149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[11:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér fjöllum við um gríðarlega mikilvægt jafnréttismál, algjört grundvallarmál sem varðar heimild einstaklinga til að fá sjálf að skilgreina kyn sitt. Við höfum nefnilega öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Sá grundvallarréttur verður ekki frá okkur tekinn. Þetta eru þess háttar réttindi að það má ekki taka þennan rétt af fólki undir nokkrum einustu kringumstæðum. Í þessu felst sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga yfir eigin líkama, þar á meðal kynrænt sjálfræði. Það frumvarp sem fjallað er um hér í dag er mikið gleðiefni, fyrir sumum svo sjálfsagt og svo auðsótt mál að það þarf eiginlega ekkert að ræða það. Samt er þetta svo stórt skref til að tryggja grundvallarmannréttindi hóps fólks sem til þessa dags hefur átt sitt kynræna sjálfræði undir ókunnugu fólki, undir starfsfólki heilbrigðisstétta eða jafnvel einhverju allt öðru fólki.

Já, fyrir sumum er þetta slíkt grundvallarmál að það á eiginlega ekki að þurfa að ræða það. Samt er svo mikilvægt að koma hingað upp, jafnvel á síðustu dögum þingsins þegar tíminn er orðinn naumur, bara til að vekja athygli á þessu máli og vekja athygli á því hvað mál sem eru sjálfsögð eru stundum risastór skref í mannréttindabaráttu fólks. Þess vegna er ég komin hingað upp, af því að ég fagna framlagningu þessa góða máls og ég vil fagna þeirri góðu vinnu sem hefur verið í nefndinni. En meðfram því að við samþykkjum þetta mál á Alþingi þarf að tryggja öryggi trans fólks í ríkum mæli. Því miður er staðan sú í nútímasamfélagi að trans fólk verður í ríkum mæli fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi og er mikilvægt að tryggja vernd þess sem og auðvitað annarra. Það er líka mikilvægt að tryggja rétt trans barna, tryggja sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir lífi sínu og líkama.

Ég tek heils hugar undir umsögn Kvenréttindafélags Íslands sem áréttaði að aðeins með markvissri fræðslu í jafnrétti og kynjafræði væri hægt að ráðast á rót kynjamisréttis í samfélaginu. Aukin fræðsla þarf að eiga sér stað í skólakerfinu öllu en það þarf líka að vera aukin fræðsla innan heilbrigðiskerfisins, innan félagslega kerfisins, innan réttarkerfisins, innan alls samfélagsins.

Það þarf að tryggja öryggi trans barna. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja að ekki séu gerðar varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið sjálft getur veitt samþykki sitt fyrir meðferðinni. Eins og sjá má á umsögnum hefur fjöldi samtaka og hagsmunaaðila sent frá sér umsögn þar sem tekið er undir ákall minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að veita trans börnum nauðsynlega vernd. Má þar nefna Samtökin '78, Amnesty International, Barnaheill, Barnaverndarstofu, Intersex á Íslandi, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Trans Ísland og loks umboðsmann barna. Allir þessir aðilar hafa sent frá sér einlæga beiðni til Alþingis um að veita trans börnum nauðsynlega vernd gegn óafturkræfu inngripi í líf þeirra og líkama.

Það getur enginn, herra forseti, ekkert foreldri, enginn, tekið þann grundvallarrétt af barni sínu að fá að ráða sjálft sínu kynræna sjálfstæði. Það skal einungis ráðast í aðgerðir eins og áður voru nefndar, óafturkræfar aðgerðir á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess, brýnar, líkamlegar heilsufarslegar ástæður. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður geta ekki réttlætt slík inngrip í líkama barns af því að við erum hér að tala um óafturkræfar aðgerðir.

