149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit eru fallnir tveir dómar, bæði í Hæstarétti og EFTA-dómstólnum. Við því er ekki annað að gera en að bregðast við. Ég treysti þessari ríkisstjórn og þeim hæstv. ráðherra sem situr í stól sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vel fyrir því að fylgja þessu máli eftir sem og þingheimi öllum. Það verður tryggt fjármagn til að fylgja þessu eftir. Ég efast ekkert um að það verði gert.

Nefndin hefur unnið gífurlega vel að þessu máli og við höfum fengið til liðs við okkur færasta fólk til að útbúa þetta mál eins og það er og við höfum ekki fengið neinn stuðning, neinar tillögur eða hugmyndir frá Miðflokknum í þeim efnum. Það hafa ekki komið neinar tillögur úr þeirri átt svo mér finnst ansi holur hljómur í því að vera að gagnrýna og treysta ekki stjórnvöldum til að fylgja þessu máli eftir. Margur heldur mig sig í þeim efnum. Ég vísa því til föðurhúsanna að menn geti nú á síðustu stundu komið með einhverja efnislega gagnrýni á málið en hafa ekki lagt fram snifsi til að koma með tillögur til að mæta hæstaréttardómi og EFTA-dómstólnum.