149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum áfram tvö þingmál, frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands. Það hefur komið fram í ræðum að allt á þetta sér nokkuð langan aðdraganda og kannski eðlilegt að það hafi tekið ákveðinn tíma. Ég held að þó sé rétt að hafa í huga að oft er betra að gefa sér enn þá meiri tíma en að flýta sér um of og virðist það að sumu leyti eiga við í þessu máli.

Ég minntist í fyrstu ræðu minni á að ég teldi eðlilegt í ljósi þess að hér er líklega verið að ganga frá þessum málum, annaðhvort í dag, á næstu dögum eða þá síðar á árinu, að fresta ráðningu seðlabankastjóra sem nú stendur yfir. Í ljósi þess að hér er verið að semja ný lög er það svolítið sérstakt. Þetta er svipað og orkupakkamálið, við vitum hvað kemur í orkupakka fjögur og ætlum að drífa okkur að innleiða orkupakka þrjú þó að á honum verði gerðar breytingar án þess að fjalla um þær breytingar. Hér ætlum við að samþykkja breytingar á lögum um Seðlabankann sem kalla á ákveðna uppstokkun á yfirstjórn en við erum samt að ráða seðlabankastjóra á sama tíma. Ég skora á þá sem eru við stjórnvölinn varðandi ráðningu seðlabankastjóra að skoða vandlega að fresta því máli þangað til þessi mál hafa verið afgreidd að fullu.

Þegar við ræðum fjármálakerfið, þar með talið Seðlabankann, verður mér hugsað til þess þegar við vorum að innleiða Evrópureglur um fjármálakerfi, breytingar og fjármálaeftirlit í kjölfar hrunsins, að bæta kerfið sem var að sjálfsögðu mjög gott. Þá undirgengumst við ákveðna lausn er varðar álitamál sem við samþykktum hjá eftirlitsstofnun Evrópusambandsins varðandi fjármálakerfið. Ég velti því mikið fyrir mér, sérstaklega undanfarnar vikur og mánuði, hvort við höfum mögulega gert mistök í þeirri aðferðafræði. Þá staldra ég enn meira við þegar kemur að orkumálunum og vil skoða þau vandlega til að við endurtökum ekki mistökin.

Herra forseti. Í umsögnum um málið, sem eru ekkert mjög margar, er vakin athygli á nokkrum þáttum, m.a. því að það er verið að búa til býsna valdamikla og stóra stofnun eða einingu. Það er kallað eftir ákveðnum skýringum á þeim verkefnum sem þar verði unnin. Það er líka bent á að breyting sem þessi hljóti að kalla á einhvers konar hagræðingu þó að hana sé ekki endilega að sjá í gögnum málsins en hún kann að hafa farið fram hjá mér. Það er eðlilegt að kalla eftir því að manni sé þá vísað á það hvar er að finna upplýsingar um hvaða hagræðingu menn sjá í þessu öllu saman, þ.e. hvaða rekstrarlega hagræðing eða sparnaður hljótist af því að fara þessa leið.

Hér hefur verið farið yfir þær umsagnir sem hafa borist og nefndi ég í minni fyrri ræðu aðeins umsögn Samtaka atvinnulífsins. Þau fjalla jákvætt um málið en eru með ákveðin varúðarorð og benda á það í fimmta og síðasta lið sinnar umsagnar að það þurfi að nýta tækifæri sem skapast til þeirrar hagræðingar sem þarna verður. Það sem mig langar að vekja athygli á núna eru fyrst og fremst þau völd sem ég talaði um áðan. Að þeim er vikið í þriðja lið umsagnar Samtaka atvinnulífsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Viðbótarvald og aukin ábyrgð kallar á fjölskipaða bankastjórn.

SA telja nauðsynlegt að bregðast við viðbótarvaldi og aukinni ábyrgð Seðlabankans við sameininguna. Nauðsynlegt er að styrkja og endurskoða bæði ábyrgðar- og stjórnunarferli innan bankans til að tryggja viðunandi dreifingu valds. SA fagna því að stjórnvöld fari að tillögum starfshóps um endurskoðun á ramma íslenskrar peningastefnu er snúa að fjölskipaðri bankastjórn. Skipun varaseðlabankastjóra á sviði peningamála, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits skapar bæði nauðsynlegt mótvægi og aðhald við aukið vald bankastjóra, ásamt því að tryggja viðeigandi sérfræðiþekkingu. Verði FME fært í heild sinni undir Seðlabankann telja SA að viðunandi dreifing valds náist ekki nema með skipun þriggja varaseðlabankastjóra og hvetja til þess að ekki verði hróflað við því fyrirkomulagi í meðferð þingsins á frumvarpinu.“

Ég held að það sé ágætispunktur að ræða um valddreifinguna. Það þarf augljóslega að endurskipuleggja strúktúrinn þegar kemur að yfirstjórn bankans eftir þessa breytingu, nái hún fram að ganga, og það undirstrikar að mínu viti það sem ég kom að áðan, að það væri skynsamlegt að fresta ráðningu seðlabankastjóra, taka þetta allt í einni kippu og byrja þá með nýja stöðu. Auðvitað getur verið að eitthvað af því frábæra og hæfa fólki sem er í bankanum í dag verði ráðið í þessar stöður sem er að sjálfsögðu frábært en þá værum við að leggja af stað með ný lög og nýja hugsun.

Fleiri umsagnir bárust um málið og það er áhugavert að sjá að í umsögn Viðskiptaráðs er fjallað um samkeppnina sem getur orðið til og er varað við því að Seðlabankinn fari í samkeppni við einkaaðila nema brýn nauðsyn sé til. Undir það er óhætt að taka, það væri ekki gott ef slíkt yrði ekki notað með réttum hætti, það væri inngrip sem ég held að væri ekki gott fyrir starf sem byggir á einkaframtakinu í sjálfu sér.

Viðskiptaráð bendir einnig á að sameining sé að sumu leyti skynsamleg en þó ekki gallalaus. Það bendir á ákveðna galla sem af þessu geta hlotist. Stofnunin verður vissulega mjög valdamikil og það er allt í lagi að huga að þeim varúðarorðum að hlutverkið geti orðið svolítið flókið varðandi eftirlit með eftirlitinu, hvernig það á að fara fram þegar þetta er allt komið á sama stað. Það kann að vera að það sé kostur að skýra það með einhverjum hætti.

Í áliti Viðskiptaráðs er líka talað um að valddreifing innan bankans þurfi að vera tryggð og m.a. er bent á þá leið að gerð séu skýr skil á milli fjármálaeftirlits eða viðskiptaháttaeftirlits og fjármálastöðugleika í stjórnskipun bankans, t.d. með því að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlitsins, með leyfi forseta, „sitji ekki í fjármálastöðugleikanefnd“.

Öll þessi atriði eru góðra gjalda verð og væri áhugavert að sjá hvort brugðist hefði verið við þeim. Ég hef ekki náð að fara alveg í gegnum málið til að átta mig á því en ég geri ráð fyrir því, enda held ég að allir séu sammála um að vinnan í nefndinni hafi verið góð, opin og heiðarleg og að allir hafi lagt sitt af mörkum.