149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að í þessu frumvarpi felast mikil tíðindi. Þetta er mjög mikilvæg réttarbót sem hefur lengi verið baráttumál trans og intersex fólks. Það snýst, eins og heiti frumvarpsins ber með sér, um kynrænt sjálfræði, að einstaklingur ráði sjálfur hvernig hann horfist í augu við eigin kyneinkenni og kyngervi. Ég held að það sé mikilvægt að taka strax fram að þetta er mjög mikilvægt mál í heild sinni, skiptir gríðarlega miklu máli og ber að fagna því að það sé komið hingað.

Þá vil ég næst þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsögu fyrir hönd meiri hlutans. Hún hefur unnið mjög vel að þessu máli og það hefur allt fengið mjög vandaða umfjöllun í nefndinni. Hér mæli ég fyrir minnihlutaáliti en það er rétt að taka fram strax í upphafi að minni hlutinn styður í öllum aðalatriðum, eiginlega má segja í öllum atriðum, álit meiri hlutans, að undanskildu því sem snýr að börnum undir 16 ára aldri. Að því lýtur álit minni hlutans.

Það er þannig í huga okkar í minni hlutanum að kjarninn í kynrænu sjálfræði felst í rétti einstaklingsins til að skilgreina kyn sitt og rétti allra til þess að njóta líkamlegrar friðhelgi og að eigin kynvitund einstaklingsins njóti viðurkenningar. Um þetta erum við öll sammála, meiri hlutinn líka. Í því felst ekki síst óskoraður réttur til sjálfræðis um eigin líkama og breytingar á kyneinkennum.

Það er lagt bann við því að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans, samanber 11. gr. frumvarpsins. Til varanlegra breytinga teljast m.a. skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip. Og þá kemur að sjónarmiðum minni hlutans. Þrátt fyrir þetta gildi bannið ekki um börn undir 16 ára aldri. Síðan er ákvæði til bráðabirgða um að það skuli tekið til sérstakrar umfjöllunar.

Minni hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að börn yngri en 16 ára njóti grundvallarréttinda til kynræns sjálfræðis til jafns við aðra. Þeirra réttindi verði að bíða enn um hríð á meðan starfshópur, samkvæmt bráðabirgðaákvæði, ráði ráðum sínum, semji drög að frumvarpi og skili niðurstöðum sínum eftir 12 mánuði. Eftir þann tíma þarf að leggja fram frumvarp, Alþingi að fjalla um það o.s.frv. þannig að ég held að það sé varlega áætlað að þetta ferli allt saman muni taka a.m.k. eitt og hálft ár. Það telur minni hlutinn óviðunandi. Við teljum að réttur 16 ára barna og yngri sé freklega fyrir borð borinn í frumvarpinu og tökum heils hugar undir þau sjónarmið sem birtast í mörgum umsögnum við frumvarpið og umræðum við meðferð málsins.

Í minnihlutaálitinu er vitnað í umsagnirnar og ég ætla ekki að fara yfir þær allar en þó að vitna hér í nokkrar, fyrst frá Amnesty International, með leyfi forseta:

„Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sem liggur nú fyrir Alþingi, skapar tækifæri til að vernda réttindi intersex barna og fullorðinna en í núverandi drögum að frumvarpinu er vöntun á mikilvægri vernd fyrir intersex börn. Þá sérstaklega hvað varðar ákvæði til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðir á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.“

Barnaverndarstofa segist telja, með leyfi forseta, „varhugavert að hægt sé að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklinga undir 16 ára aldri og telur rétt að farið sé varlega í slíkar aðgerðir án samþykkis viðkomandi barna“.

Samtökin '78 gera, með leyfi forseta, „þó alvarlega athugasemd við það að frumvarpið tryggi ekki líkamlega friðhelgi barna undir 16 ára aldri og krefjast þess að við frumvarpið verði bætt ákvæðum þar að lútandi“.

Umboðsmaður barna telur, með leyfi forseta, „að til þess að tryggja börnum yngri en 16 ára með ódæmigerð kyneinkenni vernd og rétt til líkamlegrar friðhelgi færi betur á því að hafa ákvæði þess efnis í frumvarpinu sjálfu í stað þess að stofna starfshóp til að fjalla nánar um þetta álitaefni“.

Minni hlutinn hefur skoðað tillögur sem lagðar voru fram á sínum tíma af sjálfsprottnum starfshópi sem gerð er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Ég ætla ekki að lesa þær upp en þar var m.a. tillaga um að setja inn bann við aðgerðum á börnum með ódæmigerð kyneinkenni. Við tökum það lagaákvæði sem þar var lagt til að mestu leyti óbreytt upp. Við leggjum til nýja grein við frumvarpið undir heitinu „Breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni“. Þar er sagt í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Ekki skal gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið getur veitt upplýst samþykki sitt fyrir meðferðinni. Einungis er heimilt að ráðast í slíkar aðgerðir ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður geta ekki réttlætt slík inngrip í líkama barns.“

Ég ætla ekki að rekja ákvæðið frekar en síðan er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði fellt niður þar sem það verður þá óþarft því að þá er þegar búið að skipa málum með þessum hætti í lögunum sjálfum.

Minni hlutinn telur ekki forsvaranlegt að slá þessu á frest með þeim hætti sem meiri hlutinn leggur til. Kyngervi, kyneinkenni og sjálfsvitund fólks um hvað það er er eitt það persónulegasta sem hægt er að hugsa sér. Mannskepnan er með ýmsu móti. Hún er mjög margbreytileg að þessu leyti eins og í öðrum efnum. Við erum sem samfélag haldin þeirri þráhyggju að fólk verði að vera annaðhvort karl eða kona, að þar geti ekki verið neinn millivegur. Það virðist oft skipta miklu meira máli en hver manneskjan er. Þessu verðum við að breyta. Við þurfum auðvitað að ráðast að grunnrótum þessa vanda þannig að allt fólk geri sér grein fyrir því að fólk er bara eins og það er og það á líka að ráða því sjálft hvernig það vill vera.

Þess vegna telur minni hlutinn ótækt að á líkömum ungra barna séu gerðar aðgerðir sem ráða örlögum þeirra í framtíðinni og geta valdið óbætanlegum skaða og vanlíðan til allrar framtíðar. Þetta verður auðvitað að stöðva.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Álit minni hlutans talar fyrir sig sjálft, en að því standa Jón Steindór Valdimarsson, sá sem hér stendur og er framsögumaður minnihlutaálitsins, Guðmundur Andri Thorsson og Helgi Hrafn Gunnarsson.

Mig langar að lokum að brýna og hvetja þingheim til að íhuga þetta mál mjög vandlega og ljá okkur í minni hlutanum lið og samþykkja breytingartillögur okkar.