149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[22:58]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér fannst ekki mikið kjöt á beinunum í svarinu varðandi það sem ég spurði hv. þingmann um, varðandi frystiskyldu. Það hafa komið fram vísindamenn og talað um að frystiskyldan sé í sjálfu sér bara töf. Það er ýmislegt sem fer þar í gegn. Nú er boðað í þingsályktunartillögu sem við komum til með að ræða á eftir bann við dreifingu á vörum sem innihalda fjölónæmar bakteríur. Í mínum skilningi og vonandi flestra er það svo að þegar maður bannar dreifingu á vörum sem innihalda fjölónæmar bakteríur, vörum sem innihalda kampýlóbakter, vörum sem innihalda salmonellu — við erum ekki bara að tala um kjöt, við erum að tala um öll matvæli í þessu samhengi — er gríðarleg vörn fólgin í því fyrir búfjársjúkdóma og lýðheilsu landsins.

Því spyr ég hv. þingmann: Getum við ekki öll verið sammála um það að það sem liggur fyrir, sú þingsályktunartillaga sem við komum til með að ræða á eftir og tengist frumvarpinu sem við erum að ræða núna, sé virkilega góð lausn og mikið framfaraskref? Ég vil einnig minna á að í því frumvarpi sem lagt var fram til að byrja með af hæstv. ráðherra voru mótvægisaðgerðirnar 15 og þær voru í greinargerð með frumvarpinu. Nú erum við með þingsályktunartillögu með 17 mótvægisaðgerðum.