149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[19:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ef ég skil þetta rétt er hér fjallað um tvö mál saman, þ.e. bæði málin er varða Seðlabankann, og er vitanlega um stórmál að ræða í báðum tilvikum. Mörg álit bárust, nokkrar umsagnir sem eitthvert mark hefur verið tekið á og farið hefur verið í breytingar sem mér sýnast vera til bóta að flestu leyti. 2. minni hluti leggur til varðandi lög um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins að málinu verði frestað og það unnið betur. Ég tek undir að skynsamlegt sé að gera slíkt. Ég held líka að það sé nauðsynlegt að það komi fram, hæstv. forseti, að ég tel eðlilegt, verði þessi frumvörp samþykkt á næstu dögum eða í haust, hvernig sem það verður allt saman, að menn bíði með ráðningar seðlabankastjóra og að þessar stöður verði auglýstar að nýju. Það er svolítið sérstakt að vera í því ferli að ráða nýjan seðlabankastjóra, samþykkja svo breytingar á lögum og ráða þá aðstoðarseðlabankastjóra o.s.frv. Ég held að það sé skynsamlegra að menn taki þá ákvörðun strax að fresta ráðningu seðlabankastjóra. Ég tel það eðlilegt í ljósi þeirra laga sem við erum að setja.

Í álitum sem skilað er inn er töluvert fjallað um hlutverk bankans og hlutverk Fjármálaeftirlitsins og hvort það fari skynsamlega saman. Það er fjallað um sjálfstæði stofnunarinnar og möguleika hennar til að starfa sjálfstætt. Maður hefur líka séð einhverjar vangaveltur um það, og kemur held ég fram í áliti frá 1. minni hluta, að Seðlabankinn geti ekki orðið það stórt og mikið batterí í okkar stjórnsýslukerfi að hann lúti engum lögmálum. Vitnað er til tengsla við fyrirtæki og jafnvel stofnanir. Samtök atvinnulífsins eru með býsna ítarlega umsögn um sameininguna þar sem þau fjalla um það vald sem um er að ræða. Þau ræða um fjölskipaða bankastjórn o.s.frv.

Mér sýnist að nefndin hafi unnið vel í málinu, eins og fram kemur í áliti minni hlutans. Þar er ágætlega farið yfir þær breytingar sem nefndin leggur til. Það er ljóslega langur aðdragandi að þessum breytingum, ekki síst þeim er varða sameininguna, og eðlilegt í ljósi fjármálakreppunnar og þess sem þá dundi á okkur að þessir hlutir séu skoðaðir. Í áliti meiri hluta nefndarinnar er ágætlega farið yfir þá sögu og hverjir komu að málinu, fræðimenn, sérfræðingar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn o.s.frv. Þar er gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem liggja fyrir og hvaða áhrif þær kunni að hafa. Auðvitað sýnist sitt hverjum um tillögurnar en ég tek undir með 2. minni hluta, mér sýnist að þær séu til bóta.

Í einni af breytingartillögum meiri hlutans, um heildarlaun, í 790. máli, um Seðlabankann, eru lagðar til breytingar á þeim málslið sem veitir ráðherra heimild til að ákveða laun seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að lokamálsliður 3. mgr. 5. gr., sem veitir ráðherra heimild til að ákveða að laun seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á forsendum launabreytinga samkvæmt ákvæðinu, falli brott.“

Hér kemur fram að tillagan sé til samræmis við breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, 413. mál. Það má segja að það sé eðlilegt að samræma þetta. Að sama skapi þurfum við að velta fyrir okkur hinni eilífu spurningu um sjálfstæði stofnana.

Síðan er rætt um að sérfræðingar í bankanefnd komi fyrir þingnefndir og að fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd þurfi að skila Alþingi skýrslu. Ég held að það sé mjög til bóta að Alþingi fái skýrari mynd eða geti sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi með því að fá skýrslu sem þessa. Lagt er til að það verði árlega en ekki tvisvar á ári eins og á við um peningastefnunefnd þannig að í sjálfu sér er verið að auka gagnsæið í störfum bankanefnda. Þetta held ég að sé til bóta. Síðan er talað um birtingar ákvarðana og fundargerða fjármálastöðugleikanefndar.

