149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[19:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands og frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Hér er auðvitað mjög stórt mál uppi, herra forseti. Hér ræðir um sameiningu tveggja afar mikilvægra stofnana sem gegna þýðingarmiklu hlutverki í efnahagslífi landsmanna.

Seðlabankinn hefur haft tvö meginmarkmið. Annað lýtur að stöðugleika í verðlagsmálum og hitt að fjármálastöðugleika. Þetta eru grundvallarþættir í efnahagslífinu. Síðan hefur Seðlabankinn ýmis önnur mikilvæg verkefni með höndum, eins og til að mynda að vera lánveitandi til þrautavara, svo eitthvað sé nefnt.

Seðlabankinn hefur í gegnum tíðina haft mikilvæg verkefni með höndum, til að mynda að halda úti gjaldeyrisvarasjóði og hafa umsjón með ávöxtun þeirra fjármuna. Seðlabankinn á að baki langa sögu sem eins konar banki ríkissjóðs, í vissum skilningi. Hann hefur á grundvelli samkomulags haft mjög lengi umsjón með lántökum ríkissjóðs á alþjóðlegum markaði, þó að eðli málsins samkvæmt hafi kannski ekki farið mjög mikið fyrir þeirri starfsemi á nýliðnum árum.

Seðlabankinn hefur lengst af haft með höndum samskipti við erlend matsfyrirtæki sem hafa gefið út álit á lánshæfi ríkissjóðs. Það eru ein þrjú erlend fyrirtæki sem menn þekkja úr fréttum, Moody's, Standard & Poor's og Fitch, heita þau.

Seðlabankanum hefur verið stýrt undanfarin ár með þeim hætti að þar hefur verið einn bankastjóri og aðstoðarbankastjóri honum til fulltingis við ákvarðanir um peningastefnu. Um vexti í lánaviðskiptum Seðlabankans og viðskiptabanka og annarra slíkra aðila hafa á þeim vettvangi verið teknar ákvarðanir sem í daglegu tali eru kallaðir stýrivextir en hafa haft ýmis heiti í ritum Seðlabankans. Hygg ég að um þessar mundir sé talað um meginvexti, eða eitthvað af því taginu. Vaxtaákvarðanir bankans hafa náttúrlega mjög mikla þýðingu og eru mjög mikil álitamál uppi í því sambandi. Bankinn hefur kosið að halda uppi hærri vöxtum hér en víðast hvar í okkar nágrannalöndum og þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við og hefur út af fyrir sig rökstutt sína afstöðu í þeim efnum. Hún hefur engu að síður verið umdeild.

Seðlabankinn varð fyrir því, ef ég má orða það svo, að honum var falið nýtt og óvænt verkefni í kjölfar hrunsins, sem svo er oftast nefnt, í október 2008, þegar gjaldeyriseftirlitið var endurvakið. Var sett á laggirnar allfjölmenn deild í bankanum sem hafði það verkefni að hafa uppi eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum og að fylgt væri þeim reglum sem um þau viðskipti giltu á þessum tíma. Eins og menn rekur kannski minni til var það gert að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að tekin voru upp allvíðtæk höft í þeim efnum. Menn þekkja líka hvernig til tókst. Það kom á daginn að Seðlabankinn var greinilega ekki vel undir það búinn að hafa verkefni þetta með höndum vegna þess að það kallar á að innan veggja þeirrar stofnunar sem á að rækja slík verkefni sé mikil sérþekking á meðferð mála sem upp koma, að ekki sé talað um þegar það geta verið mál sem snúa af því að aðilar hafi gengið á svig við lög og eigi yfir höfði sér einhverjar ávirðingar af þeim sökum. Það er mjög sérhæft verkefni þegar um slík mál er fjallað.

Menn þekkja að bæði dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð Seðlabankans í þessum efnum. Menn þekkja það vel til að mynda í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, þar sem umboðsmaður Alþingis kom nýlega á opinn fund, sem ég ætla að sé aðgengilegur á vef Alþingis, þar sem hann talaði með, leyfi ég mér að segja, býsna beinskeyttum hætti um eitt og annað sem hefði farið miður í meðförum bankans gagnvart aðilum sem bankinn greinilega taldi, með réttu eða röngu, að hefðu ekki gætt sem skyldi allra ákvæða þeirra laga og reglna sem bankinn taldi að væru í gildi. Það er auðvitað allt of langt mál að fara nánar út í þetta. En það sem ég vildi bara draga fram með þessum fáu orðum er að það er nýleg reynsla fyrir því að á mikilvægu stjórnsýslulegu sviði reyndist Seðlabankinn ekki alveg nægilega vel undir það búinn að rækja slík verkefni en situr þvert á móti uppi með dóma og þunga gagnrýni, verður að segjast, á sín störf í þessum efnum. Þess vegna verð ég að leyfa mér að segja að þegar í beinu framhaldi kemur fram stjórnartillaga um að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið er það nokkurt áhorfsmál, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ég vil vísa til nefndarálits frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í málinu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ritar undir. Þar er því lýst að 2. minni hluti telji, með leyfi forseta, „að skynsamlegt sé að fresta samþykkt frumvarpanna um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar að ýmsum álitamálum sem enn er ósvarað, ekki síst vegna ábendinga úr mörgum áttum þar sem varað er við því að viðskiptaháttaeftirlit verði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins“.

