149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir því að forseta langar heim en það er nú óþarfi að flýta sér svona mikið. Mig langar að þakka nefndinni fyrir þessa vinnu. Ég held að eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns og formanns nefndarinnar — sú þingsályktunartillaga sem við ræðum síðar í dag — sé vissulega til bóta. En það sem ég óttast er að sú tillaga og frumvarpið sem við erum að ræða hér og þau góðu fyrirheit sem koma fram í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans séu enn bara orð á blaði vegna þess að ég fæ ekki séð að það sé búið að tímasetja nema lítinn hluta af því sem hér á að gera, hvað þá að fjármagna allt sem þarna á að gera.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki að það væri nauðsynlegt að fyrir lægi tímasett áætlun. Ef við ætlum að láta þessi lög taka gildi á næstu mánuðum gera sér allir grein fyrir því sem einhvern tímann hafa komið nálægt íslenskri stjórnsýslu að það mun taka mörg ár að ná þessu öllu fram ef ekki er sett pressa á að það gerist með samþykktri tímaáætlun og að fjármagn sé tryggt. Því spyr ég: Er búið að tryggja fjármagn í allar þær aðgerðir sem hér eru boðaðar? Ef ekki, hvernig í ósköpunum er þá hægt að leggja á borð fyrir þingið að þetta sé allsherjarlausn á áhyggjum bænda og okkar sem höfum áhyggjur af því að sá innflutningur sem heildsalarnir viljað ráðast í leiði ekki til þess að íslenskur landbúnaður, dýraheilbrigði og heilsa manna bíði tjón af? Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því? Ætlar þingmaðurinn að fara út í héruð núna og segja við bændur landsins að hafa engar áhyggjur af þessu, þetta muni allt ganga eftir og verða fjármagnað?