149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Ég mun stikla á stóru úr nefndarálitinu sem er nokkuð langt og ítarlegt. Ég mun aðeins fara yfir nokkur lykilatriði. En með frumvarpinu er lagt til að núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins verði lagt af. Felur það í sér breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Samkvæmt núverandi leyfisveitingakerfi þarf sérstakt leyfi Matvælastofnunar til að flytja inn kjöt, egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur til landsins. Eftir breytingarnar þarf eftir sem áður leyfi Matvælastofnunar til að flytja slíkar vörur inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Líkt og ég kom inn á í 1. umr. kom ekki annað til greina en að takast á við þá stöðu sem komin var upp. Dómar voru fallnir á ríkið í Hæstarétti og EFTA-dómstólnum vegna svokallaðrar frystiskyldu. Við þessari stöðu er verið að bregðast með frumvarpinu. Leyfisveitingakerfið og frystiskyldan verður afnumin og því verður matvælalöggjöfin komin í takt við það sem íslensk stjórnvöld skuldbundu sig til að gera fyrir hartnær 12 árum en þó með því fororði að þau matvæli sem flutt eru til landsins skulu fara eftir þeim kröfum sem við setjum á innlend matvæli með tilliti til matvælaöryggis.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið fjöldann allan af gestum. Í umfjöllun nefndarinnar var bent á, m.a. af Matvælastofnun, að óvíst væri hvort tækist að ljúka tilteknum aðgerðum áður en frystiskyldan yrði afnumin. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 1. september nk. sérstaklega og var þar vísað til viðbótartrygginga vegna svína- og nautakjöts. Í ljósi þess að ekki stendur til að taka neina áhættu í matvælaöryggi telur meiri hluti nefndarinnar rétt að fresta gildistöku um tvo mánuði. Meiri hluti nefndarinnar telur að sú frestun muni ekki hafa teljandi áhrif á þá hagsmuni sem fjallað hefur verið um. Fram komu sjónarmið í umfjöllun nefndarinnar um að samþykkt frumvarpsins muni hafa áhrif á tekjur innlendra framleiðenda. Þannig þurfi að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar til að vinna á móti tekjusamdrættinum. Ágreiningur er þó milli umsagnaraðila um umfang þessa tekjusamdráttar.

Samhliða þessu frumvarpi kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra aðgerðaáætlun í 15 liðum til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nefndin ákvað eftir umfjöllun að skjóta enn styrkari stoðum undir þá aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra og flytur nefndin því þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Með þingsályktunartillögunni felur Alþingi ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þessi tillaga var unnin samhliða vinnu við síðasta mál um afnám svokallaðrar frystiskyldu. Hún er því lögð fram af allri atvinnuveganefnd og mun sú sem hér stendur mæla fyrir þeirri þingsályktunartillögu í framhaldinu. Meginhluti tillögunnar var kynntur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samhliða framlagningu frumvarpsins um afnám frystiskyldu. Eftir umfjöllun nefndarinnar var ákveðið að flytja þessa þingsályktunartillögu til að gefa aðgerðaáætlun ráðherra meira vægi og renna traustari stoðum undir hana.

Atvinnuveganefnd bætir við tveimur aðgerðum sem ég mun fjalla um á eftir þar sem ákveðnar breytingar eru gerðar á nokkrum aðgerðum. Þar sem ég tel að það skipti máli í öllu þessu samhengi mun ég fara aðeins yfir það líka hér og nú. Aðgerðaáætlunin er því í 17 liðum og bendi ég þeim sem hafa áhuga á þessu máli að kynna sér vel og ítarlega greinargerðina yfir allar þessar aðgerðir og hvað í þeim felist. Ætla ég hér að fjalla um þau atriði sem ég tel vera mikilvægust og þau atriði sem nefndin bætti við aðgerðaáætlun ráðherra

Í 5. lið aðgerðaáætlunarinnar er fjallað um að ráðist verði í átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum. Slíkt gerir meðferð ýmissa hættulegra sýkinga erfiða og kostnaðarsama og í sumum tilvikum ómögulega. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum. Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða miða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni, uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum vegna útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfræðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.

Einnig er fjallað um mikilvægi þess að efla nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu í lið 10 en lagt er til að setja á fót sjóð með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS, rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Með því að sameina þessa sjóði megi efla nýsköpunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður að setja aukið fjármagn í slíkan sjóð en jafnframt þarf að tryggja að hlutfallsleg skipting fjármagns til atvinnugreinanna verði með sambærilegum hætti og nú er.

Þá leggur nefndin til að bæta við tveimur aðgerðum til viðbótar við hinar 15 sem fyrir voru. Þær snúa annars vegar að því að endurskoða tollskrá fyrir landbúnaðarvörur með því markmiði að inn- og útflutningur verði flokkaður betur og nákvæmar en nú er. Þeirri vinnu skal ljúka haustið 2019. Það er mjög mikilvægt að fá betri söfnun hagtalna til að fá yfirsýn yfir þær vörur sem fluttar eru til landsins. Hins vegar verður ráðist í sérstakt átak í framhaldinu varðandi afnám leyfisveitingakerfisins í fjóra mánuði. Það verður aukið átak í eftirliti fyrstu fjóra mánuði eftir að lögin taka gildi. Að þeim tíma liðnum verður tekin afstaða til þess hvernig framgangur þessa eftirlits verður. Komi í ljós miklar brotalamir á eftirliti er mikilvægt að fyrirkomulag þess verði endurskoðað frá grunni. Í átakinu verður lögð sérstök áhersla á sýnatökur og skoðun á vottorðum vegna salmonellu og kampýlóbakter. Þá verður tíðni skyndiskoðana aukin á þeim tíma. Þannig verði hægt að tryggja áreiðanleika viðbótartrygginganna.

Við fjöllum um þessa þingsályktunartillögu á eftir þar sem ég renni yfir alla liði hennar en ég tel að hún muni skjóta traustari stoðum undir innlenda framleiðslu og lýðheilsu landsmanna. Það er verkefni okkar allra, tel ég, að íslenskur landbúnaður verði samkeppnishæfur með því að gæði hans séu tryggð og séu í fyrsta sæti og gæðin séu vonandi enn betri en innfluttra matvæla.

Síðan vísa ég í nefndarálitið varðandi breytingartillögurnar við hverja grein lið fyrir lið. Undir nefndarálitið rita Lilja Rafney Magnúsdóttir framsögumaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson og Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara. Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.