Undir þetta álit vil ég taka. Málið er þannig vaxið að það þarf nánari skoðunar við.

Herra forseti. Fjármálaeftirliti og seðlabankastarfsemi er skipað með ýmsum hætti í nágrannalöndum og þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Það er engin algild formúla til í þeim efnum og þetta er auðvitað matskennt. Það eru sjónarmið sem vegast á. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að það sé tekinn góður tími til þess að huga að þeim mörgu álitaefnum sem uppi hljóta að vera þegar svo mikilvæg ákvörðun er tekin, þ.e. að sameina þessar tvær stofnanir

Nú er eftirlit með fjármálafyrirtækjum nokkuð annars eðlis en þau meginverkefni Seðlabankans sem ég lýsti hér í sem stystu máli og snúa að stöðugleika í verðlagsmálum og fjármálastöðugleika. Þar erum við að tala um eftirlit með einstökum fjármálastofnunum og er það náttúrlega eðlisólíkt verkefni, verður að segjast og gefur að skilja og hlýtur hver maður að sjá að það er ekki augljóst mál að slík verkefni eigi að vera innan sömu stofnunar og að einni stofnun sé falið svo umfangsmikið verkefni. Við getum líka talað um, eftir atvikum, það þjóðfélagslega vald sem þar er uppi. Það er út af fyrir sig áhorfsmál.

Eftirlit með störfum Seðlabankans hefur kannski ekki verið eins öflugt og æskilegt væri. Það hefur komið fram að hlutur bankaráðsins er kannski ekki eins sterkur og ákjósanlegt væri. Og þó að fundir hér á Alþingi þegar fulltrúar bankans koma til að greina frá einkanlega störfum bankans á sviði stöðugleika í verðlagsmálum séu mjög góðra gjalda verðir, þá eru þeir að nokkru leyti ekki alveg öllu leyti hentugir sem vettvangur til að kryfja og greina stefnu bankans og til þess að inna forsvarsmenn bankans með svo nákvæmum hætti sem væri kannski efni til í sumum tilfellum og æskilegt væri. Þetta segi ég vegna þess að þessir fundir eru opnir. Það er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja. Allmikill fjöldi nefndarmanna situr þessa fundi og tími fyrir hvern og einn til að ræða mál sem kunna að brenna á hverjum og einum er þeim mun styttri eftir því sem fjöldinn er meiri af nefndarmönnum og spurningum. Það er erfitt að koma alltaf við eins mikilli umræðu og krefjandi spurningum og æskilegt væri. Ég er þakklátur fulltrúum bankanna sem hafa komið á þessa fundi og ég tel að þeir hafi staðið sig með ágætum og hef ekkert út á þá að setja að einu eða neinu leyti. Ég er bara, herra forseti, að benda á að þetta form er ekki í öllum atriðum fallið til þess að það takist samtal af því tagi sem a.m.k. á stundum væri nauðsynlegt og æskilegt um einstaka þætti, og að ég ekki tali um þegar komið er út í hin fínni blæbrigði peningastefnunnar og þeirra ákvarðana sem eru teknar. Þarna eru auðvitað mjög stór mál uppi.

Að auki er bankanum falið þjóðfélagslegt vald. Hann hefur vald til að hafa áhrif á tvær meginstærðir í efnahagslífinu, stærðir sem ganga í gegnum efnahagslífið gervallt. Það eru annars vegar vextirnir og hins vegar gengi gjaldmiðilsins. Þessar tvær hagstærðir hafa algjöra sérstöðu að þessu leyti og þarna er einni stofnun falið þetta vald. Og svo er meiningin að fela henni mjög mikið vald til eftirlits og umfjöllunar um málefni einstakra fjármálastofnana. Og þar er efinn, herra forseti. Eins og þetta mál er vaxið og sú skipan mála sem hér er, a.m.k. við ríkjandi aðstæður og í ljósi nýlegrar reynslu, má efast um hvort rétt sé að kalla fram þessa sameiningu. Þá væri kannski frekar skynsamlegt, eins og segir í áður tilvitnuðu nefndaráliti 2. minni hluta, að fresta samþykkt frumvarpanna um sinn.

Þannig stendur á í þessum töluðu orðum að farið er að gæta allmikillar tímapressu, eins og gefur að skilja þegar hér hafa átt sér stað miklar viðræður á milli leiðtoga stjórnmálaflokkanna um það með hvaða hætti Alþingi ljúki störfum á þessu vori. Og ég verð að segja að mér finnst ekki sérlega góður bragur á því að ákvarðanir af þessu tagi sem snerta mjög þýðingarmikil og viðkvæm mál séu teknar við slíkar aðstæður, teknar í einhverri skyndingu á hlaupum. Það er ekki góður bragur á því.

Ég ítreka það sjónarmið að þetta mál hefði gott af því að fá nánari skoðun og nánari umfjöllun áður en þessi frumvörp verða lögfest.