149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil næst víkja aðeins að umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja þar sem samtökin koma inn á að endurreisa málskotsnefndina á fjármálamarkaði sem var lögð niður á sínum tíma og samtökin hafa lagt áherslu á að verði endurvakin. Fyrir því hafa þau fært ágætisrök. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Sameining Seðlabankans og FME felur í sér viðamikla kerfisbreytingu …“

Undir það skal heils hugar tekið og ég hef aðeins komið inn á það í fyrri ræðum mínum. Það verður sem sagt til afar öflug stofnun eins og við Miðflokksmenn höfum komið inn á í okkar ræðum.

„SFF leggja á það þunga áherslu að þessi þróun styrkir rök fyrir því að orðið verði við ákalli SFF um að komið verði á fót málskotsnefnd, í líkingu við þá nefnd sem áður starfaði, sem fjármálafyrirtæki geti skotið ágreiningsmálum til“ og fengið tiltölulega hraða afgreiðslu hvað það varðar. Það er mikilvægt. Þau færa rök fyrir því að þróunin á regluverki á fjármálamarkaði „hefur verið með þeim hætti að eftirlitsaðilar hafa fengið í síauknum mæli afar víðtækar og jafnvel matskenndar eftirlitsheimildir og eftirlitsúrræði sem ekki byggja í öllum tilfellum á skýrri lagastoð“.

Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Við sjáum hvað gerist þegar Seðlabanki Íslands fær í hendurnar hið stóra og mikilvæga verkefni gjaldeyriseftirlitið. Pottur er brotinn og rúmlega það í því eftirliti og ég vil meina að það hafi rýrt trúverðugleika Seðlabankans hvernig haldið var á ákveðnum málum þar. Þá vil ég sérstaklega nefna Samherjamálið.

Vegna þessa aukna eftirlits segja samtökin að það sé mikilvægt að þessir eftirlitsaðilar búi við virkt aðhald. Undir það tek ég heils hugar, herra forseti. Það er mikilvægt að eftirlitsaðilar sem þessir búi við „virkt aðhald æðra stjórnvalds til þess að tryggja að við beitingu eftirlitsheimilda séu óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins hafðar í heiðri þannig að við ákvörðun sé gætt meðalhófs og jafnræðis auk þess sem beitt verði málefnalegum sjónarmiðum við ákvörðunartöku“. Samtökin telja að sá vettvangur sem henti best hvað þetta varðar sé einmitt slík málskotsnefnd, að hún sé best til þess fallin að veita slíkt aðhald og að málskotsnefndin myndi styrkja starfsemi þess hluta hinnar nýju stofnunar sem fer með fjármálaeftirlit.

Verði þetta frumvarp að lögum erum við komin þarna með afar öfluga eftirlitsstofnun og það eru alveg góð og gild rök fyrir því að þá sé hægt að áfrýja málefnum og ágreiningi til æðra stjórnvalds. Það er fullkomlega eðlilegt í þessari aðstöðu og í réttarríki að það sé hægt. Þessi nefnd var felld brott á sínum tíma, árið 2006, og þá voru rökin m.a. þau að það væri svo mikill aflsmunur „milli bankakerfisins og eftirlitsaðila, vegna stærðar bankakerfisins, að mikilvægt væri fyrir FME að klippa á þessa málskotsleið“.

Ég árétta þetta hér vegna þess að mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og rétt að koma því betur á framfæri. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég sé að tímanum er lokið og legg áherslu á það að lokum að við förum vandlega yfir þetta mál og frestum því. Ég held að það sé mjög skynsamlegt og hér hafa margir fært góð rök fyrir því.