Það að setja ákvarðanatöku með lögum í hendur foreldra um að skapa óafturkræf inngrip sem geta haft varanleg, neikvæð áhrif á líf og heilsu barnsins getur að auki haft óafturkræf neikvæð áhrif á samband barnsins við fjölskyldu sína. Enginn einstaklingur getur tekið ákvörðun um kyn annars einstaklings. Þar á bak við er algjör ómöguleiki, herra forseti. Ekkert foreldri er þess megnugt að taka ákvörðun um kyn barns síns. Það er bara ekki þannig. Þetta varðar algjöra sjálfsvitund þeirrar manneskju sem verið er að fjalla um. Enginn annar getur tekið þessa ákvörðun. Það að grípa inn í líkama annarrar manneskju á eingöngu að vera heimilt þegar um ótvíræða heilsufarshættu er að ræða en aldrei undir öðrum kringumstæðum. Mun ég þess vegna ekki samþykkja að einhvers konar slíkt ákvæði verði heimilað þarna. Mér er algjörlega óskiljanlegt að börn undir 16 ára njóti ekki slíkrar verndar af löggjafa Íslands, löggjafarsamkomunni.

Fyrir þá sem ekki hafa gengið í gegnum það að vera sjálfir í þeirri aðstöðu að vera trans einstaklingur eða fylgjast með trans einstaklingi fara í gegnum þetta ferli er þetta oft alveg óskiljanlegt. Margar spurningar geta kviknað: Hvaða er nú þetta? Er þetta tískufyrirbæri? Hvaða vitleysa er þetta? Hefur þú lent í vondum félagsskap? Hvernig dettur þér þetta í hug? Er þetta ekki bara eitthvað sem þú hefur lesið í blöðum eða bókum?

Allar þessar spurningar eru alveg skiljanlegar af því að við erum bara mannleg. Maður á ekki að draga sitt persónulega líf hérna inn en þar sem ég hef persónulega fylgst með nánum fjölskyldumeðlimi fara í gegnum þetta ferli er mér óskiljanlegt að við ætlum að samþykkja að foreldri, með allan sinn farangur, allt sitt sorgarferli og mannlega skilningsleysi, eigi að hafa eitthvað um þetta varanlega inngrip að segja. Ég skil það ekki ef við ætlum að fara þangað þvert gegn ábendingum allra þessara fagaðila. Samtökin '78, Amnesty International, Barnaheill, Barnaverndarstofa, Intersex á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Trans Ísland og umboðsmaður barna eru ekki bara einhver Jón og Gunna úti í bæ. Þetta er fólk sem veit hvað það er að tala um. Þetta er fólk sem kemur reglulega að þessum málum.

Ég bara verð að segja hér að þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Það skiptir svo miklu máli að við samþykkjum frumvarpið en heimilum ekki inngrip foreldra sem vita ekkert hvað barnið er að ganga í gegnum af því að þau geta aldrei vitað það. Við getum aldrei sett okkur fullkomlega í spor annars einstaklings. Það er okkur ómögulegt. Við getum aldrei algjörlega vitað hvað annar einstaklingur gengur í gegnum. Það er ekki búið að finna upp þá tækni að við getum búið um okkur í höfði og líkama annarrar manneskju.

Kyn er samofið sjálfri manneskjunni. Hún ein veit hver hún er. Enginn annar getur valið, ákveðið eða skipað fyrir um það. Við getum ekki leyft neinum að framkvæma óafturkræfa, líkamlega aðgerð á öðrum einstaklingi af því að manni finnst það bara, það má ekki gerast á Alþingi Íslendinga. Það að vera trans manneskja er ekki ákvörðun, ekki val, ekki frekar en ég hef það val að vera kona. Ég er kona, ég valdi það ekki, ég er það bara. Þetta er ekki val. Við höfum ákveðið að kalla það að einhver sé trans af því að manneskjan er í líkama sem við skilgreinum einhvern veginn öðruvísi, sem samfélagið hefur ákveðið að skilgreina öðruvísi. Það er ekki val hjá okkur, ekki ákvörðun. Þetta er svona og viðkomandi veit það bara frá byrjun. Sumir líta öðruvísi út og þá höfum við í okkar samfélagi ákveðið að kalla það fólk trans.

Þetta frumvarp er gríðarlega mikilvægt og ég hlakka til að greiða því atkvæði. Ég skora á þá sem áður voru að velta fyrir sér að styðja ekki nefndarálit með breytingartillögu minni hlutans að íhuga alvarlega að gera það núna. Það má skipta um skoðun eftir að málið hefur verið í meðferð Alþingis. Það er í boði að standa með kynrænu sjálfræði. Það er í boði að standa með börnum og veita þeim nauðsynlega vernd.