Ég held að það sé í raun sama hvar við endum með þetta mál, það er mikilvægt að lagaumgjörð þessarar stofnunar sé skýrð, hvort sem sameiningin verður eða ekki. Auðvitað er vont fyrir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eða Seðlabankans, ef einhver óvissa er um hvernig framtíðarmyndin mun líta út. Það er til bóta ef hægt er að skýra það með einhverjum hætti en þrátt fyrir það megum við ekki flýta okkur og sitja jafnvel uppi með verri ákvarðanir en ekki. Þetta er stórt mál sem mjög lengi hefur verið unnið að eins og hér hefur komið fram.

Það er eðlilegt að gera aðeins grein fyrir áliti 1. minni hluta í þessu máli öllu. Þar eru heldur fleiri varnaglar slegnir en í áliti meiri hlutans og ljóst að þeim hefur þótt eðlilegt að taka mið af því sem gert er erlendis. Hér er óskað eftir upplýsingum frá Englandi, Þýskalandi og fleiri stöðum sem er eðlilegt þegar verið er að fara yfir þetta mál. Þau gera sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins nokkuð að umræðuefni sem er eðlilegt. Það er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið sé áfram sjálfstætt og ég hugsa að hægt sé að útfæra slíkt innan bankans. Við vitum að rætt hefur verið um að sérstakur bankastjóri eða forstöðumaður sé yfir því sviði eða þeirri deild eða hvað við köllum það. Það undirstrikar enn frekar það sem ég sagði í upphafi míns máls, herra forseti, að eðlilegt sé að fresta ákvarðanatöku um ráðningu seðlabankastjóra þar til þetta hefur verið samþykkt og auglýsa stöðurnar allar í einu og að nýju. Ég held að það setji betri svip á málið. Seðlabankinn er slík stofnun að um hann þarf að ríkja, eins og gerði á árum áður, eins mikil eining og traust til yfirstjórnar og mögulegt er. Það traust þarf kannski að vinna til baka á löngum tíma eins og á við um sumar aðrar stofnanir sem hafa látið á sjá síðan í hruninu, en það er þá hlutverk nýrrar stofnunar að vinna í því. Það gæti farið vel á því að auglýst sé að nýju og yfirstjórn ráðin öll í einu.

Í áliti 1. minni hluta segir, með leyfi forseta:

„Það er því nauðsynlegt að lágmarka þann möguleika að ráðherrar geti haft áhrif á aðgerðir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Ákvarðanir þessara tveggja mikilvægu stofnana eru þannig mun líklegri til þess að verða óumdeildar.“

Undir þetta er hægt að taka. Það er mikilvægt að Seðlabankinn sé á hverjum tíma algjörlega sjálfstæður og ég hygg að svo sé. Ég held að við höfum jafnvel séð í bankahruninu og eftirleik þess að bankinn sýndi ákveðið sjálfstæði. Eðlilega var það umdeilt, en það var sýnt ákveðið frumkvæði og sjálfstæði sem eftir var tekið. Ég held að það hafi í sjálfu sér reynst ágætt að þannig var tekið á málum á þeim tíma. Ég held að það hefði verið verra ef bankinn hefði lotið lögmálum stjórnmálamanna akkúrat þá. Það var mikilvægt að halda festu, ró og ákveðinni stefnu á þeim tíma.

Í ræðum hafa menn velt upp vangaveltum um peningastefnu og að gert sé ráð fyrir henni óbreyttri. Ég held að það sé nokkuð sem hljóti að þurfa að endurskoða á hverjum tíma. Það hlýtur að þurfa að vera lifandi umræða um það hvort sú stefna sem rekin hefur verið varðandi gengi, vexti og slíkt sé það besta sem við getum boðið upp á. Auðvitað þarf það samtal að fara fram á milli Seðlabankans og þeirra sem fara með hagstjórnartækin. Ég held í það minnsta að samræmi þurfi að vera þarna á milli þannig að ákvarðanir stofnunarinnar endurspegli líka efnahagslegan veruleika og taki mið af því sem þar er í gangi.

Ég hef líka oft velt vöngum yfir því þegar við höfum séð yfirmenn stofnunarinnar koma fram og gagnrýna ákveðna hluti, spá jafnvel vondum hlutum sem eiga að geta gerst ef hitt og þetta gerist með einum eða öðrum hætti — menn hafa varað við kjarasamningum o.s.frv. — að það er líka mikilvægt að ef við lendum í þeirri stöðu að aftur komi einhvers konar fjármálakrísa eða hrun á Íslandi séu stjórnendur Seðlabankans þannig vaxnir að þeir geti staðið af sér storminn, tekið stóru myndina og fókuserað á það sem mestu skiptir.

