149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er ekki flókið. Það snýst um að sýna nægilega varúð. Það liggja fyrir alveg skýrar staðreyndir í þessu máli, þær staðreyndir að heilbrigði íslenskra búfjárstofna er mun betra en almennt gerist í Evrópu. Þetta er staðreynd. Það er staðreynd að Ísland hefur verið laust við fjölmarga dýrasjúkdóma sem hafa verið landlægir, hvers kyns pestir og fár. Það er staðreynd að íslenskir búfjárstofnar hafa lítið sem ekkert viðnám gagnvart slíkri óværu. Íslenskur landbúnaður er þannig hreinlega í stórhættu ef út af bregður. Málið er að viðhafa nægilega tryggar varnir og nægilega varúð í málinu.

Eins og ég rakti, fyrst í framsögu minni og síðan í fyrra svari mínu, er enginn ágreiningur um að mótvægisaðgerðirnar eru góðar, svo langt sem þær ná. Það er að vísu ekki óumdeilt hversu öruggar þær eru en það er algjört lágmark að tímasett áætlun liggi fyrir og að það liggi fyrir óyggjandi staðfesting á því að þær aðgerðir sem þarna eru í 17 liðum séu að fullu fjármagnaðar.