndum, virkar t.d. í Þýskalandi. Engu að síður er ákveðið að fara þessa leið og það eru önnur rök færð fyrir því. En þegar við vorum að fara í gegnum málið í nefndinni varð ég að viðurkenna, margítrekað fyrir sjálfum mér og öðrum sem þar voru, að ég skildi ekki og skil ekki enn nákvæmlega fyrir hvern þessi tiltekna lausn er.

Ég er alveg sammála sumum markmiðunum, t.d. um að koma allri þjóðhagsvarúð undir einn hatt. En ég óttast að lausnin sé hönnuð til að fá minnstu mögulega mótstöðu frá núverandi kerfi, frekar en að fá bestu mögulegu lausn til framtíðar. Og nú er ekki sjálfgefið að það sé endilega til ein besta lausnin. Það má vel vera að þetta sé í raun og veru óásættanleg lausn sem menn sætta sig við engu að síður til að fá niðurstöðu vegna þess að það var gerð krafa um niðurstöðu út úr ferlinu frekar en að koma fram með bestu mögulegu niðurstöðuna, sem gæti jafnvel verið sú að hafa óbreytt ástand. Við getum í rauninni ekki sannfærst um að þetta hafi verið besta mögulega niðurstaðan eða að þetta sé endilega ásættanleg lausn vegna þess að mat margra umsagnaraðila og jafnvel flestra er að málið hafi verið unnið í miklum flýti. Það er vissulega búið að skrifa margar skýrslur, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á áðan, sem segja að það eigi að fara í þessa sameiningu. En þær voru ekki mjög skýrar um hvernig ætti að gera það. Og það er ekki sama hvernig þetta er gert.

Þannig að ég stend frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um hvort það sé réttast að fara þessa tilteknu leið, í þeirri von að hún sé nógu góð til þess að ná markmiðunum, hún sé nógu skýr til þess að það komi ekki upp frekari vandamál síðar og að hún valdi ekki þeim fjölmörgu vandamálum sem borin hafa verið upp, eða hvort ég segi, og það er sú niðurstaða sem ég hef komist að, að það væri betra að vinna þetta mál betur. Það er ekki endilega vegna þess að það sé ekki búið að vinna það lengi heldur vegna þess að niðurstaðan virðist hafa verið búin til með það fyrir augum að búa til niðurstöðu, frekar en að þetta væri besta mögulega lausnin.

Gott og vel. Þá er ekkert annað til í dæminu, úr því að það er greinilega mikill vilji hjá meiri hlutanum til að ýta málinu í gegn, en að við gerum það í það minnsta eins skaðlaust og hægt er. Mér fannst afskaplega gott að eiga stuttan fund í Seðlabankanum um daginn þar sem við fórum með tveimur sérfræðingum, sem hafa verið lengi í þessum bransa, yfir það hvernig væri hægt að bæta þetta. Það fyrir utan umræður í nefndinni og umræður við aðra í 1. minni hluta leiddi af sér breytingartillögur sem ég held að allir ættu að geta sætt sig við. Þær ganga út á að reyna að þoka hlutunum í þá átt að við höfum meiri aðkomu að eftirliti, tryggari aðila sem eru í bankaráði, meiri fagmennsku heilt yfir — ekki að það hafi skort á fagmennsku hjá Seðlabanka Íslands nokkurn tímann en við þurfum að passa sérstaklega vel upp á þetta þegar svona rosalega margt er sett undir einn hatt sem hefur þetta mikið sjálfstæði.

Skýrasti punkturinn sem kom út úr þessum samtölum var nauðsyn þess að það væru skýr markmið. Þá meina ég annaðhvort mælanleg markmið eða markmið sem er hægt að staðfesta að hafi verið náð með einhverjum öðrum hætti en eiginlegri mælingu. Þau markmið séu þess eðlis að við getum með reglubundnum hætti sagt: Já, þetta hefur náðst, eða: Nei, þetta hefur ekki náðst. Svo sníðum við stakk eftir því vegna þess að til lengri tíma litið, og ég held að það geri sér allir grein fyrir því, þá er þetta ekki lokamynd Seðlabanka Íslands, jafnvel þó að málið fari svona í gegn. Seðlabankinn, sem og aðrar stofnanir á Íslandi, kemur alltaf til með að þróast. Mikilvægi þess að við höfum góðar upplýsingar um það hvort þetta fyrirkomulag skili þeim árangri sem er lagt upp með er ákveðið lykilatriði í því að tryggja að niðurstaðan verði sem allra best.

Þó svo að maður sé ósammála því að gera þetta með þessum hætti núna, þá eigum við alla vega að sammælast um að ef við getum gert þetta betra í framtíðinni gerum við það.

Ég ætla ekki að hafa lengra að svo stöddu. Nefndarálit 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar tekur á helstu aðalatriðunum en ég skil bara eftir þá heimspekilegu vangaveltu hvort það sé endilega til lausn sem er réttust um skipulag seðlabanka og fjármálaeftirlits og fjármálaregluverks í landi sem Íslandi og hvort einhver trúi því raunverulega að þetta sé sú lausn.