149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:58]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða um frumvörp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ég var að lesa athyglisverða umsögn frá Seðlabankanum þar sem fjallað er um bæði frumvörpin í sömu umsögninni og mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr henni:

„Frumvörpin eru lögð fram vegna fyrirhugaðrar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpi til laga um Seðlabanka Íslands er lagt til að sett verði ný heildarlög um Seðlabanka Íslands þar sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun undir heitinu Seðlabanki Íslands. Í frumvarpi til sameiningarsafnlaga eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum vegna sameiningar stofnananna.

Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur farið með yfirstjórn verkefnisins og á vegum hennar hefur starfað verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit, skipuð af forsætisráðherra. Tengiliður Seðlabankans, Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, starfaði með verkefnisstjórninni. Seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri sátu einnig fundi ráðherranefndarinnar þegar fjallað var um sameininguna. Frá því að undirbúningur hófst að gerð frumvarpanna hefur Seðlabankinn komið á framfæri ýmsum athugasemdum og ábendingum. Seðlabankinn vill árétta að naumur tími var gefinn til smíði frumvarpanna miðað við umfang verkefnisins og eru því enn nokkur atriði sem bankinn vill vekja athygli á í báðum frumvörpum.

Seðlabanki Íslands styður í meginatriðum þær breytingar sem felast í frumvörpunum. Breytingarnar sem lagðar eru til munu draga úr þeim göllum sem hafa fylgt því að yfirsýn og ábyrgð varðandi fjármálastöðugleika hefur verið á hendi tveggja stofnana. Þá munu þessar breytingar leysa það vandamál sem varð þjóðinni til tjóns í fjármálakreppunni að Seðlabankinn, lánveitandinn til þrautavara, hafði ekki nægilega góða innsýn í stöðu einstakra kerfislega mikilvægra banka.

Þrátt fyrir þetta telur Seðlabankinn að það geti verið ástæða til að skoða lagfæringar á ýmsum atriðum í frumvörpunum. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Í fyrsta lagi er sú leið að sameiningu sem hér er lögð til ekki sú sama og mest hefur verið í umræðunni á undanförnum árum, þ.e. að sameina þjóðhagsvarúð og eindarvarúð í Seðlabankanum en að Fjármálaeftirlitið sinni áfram viðskiptaháttaeftirliti og neytendavernd. Þess í stað er um að ræða allsherjarsameiningu. Seðlabankinn féllst á það fyrirkomulag á fyrri stigum málsins sem ákveðna málamiðlun sem var talin líkleg til að skapa meiri sátt um sameininguna. Auk þess eru viss rök fyrir þessari leið í mjög litlu landi. Það breytir því ekki að því fylgja ýmis vandamál eins og nánar verður fjallað um síðar í umsögninni. Ekki er víst að nægilegur tími hafi gefist við samningu frumvarpanna til að finna bestu leiðir til að draga úr þeim. Í öðru lagi er hætt við að líkur á ágöllum séu meiri við það að vinna frumvörpin á svo stuttum tíma og því mikilvægt að nýta þinglega meðferð til að draga úr þeim sem kostur er.“

Eins og ég gat um í ræðu minni fyrr í kvöld var þetta áréttað í nefndaráliti 2. minni hluta, að þingið og þeir sem að málinu koma þyrftu að gefa sér meiri tíma til að vinna betur að málinu.

Með leyfi forseta langar mig að halda aðeins áfram með umsögnina:

„Stefnt er að því að frumvörpin verði að lögum á yfirstandandi þingi og styður Seðlabankinn það markmið. Hvernig tekst til um sameininguna mun svo ráðast af framkvæmdinni hjá hinni sameinuðu stofnun. Þá kann að koma í ljós að æskilegt verði að gera einhverjar frekari breytingar á lögum til að stuðla að því að stofnunin geti sem best unnið að þeim mikilvægu markmiðum sem henni verða sett.“

Þess vegna má segja í framhaldi af þessu að það mætti gefa sér betri tíma.

Markmið sameiningar og verkefni stefnunefnda eru þau að stjórnskipulag „Seðlabankans eftir sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins þarf að fela í sér ásættanlega málamiðlun á milli sjónarmiða sem kunna að rekast á.

1. Að sameiningin leiði til aukinnar skilvirkni í eftirliti með fjármálakerfinu, bæti stefnumótun á sviði fjármálastöðugleika og skili samlegð til lengri tíma litið.

2. Að sameiningin leiði ekki til árekstra á milli ólíkra stefnumiða og aukinnar orðsporsáhættu fyrir Seðlabankann, þannig að einn hluti starfseminnar hafi truflandi áhrif á hinn.

Seðlabankinn telur að fyrirliggjandi frumvörp til laga feli í sér ásættanlega málamiðlun á milli ofangreindra sjónarmiða þótt aðrar leiðir séu einnig færar. Seðlabankinn leggur ekki til grundvallarbreytingar á þeirri málamiðlun sem felst í frumvarpinu varðandi stjórnskipun Seðlabankans og nefnda sem starfa á hans vegum, en vill vekja athygli á mögulegum tilfærslum á ákvörðunum tveggja nefnda bankans sem gætu styrkt stjórnskipulag hinnar sameinuðu stofnunar, leitt til aukinnar skilvirkni og dregið úr orðsporsáhættu.

Í frumvörpunum er lagt til að fjármálaeftirlit í heild sinni verði sameinað Seðlabanka Íslands, hvort heldur um er að ræða varúðareftirlit með bönkum, eftirlit með öðrum aðilum á fjármálamarkaði eða viðskiptaháttaeftirlit. Í því felst að öll viðfangsefni á sviði þjóðhagsvarúðar sameinast í Seðlabankanum. Nokkur samlegð ætti að felast í sameiningu mismunandi þátta eftirlitsins og þjóðhagsvarúðar í einni stofnun en slíkri heildarlausn fylgja óhjákvæmilega einnig vandamál sem mikilvægt er að milda eins og kostur er. Seðlabankinn lítur svo á að yfirstjórn hinnar sameinuðu stofnunar sé falið fullt svigrúm til að haga skipulagi hennar með þeim hætti að það stuðli að aukinni skilvirkni og samlegð. Lögin munu hins vegar afmarka vald- og ábyrgðarsvið peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar auk seðlabankastjóra og þriggja varaseðlabankastjóra.

Nefndirnar þrjár ættu að tryggja æskilega valddreifingu og stuðla að gagnsæi. Ytri meðlimi nefndanna er hægt að velja með tilliti til þekkingar og reynslu sem talin er nýtast við ákvörðunartöku í hverri nefnd. Þannig veita þeir aðhald og breidd við töku ákvarðana. Góð reynsla er af starfi peningastefnunefndar sem mun starfa í nánast óbreyttri mynd. Fjármálaeftirlitsnefnd er að mestu falið það hlutverk sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hafði áður. Fjármálastöðugleikanefnd kemur í stað kerfisáhættunefndar og að nokkru leyti fjármálastöðugleikaráðs í núverandi skipulagi en nefndin mun taka endanlegar ákvarðanir um tiltekin varúðartæki sem áður voru á hendi ýmist Seðlabankans eða Fjármálaeftirlitsins. Nefndirnar hafa sjálfstæði til að taka ákvarðanir, búa yfir nauðsynlegum tækjum (Forseti hringir.) til að ná markmiðum sínum og ábyrgðarsvið þeirra eru skýr.“

Hæstv. forseti. Þar sem ég hef ekki náð að klára mál mitt óska ég eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.