149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á nokkrum atriðum sem koma fram í umsögnum um þetta mikilvæga mál. Ég vil í upphafi máls míns ítreka þá afstöðu sem ég lýsti í fyrri ræðu minni um að þetta stóra mál hefði gott af því að fá nánari skoðun. Það er ekkert sem kallar á að það sé afgreitt í skyndingu. Nú þegar áberandi er farið að gæta tímaskorts er enn meiri ástæða til að leggja þetta mál til hliðar í bili og kanna miklu betur fyrirhugaða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Það er vert að kanna hvernig samtök fyrirtækja sem eru hér starfandi undir regnhlíf Viðskiptaráðs tjá sig. Þar er umsögn þar sem kemur fram að Viðskiptaráð sé fylgjandi sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, a.m.k. hvað varðar þætti sem snúa að fjármálastöðugleika. Þetta er býsna skilyrtur stuðningur við þessa sameiningu því að það er aðeins einn afmarkaður þáttur í málinu. Í umsögninni kemur fram að enda þótt sameining sé að mörgu leyti skynsamleg sé hún ekki gallalaus og, með leyfi forseta, ætla ég að vísa beint í umsögnina þar sem segir:

„Í fyrri umsögn benti Viðskiptaráð á að eftirlit með fjármálamörkuðum sé ólíkt þeim hlutverkum að stuðla að verð- og fjármálastöðugleika og snýr fyrst og fremst að því að farið sé eftir lögum og reglum. Slíkt starf getur skaðað trúverðugleika SÍ á öðrum sviðum líkt og reynslan af gjaldeyriseftirliti SÍ virðist sýna. Framkvæmd peningastefnu og önnur starfsemi SÍ verður aldrei sterkari heldur en trúverðugleiki hans, svo mikið er í húfi. Einnig verður til einstaklega valdamikil stofnun með sameiningu SÍ og FME og í greinargerð er vísað til rannsókna þar sem bent er á mögulega hagsmunaárekstra og að vald seðlabanka sé með þessu fyrirkomulagi jafnvel of mikið.“

Hér eru uppi varnaðarorð og þau eru studd tilvísun í erlent fræðirit. Þarna segir áfram, með leyfi forseta:

„Fleiri, t.d. Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Kauphöll Íslands, hafa viðrað sams konar áhyggjur sem er að nokkru leyti svarað í greinargerð frumvarpsins. Í ljósi slíkra athugasemda þarf að grandskoða hvernig hæfileg valddreifing innan Seðlabankans er tryggð og að honum sé veitt gott aðhald. Það má gera með ýmsum hætti. Ein leiðin væri að gera skýr skil milli fjármálaeftirlits eða viðskiptaháttaeftirlits og fjármálastöðugleika í stjórnskipun bankans, t.d. með því að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits sitji ekki í fjármálastöðugleikanefnd. Hvort sem slík leið eða önnur er skynsamleg eða ekki er ljóst að tryggja þarf að aðhald að bankanum verði nægilegt þar sem Seðlabankinn verður gríðarlega valdamikil stofnun.“

Mér þykja þetta gagnlegar ábendingar og athugasemdir. Þarna segir áfram um þetta nauðsynlega aðhald:

„Þar gegnir bankaráð lykilhlutverki og tryggja þarf að ráðið geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti þar sem það verður enn mikilvægara en áður ef af sameiningu verður. Í því felst meðal annars að hlutverk innri endurskoðanda verður mikilvægara en áður, en jafnframt ætti að kanna möguleika á að bankaráðið geti notið faglegs stuðnings utan Seðlabankans.“

Þarna er ábending sem mér þykir áhugaverð, herra forseti, þar sem segir, aftur með leyfi forseta:

„Það vekur nokkra athygli að heimild Seðlabankans til að lýsa yfir markmiði um gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum sé nú höfð í 2. gr. um markmið og verkefni Seðlabanka Íslands en ekki í VIII. kafla um gengismál, gjaldeyrismarkað og erlend samskipti sem væri sambærilegt við núgildandi lög. Ekkert hefur komið fram um að til standi að koma á sérstöku gengismarkmiði hér á landi og því kemur þessi tilfærsla á heimild Seðlabankans nokkuð á óvart. Rétt væri að þessi tilfærsla væri í það minnsta rökstudd því ekki er að sjá að neitt sérstakt kalli á að fella heimild um gengismarkmið, t.d. fastgengi, undir sama hatt og önnur meginmarkmið bankans eins og verðbólgumarkmið.“

Þetta eru ábendingar frá Viðskiptaráði.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja segir, með leyfi forseta:

„SFF vill í þessu samhengi benda á nauðsyn þess að sameinuð stofnun hugi vandlega að forgangsröðum verkefna við framkvæmd eftirlits með fjármálafyrirtækjum. Að mati SFF væri óheppilegt ef einstakar einingar innan sameinaðrar stofnunar tækju sjálfstæðar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna, hver á sínu sviði. Slíkt fyrirkomulag myndi leiða til óskýrleika í forgangsröðun og draga úr skilvirkni í eftirlitsframkvæmd. Mikilvægt er að sameinuð stofnun taki heildstæða og samhæfða ákvörðun um megináherslur og forgangsröðum eftirlitsverkefna fyrir alla stofnunina. Þá er mikilvægt að stofnunin upplýsi fjármálafyrirtæki fyrir fram um þá ákvörðun og gefi þeim kost á að koma að sjónarmiðum sínum þar að lútandi á framfæri.“

Ég vek sömuleiðis athygli á því sem segir í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja, að samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila „hefur nú þegar farið yfir rekstraráætlun FME fyrir árið 2020. Margt er óljóst um reksturinn árið 2020 vegna áforma um að sameina FME og Seðlabanka. Þessu fylgja margir óvissuþættir en rekstraráætlunin var sett fram miðað við óbreytta skipan.“

Þarna er fjallað um eftirlitsgjald sem er mikið áhugamál Samtaka fjármálafyrirtækja, en það sem ég vildi vekja athygli á er að miðað „við þær upplýsingar sem liggja fyrir vegna væntanlegrar sameiningar Seðlabankans og FME telja SFF að enn eigi við að fara fram á slíka úttekt“ — óháða rekstrarúttekt sem þarna er til umræðu — „þótt ljóst sé að úttektin muni ekki nást fyrir sameininguna.“

Þarna er mikilvæg ábending. Það er verið að fjalla um að fram fari óháð rekstrarúttekt en það kemur fram í umsögninni að ljóst sé að slík úttekt muni ekki nást fyrir sameiningu miðað við þá tímasetningu sem er uppi. Þetta er enn ein röksemd fyrir því að fresta þessu máli.

Í umsögninni segir:

„Verður úttektin því ekki til staðar sem veganesti við sameiningarvinnuna.“

Þetta er út af fyrir sig mjög gagnleg ábending, herra forseti. Það er auðvitað að mörgu að hyggja í þessu en ég ítreka að þetta mál er svo stórt og svo valdamikil stofnun ráðgerð að það má ekki ákveða slíkt í neinum flýti. (Forseti hringir.) Eðlilegt er að þessu máli verði þess vegna frestað.