149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[20:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið í minni fyrri ræðu, náði ekki að klára það tímans vegna, þar sem ég var að fara yfir þau atriði í frumvarpinu sem mér þótti athyglisverðust. Ég vil þá víkja aðeins að 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til í 3. mgr. að ákveðnar ákvarðanir verði teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórunum þremur og eru þær tæmandi taldar í málsgreininni.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað eins aðstoðarseðlabankastjóra verði skipaðir þrír varaseðlabankastjórar, en orðalagið varaseðlabankastjóri þykir lýsa starfinu betur en aðstoðarseðlabankastjóri. Ég kom reyndar aðeins inn á þetta í fyrri ræðu minni. Gert er ráð fyrir að hver varaseðlabankastjóri stýri málefnum bankans á því sviði sem hann er skipaður til að leiða, undir yfirstjórn seðlabankastjóra. Þannig er lagt til að einn varaseðlabankastjórinn leiði málefni er varða peningastefnu, annar leiði málefni er varða fjármálastöðugleika og sá þriðji leiði málefni er varða fjármálaeftirlit.

Í 8. gr. kemur fram að ef bankaráðið telur tilefni til að gera athugasemdir við starfsemi bankans getur ráðið látið í ljós álit sitt við seðlabankastjóra eða aðra innan bankans. Er afstaða bankaráðsins ekki bindandi fyrir seðlabankastjóra, nefndir eða aðra sem fara með ákvörðunarvald í umræddu máli nema slíkt verði beinlínis leitt af stafliðum 1. mgr. Bankaráðinu er heimilt að upplýsa Alþingi eða aðra um starfsemi ráðsins og Seðlabankans, enda sé gætt að ákvæðum laga um þagnarskyldu.

Síðan vil ég líka vekja athygli á að í 2. mgr. 8. gr. er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um upplýsingagjöf til bankaráðs, en í því felst að stjórnendur Seðlabankans skuli veita bankaráði þær upplýsingar um bankann og félög sem bankinn á sem eru nauðsynlegar til að bankaráðið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þá er lagt til að lögfest verði skylda seðlabankastjóra til að upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur.

Ég nefndi í fyrri ræðu minni að óneitanlega er svolítið sérstakt að þurfa að setja svona áherslu eða slíkt ákvæði í lög. Reyndar verður eiginlega að segja, herra forseti, að það er svolítið með ólíkindum. Ástæðan er auðvitað sú að undanfarin ár hefur bankaráðið meira og minna verið hunsað. Það er bara eitthvað sem er staðreynd og við höfum orðið vör við.

Í 2. málslið 1. mgr. 28. gr. er, eins og í núgildandi 1. málslið, kveðið á um að Seðlabankanum sé heimilt að stofna eða eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi og verðbréfaskráningar. Þá er að finna það nýmæli í málsliðnum að einnig er vísað til fyrirtækja og stofnana á sviði greiðslumiðlunar, en áður var að finna tilvísun til greiðslukerfa. Einnig er lagt til að bætt verði við ákvæði um heimild bankans til að stofna eða eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum vegna umsýslu fullnustueigna og krafna og annarra verkefna sem tengjast starfsemi bankans. Mikilvægt er að þessi heimild Seðlabankans komi skýrt fram í ákvæðinu enda hefur honum verið talið heimilt að stofna slík félög hingað til, t.d. Eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands ehf., en tilgangur þess var að fara með eignarhald og umsýslu á kröfum og fullnustueignum sem bankinn leysti til sín í kjölfar fjármálaáfallsins haustið 2008. Þetta felur því ekki í sér efnislega breytingu heldur er til áréttingar.

Ég vil nefna í þessu sambandi að ég lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra til skriflegs svar fyrir þó nokkuð löngu síðan um eignarhaldsfélag Seðlabankans og þá starfsemi sem þar fór fram. Skort hefur mikið á gagnsæi eða gegnsæi, eins og við orðum það kannski frekar, í starfsemi þessa félags og dótturfélags Hildu ehf. Það verður að segjast eins og er, og ástæðan er kannski sú, að þetta hefur valdið tortryggni vegna þess að þau félög hafa verið undanþegin upplýsingalögum og til stóð að framlengja það ákvæði sem rann út um áramótin. Ég veit ekki hver staðan er á því máli. Ég óskaði eftir upplýsingum um þetta í fyrirspurn minni og ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með hversu seint tekur að vinna svar við henni. Fleiri fyrirspurnir hafa verið lagðar fram en ekki hafa borist svör við þeim jafnvel svo mánuðum skiptir. Um þetta hefur verið rætt hér og atbeina forseta þingsins verið óskað til að ýta á eftir þessum málum. Ég ítreka þetta í þessu samhengi, herra forseti, vegna þess að hér er fjallað um Eignarhaldsfélag Seðlabankans Íslands.

Ég vil að lokum koma aðeins inn á nokkrar ágætar umsagnir sem bárust nefndinni. Þar er t.d. umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja og umsögn frá Viðskiptaráði Íslands. Ég ætla aðeins að staldra við þá umsögn þar sem rætt er um hagræðingu af sameiningu stofnana. Þar segir, með leyfi forseta:

„Viðskiptaráð hefur ætíð talað fyrir hagræðingu í opinberum rekstri svo að fjármunir nýtist sem best og til að tryggja góða þjónustu.“

Hér kemur Viðskiptaráð inn á það og getur auk þess að það skapist enn fremur hagræðing hjá fjármálafyrirtækjum sem þurfa að skila upplýsingum til eins aðila í stað tveggja. Það er svo sem jákvætt.

Fram kemur hjá Viðskiptaráði að það sé eðlileg krafa þegar verið er að sameina ríkisstofnanirnar eins og þessar, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, tvær mjög mikilvægar stofnanir, að í því felist einhver hagræðing. Vegna þess að ljóst er að sumt af því sem hefur verið unnið innan beggja þessara stofnana, sérstaklega í greiningarvinnu, þ.e. að báðar þessar stofnanir hafa að hluta til verið að vinna að sömu hlutunum. Í því sambandi á að vera sú krafa, vil ég segja, herra forseti, að horft sé til þess að nýta fjármuni sem best og hægt sé að hagræða í rekstri vegna þessarar sameiningar. Það er ekki. Tekið var sérstaklega fram þegar áform voru kynnt í upphafi um að ekki stæði til að fækka starfsmönnum. Ég held, með fullri virðingu fyrir því ágæta starfsfólki sem starfar við þær stofnanir, að það yrði tiltölulega auðvelt fyrir það að fá starf á sínu sviði. Þetta er yfirleitt allt sérfræðingar sem hafa mikla og sérhæfða þekkingu sem nýtist á ýmsum sviðum. En að mínu mati á það að vera markmið að í þessu felist einhvers konar hagræðing.

Viðskiptaráð kemur inn á það að hér sé að verða til einstaklega valdamikil stofnun og ýjar að því að vald Seðlabankans sé jafnvel orðið of mikið. Fleiri aðilar eða stofnanir hafa lýst þeim áhyggjum. Samtök fjármálafyrirtækja og Kauphöll Íslands hafa viðrað sams konar áhyggjur. Í ljósi slíkra athugasemda þarf að grandskoða hvernig hæfileg valddreifing innan Seðlabankans sé tryggð og að honum sé veitt gott aðhald. Ég læt það vera (Forseti hringir.) mín síðustu orð í þessari umræðu.