149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[22:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að hefja mál mitt þar sem frá var horfið áður. Ég var að reyna að greina örlítið nokkrar umsagnir sem bárust um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands eftir að hann yrði ný stofnun með sameiningu núverandi banka og Fjármálaeftirlitsins. Það bárust fjölmargar umsagnir og ég var örlítið búinn að lesa upp úr tveimur eða þremur af þeim og er hérna með fleiri.

Ég vil ítreka þá skoðun mína að ég telji að það eigi að fresta samþykkt þessa frumvarps um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar að ýmsum álitamálum sem er enn ósvarað, ekki síst vegna ábendinga úr mörgum áttum þar sem varað er við því að viðskiptaháttaeftirlit verði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Það er hérna umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Með leyfi forseta segir þar:

„Úrlausnarefni stjórnvalda er að tryggja sem skilvirkasta umgjörð um fjármálastöðugleika og styrkja framkvæmd þjóðhagsvarúðartækja auk þess að styrkja lagaumgjörð um peningastefnu og fjármálaeftirlit. Samtök fjármálafyrirtækja fagna því að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að efla umgjörð peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Vegna smæðar landsins er mikilvægt að tryggja styrka innviði vegna fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits en um leið að leita leiða til hagræðingar sem lækkað geta kostnað við rekstur innviða í fjármálakerfinu.“

Ég vil taka undir þessi síðustu orð í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja þar sem rætt er um hagræðingu. Við sameiningu þessara stofnana mætti ætla að það náist einhver hagræðing. En svo er ekki að sjá vegna þess að þarna er gert ráð fyrir fjórum bankastjórum, herra forseti. Það er ekki verið að hagræða með því móti. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Í frumvörpunum eru lagðar til þó nokkrar breytingar sem samtökin vilja vekja athygli Alþings á og óska eftir að efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir við meðferð málsins. Þá vilja samtökin einnig vekja athygli á nokkrum atriðum sem eru óbreytt frá gildandi lögum og færa mætti til betri vegar, s.s. skorti á málskotsleiðum eftirlitsskyldra aðila og ákvarðanir um bindiskyldu.“

Er farið yfir þessi atriði hér í þessari umsögn. Ætla ég nú ekki að lesa hana alla, herra forseti, heldur grípa niður aftarlega í umsögnina þar sem segir:

„Sameining Seðlabankans og FME felur í sér viðamikla kerfisbreytingu og við hana verður til afar öflug eftirlitsstofnun. SFF leggja á það þunga áherslu að þessi þróun styrkir rök fyrir því að orðið verði við ákalli SFF um að komið verði á fót málskotsnefnd, í líkingu við þá nefnd sem áður starfaði, sem fjármálafyrirtæki geti skotið ágreiningsmálum til.

Þróun regluverks á fjármálamarkaði á síðustu árum hefur verið með þeim hætti að eftirlitsaðilar hafa fengið í síauknum mæli afar víðtækar og jafnvel matskenndar eftirlitsheimildir og eftirlitsúrræði sem ekki byggja í öllum tilfellum á skýrri lagastoð.“

Vil ég taka undir þessi orð samtakanna. Þau halda áfram:

„Því er mikilvægt að eftirlitsaðilar búi við virkt aðhald æðra stjórnvalds til þess að tryggja að við beitingu eftirlitsheimilda séu óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins hafðar í heiðri ...“

Og síðan segja þeir, með leyfi forseta:

„SFF telja ólíklegt að fjármálafyrirtæki myndu nýta málskotsrétt nema um sé að ræða grundvallarágreining eða mjög mikilvæg álitamál. Málskotsnefnd hefur þann kost að í hana eiga að veljast aðilar með sérfræðiþekkingu á fjármálamarkaði, hún er ekki umsetin miklum málafjölda og á því að geta unnið hratt og að trúnaður gagnvart málsaðilum á að vera tryggður. Dómstóll býr hvorki yfir sömu sérþekkingu né hefur tök á að vinna jafn hratt. Ákvarðanir eftirlitsaðila geta verið mjög íþyngjandi og byggjast stundum á huglægu mati.“

Ljóst er að hægt er að „áfrýja úrskurðum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Eins og fyrr greinir er málsmeðferð slíkra áfrýjunarnefnda almennt hraðari en má vænta af dómstólum.“

Ég vil nýta tækifærið og taka undir þessi orð. Ég tel mikilvægt að málskotsaðili sé skipaður bestu sérfræðingum á þessu sviði. (Forseti hringir.) En ég gat ekki klárað mál mitt, herra forseti, og vil endilega fá að setja mig aftur á mælendaskrá.