Þá rifjast upp hið svokallaða Icesave-mál. Ýmsir fræðimenn og hagfræðingar sem jafnvel núna hafa hlutverki að gegna innan Seðlabankans vöruðu við því að ef Ísland borgaði ekki þennan reikning, borgaði brúsann eins Bretar og Hollendingar vildu að við gerðum, kynni það hafa í för með sér mikla óáran fyrir íslenska þjóð. Hæstv. viðskiptaráðherra sem þá var varaði sérstaklega við því og gott ef menn töluðu ekki um Kúbu norðursins o.s.frv. Það er mikilvægt að í Seðlabankanum séu ráðamenn sem tala ekki þannig, sem bogna ekki þrátt fyrir þrýsting erlendis frá. Það var of algeng umræða á árunum eftir hrun að telja alþjóðasamfélagið eitthvað sem maður þyrfti að beygja sig fyrir. Sem betur fer voru hér einstaklingar sem tóku sig til og börðust hart gegn því. Á Alþingi voru þingmenn sem stóðu af sér storminn. Niðurstaðan varð miklu hagfelldari fyrir Ísland en hefði getað orðið, við reyndumst óbundin af því að greiða þá miklu reikninga sem stjórnmálamenn og fræðimenn, jafnvel ráðherrar og menn sem nú sitja í bankaráði Seðlabankans, vildu að við tækjum á okkur.

Það er ekki gott veganesti, herra forseti, inn í það að fara af stað með nýjan Seðlabanka, nýja sameiginlega stofnun, ef það er ekki á hreinu að stjórnendur hennar í dag eða væntanlegir sjái stóru myndina, geri sér grein fyrir því hvað er ekki eingöngu löglegt fyrir Íslendinga heldur líka réttlátt. Við beittum fyrir okkur bæði því sem var að lögum og réttlætingu þess að greiða ekki og taka ekki á okkur þessar skuldir sem menn með gráður, dósentar og slíkt, sögðu að yrði dýrkeypt fyrir Ísland.

Það er mikilvægt að vel takist til með þessa lagasetningu. Ég held að nefndin hafi unnið mjög vel í þessu máli og formaður nefndarinnar lagt sig fram um að gera þetta mál vel úr garði sem og aðrir nefndarmenn. Án efa má breyta einhverju og bæta. Málið er til bóta eins og kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta, en það er kannski ekki besta lausnin að samþykkja það núna. Það kann að vera að betra sé að vinna það betur.

Í áliti 2. minni hluta kemur fram, með leyfi forseta:

„Hins vegar telur 2. minni hluti að skynsamlegt sé að fresta samþykkt frumvarpanna um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar að ýmsum álitamálum sem enn er ósvarað, ekki síst vegna ábendinga úr mörgum áttum þar sem varað er við því að viðskiptaháttaeftirlit verði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.“

Undir þetta er vert að taka.

Það er alltaf vandkvæðum bundið þegar við viljum fækka ríkisstofnunum, sameina stofnanir, að ákveða hvar það er gott og hvar ekki. Einhver kynni að segja að þetta sé eðlilegt en þá hljótum við að gera kröfu um að af hljótist hagræðing og sparnaður. Þetta á ekki bara að vera upp á punt, bara til að búa til einhverja sterka valdastofnun. Það er eðlilegt að af þessu verði hagræðing ef þannig má orða það.

Að lokum held ég að ég ítreki það sem ég sagði í upphafi, að eðlilegt sé að fresta því að ráða seðlabankastjóra eins og til stendur að gera og skoða þetta allt saman í einu. Það er skrýtið að samþykkja ný lög á meðan ráðningarferlið er í gangi, það er eðlilegt að fresta því. Ég vona að þegar að því kemur að manna þessa nýju öflugu stofnun eftir þessar breytingar, þegar þetta hefur verið samþykkt, hvernig sem það mun allt saman líta út, verði ekki eingöngu horft á pappírana sem liggja fyrir heldur líka til þess úr hverju menn eru gerðir, hvað skiptir máli í stóra samhenginu, hvar varnir Íslands liggja þegar kemur að þessum gríðarlega mikilvæga þætti okkar efnahagslífs, sjálfum Seðlabankanum. Læt ég það verða mín lokaorð, hæstv. forseti.