149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[10:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði. Ég ætla að reyna í ræðu minni að stikla á stóru. Allnokkrar breytingar koma frá nefndinni og ég ætla í ræðu minni að gera grein fyrir þeim helstu — en svo er auðvitað hægt að kynna sér þær enn betur í nefndarálitinu sjálfu og í sérstöku breytingartillagnaskjali sem fylgir með nefndarálitinu.

Með þessu frumvarpi er kveðið á um rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Það er megininntak málsins. Í frumvarpinu er fjallað m.a. um réttinn til þess að breyta opinberri skráningu á kyni sínu.

Við umfjöllun málsins kom fram að auðvitað væri um stóra og mikla ákvörðun að ræða þegar kæmi að þessum málum, ekki hvað síst þegar í hlut ættu börn eða ungmenni. Meiri hlutinn leggur á það áherslu að það sé mikilvægt að málefni transbarna séu ekki tengd við geðræn vandamál eins og kannski hefur verið tilhneiging til í umræðunni. Það komu fram sjónarmið um að allir einstaklingar undir 18 ára aldri ættu alltaf að vera skjólstæðingar BUGL til að geta breytt kynskráningu sinni hjá Þjóðskrá. Meiri hlutinn fellst ekki á þetta sjónarmið en er þó sammála og tekur undir mikilvægi þess að börn og fjölskyldur þeirra geti hins vegar leitað til teymis BUGL og annarra fagaðila eftir stuðningi við þjónustu. Þannig að það sé alveg skýrt að það sé ekki kvöð að gera það en aðgangurinn standi hins vegar opinn.

Þá eru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem snúa að því að breyta aldursviðmiðum þar sem í frumvarpinu er fjallað um að börn og ungmenni sem hafa náð 15 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu sinni. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu þess efnis að miðað verði við 18 ára aldur. Nefndin fór mjög rækilega yfir þetta mál og það komu fram sjónarmið frá m.a. Barnaverndarstofu um að huga þurfi sérstaklega vel að ákveðnum hópi ungmenna. Meiri hlutinn telur þess vegna að aðkoma sérfræðinefndar að málefnum barna fram til 18 ára aldurs sé ekki óæskileg, að því gefnu að nefndin taki fullt tillit til aldurs og þroska barna og réttar þeirra til að taka ákvarðanir um eigið líf. Aðkoma sérfræðinganefndar getur einmitt veitt barni stuðning, til að mynda í þeim tilfellum þar sem barn eða ungmenni mætir andstöðu foreldra sinna.

Meiri hlutinn ítrekar að í þessum málum er mjög mikilvægt og ber að tryggja eftir fremsta megni sjálfsákvörðunarrétt barna í þessum efnum í samræmi við aldur þeirra og þroska, en að jafnframt þurfi að tryggja að börn njóti sérstakrar verndar og stuðnings þegar kemur að því að taka þessar ákvarðanir. Þess vegna, eins og ég segi, leggur meiri hlutinn til breytingar á 4. og 5. gr. frumvarpsins um að miðað verði við 18 ára aldur en bætir einnig við í bráðabirgðaákvæði II að starfshópi sem á að starfa samkvæmt frumvarpinu verði falið að skoða nánar hvort æskilegt sé að færa þessi aldursviðmið niður og hvernig sé hægt að gera það og ná þá bæði utan um það að vernda rétt barna, sérstaklega barna sem eru í mjög viðkvæmri stöðu, og tryggja sjónarmiðin um iðaða nálgun á þessu máli. Þótt framsögumaður minni hluta nefndarinnar muni auðvitað gera grein fyrir sínu nefndaráliti á eftir held ég að ég sé ekkert að segja of mikið með því að segja að í nefndinni hafi myndast nokkuð góð samstaða um þetta og um þau sjónarmið að þarna þyrfti að taka tillit til þeirra varúðarorða sem m.a. Barnaverndarstofa hafði uppi.

Það eru breytingartillögur við 9. gr. frumvarpsins en hún fjallar um sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og við meðferð málsins var rætt um sérfræðiþekkingu þeirra sem eiga að skipa þessa sérfræðinefnd um kynskráningu barna. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að sérfræðinefndin verði skipuð fólki sem hafi sérþekkingu á viðfangsefninu og beinir því til ráðherra að tryggja að slík sérfræðiþekking verði til staðar í nefndinni.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um líkamlega friðhelgi. Við meðferð málsins voru gerðar athugasemdir við að frumvarpið tryggði ekki börnum undir 16 ára aldri líkamlega friðhelgi og vernd gegn ónauðsynlegum inngripum á kyneinkennum þeirra án samþykkis þeirra. Meiri hlutinn vill benda á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það eru skiptar skoðanir um aðgerðir sem fela í sér breytingar á kyneinkennum og að í greinargerð með frumvarpinu kemur einnig fram að það sé mikilvægt að halda umræðunni áfram. Því er lagt til í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða þar sem er gert ráð fyrir að ráðherra setji á fót starfshóp til að vinna að málefnum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og gera tillögur að úrbótum. Meiri hlutinn tekur undir þetta og telur ótímabært að gera tillögu um annað sem varðar breytingar á kyneinkennum þessara barna. Vegna þess að fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þarna einfaldlega sé vinnunni ekki lokið. Meiri hlutinn leggur þess vegna, með hliðsjón af framangreindu, til breytingu á 11. mgr. frumvarpsins á þeim parti þegar um er að ræða að barn á aldrinum frá 16–18 ára þurfi jafnframt mat teymis Barna- og unglingageðdeildar þegar kemur að aðgerðum.

Við leggjum hins vegar ekki til að bráðabirgðaákvæðið sem varðar intersex börnin verði sett í lög heldur að það verði áfram í bráðabirgðaákvæði en hins vegar að starfshópnum verði sett tímamörk og að hann eigi að skila af sér tillögum 12 mánuðum eftir gildistöku laganna.

Í 12. og 13. gr. er fjallað um teymi Landspítalans um kynvitund og breytingar á kyneinkennum og teymi Barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ekki ætti að binda í lög hvaða starfsstéttir ættu að vera í teymunum að öðru leyti en því að þau skyldu vera þverfaglega skipuð fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Meiri hlutinn tekur undir að þessi teymi skuli vera þverfagleg og skipuð fagfólki en fellst hins vegar á að ekki sé rétt að til telja upp svo nákvæmlega hverjir það eru sem skuli vera í teymunum og leggur þess vegna til breytingartillögu þess efnis að það verði ekki bundið í lög að í teymunum skuli vera kynjafræðingur. Meiri hlutinn vill engu að síður vekja athygli á því markmiði sem lá til grundvallar lagafrumvarpinu, sem er að nálgast málefni trans- og intersex fólks ekki eingöngu út frá klínískum forsendum heldur ekki síður í hinu félagslega ljósi þessara mála.

Jafnframt var bent á það við meðferð málsins að það teljist ekki til verkefna sérhæfðra deilda sjúkrahúsanna að hlutast til um að skjólstæðingar njóti jafningjafræðslu í samvinnu við hagsmunasamtök. Meiri hlutinn tekur undir það að almennt tíðkast ekki á öðrum sviðum spítalans að fagteymi séu lagalega bundin því að eiga í samráði við hagsmuna- og sjúklingasamtök. Því er lögð til sú breyting hvað þetta varðar að fella það ákvæði út úr bæði 12. og 13. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn vill engu að síður árétta að teymin hafa heimild til að kalla umrædd samtök til samstarfs og ráðagerða og telur raunar æskilegt að það sé gert, þó að það sé ekki lagaskylda, enda geti slíkt samstarf verið afar mikilvægt til að tryggja sem besta þjónustu við þennan hóp.

Virðulegi forseti. Stærstu breytingarnar sem nefndin er að gera má segja að varði aldursskilyrði, að í stað þess að miða við 15 ára aldur til að breyta skráningu sinni verði miðað við 18 ára aldur, en að starfshópi verði falið að finna leiðir til að færa þennan aldur niður og þá í samvinnu Barnaverndarstofu, umboðsmanns barna og Samtaka hinsegin fólks. Það er mjög mikilvægt að þetta samtal verði og að þessir aðilar séu þar allir saman við borðið.

Ýmsar aðrar breytingar eru lagðar til. Sumar eru orðalagsbreytingar, aðrar eru til þess að gera lögin enn skýrari. Sumar leiða af því — eru bara breytingar sem þarf að gera til að halda því að þegar aldrinum er breytt á einum stað þarf að breyta aldursviðmiðum á öðrum stað. Svo hefur verið bent á það við meðferð málsins að það muni þurfa og sé verið að breyta ýmsum öðrum lögum til að þetta allt saman passi saman en það er viðbúið að það þurfi að breyta fleiri lögum í kjölfarið. Af því að við erum að gera stórar og veigamiklar breytingar er starfshópi, einmitt einnig í bráðabirgðaákvæði II, falið að halda áfram að fjalla um þær nauðsynlegu lagabreytingar sem kunna að koma upp á síðari stigum við þetta mál.

Ég hef gert grein fyrir stærstu og viðamestu breytingartillögunum við frumvarpið en eins og ég segi eru þær allnokkru fleiri og það er hægt að skoða þær í sérstöku breytingartillagnaskjali sem fylgir með frumvarpinu og auðvitað lesa um þær frekar í nefndarálitinu.

Að þessu nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar standa hv. þingmenn Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Steinunn Þóra Árnadóttir framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Þórarinn Ingi Pétursson. Við leggjum það til að með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til verði frumvarpið samþykkt.