149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[11:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem fjallar um kynrænt sjálfræði. Það er svolítið fróðlegt að fara yfir umsagnir sem hafa borist. Þá vil ég fyrst nefna aðeins það sem kemur fram hjá Þjóðskrá Íslands og lýtur aðallega að kostnaði við nauðsynlegar breytingar sem þarf að gera á skráningarkerfum stofnunarinnar verði frumvarp þetta að lögum. Það er greinilegt að því fylgir töluverður kostnaður. Ég hef ekki orðið var við að ráð sé gert fyrir þeim kostnaði, hvorki í fjárlögum né fjármálaáætlun. Ég tel það ekki nægilega góð vinnubrögð þar sem ég sit í fjárlaganefnd. Það er alveg ljóst að þessu mun fylgja töluverður kostnaður. Ég held að það sé alveg ljóst, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir því að frumvarpið taki gildi strax, að mér sýnist.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands hefur látið útbúa kostnaðarmat vegna nauðsynlegra breytinga á kerfum stofnunarinnar svo meðal annars verði hægt að skrá, miðla og gefa út skilríki með hlutlausu kyni. Um er að ræða tvíþættan kostnað, annars vegar vegna breytinga á skilríkjaskrá og framleiðslukerfum vegabréfa og svo hins vegar vegna þróunar þjóðskrár. Ljóst er að ekki verður hægt að fara í nauðsynlegar breytingar á framangreindum kerfum nema fyrir liggi fjármagn til slíkrar vinnu. Samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu mun forsætisráðuneyti hafa forgöngu, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, að tryggja fjármagn til þess að gera þær breytingar …“

Þetta er loforð um að fjármunir verði tryggðir. Ég held að það sé ekki í anda góðrar fjármálastjórnar að ekki sé búið að eyrnamerkja þetta sérstaklega í fjármálaáætlun, svo dæmi sé tekið. Mér sýnist Þjóðskrá leggja áherslu á að tíminn sé of knappur í þessum efnum. Það er umhugsunarefni í því sambandi, herra forseti, að við samþykkjum hér eitthvað sem kemur til með að kosta ríkissjóð örugglega þó nokkrar upphæðir og að ekki sé búið að ræða fjármálaþátt málsins. Ég tel það ámælisvert.

Ég vil aðeins víkja að 6. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um hlutlausa skráningu kyns. Þar segir, með leyfi forseta:

„Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt. Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.“

Það er talið upp hvaða lönd hafa tekið upp þessa hlutlausu skráningu en ég hef áhyggjur þegar einstaklingar ferðast til ákveðinna landa. Ég þekki ekki úr nefndarvinnunni hvort það var eitthvað rætt að þessi hlutlausa skráning gæti valdið vandkvæðum þegar ferðast er til ákveðinna landa. Þá hef ég sérstaklega Miðausturlönd í huga. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá einhvers konar minnisblað um það, t.d. frá utanríkisráðuneytinu, hvernig gæti verið brugðist við því þegar einstaklingar með þessa skráningu ferðast til þessara landa. Við þekkjum hvernig þessum þáttum er háttað í arabalöndunum. Ég held að það sé nánast líflátssök í sumum arabalöndum að vera samkynhneigður og/eða svokallaður trans einstaklingur þannig að það væri mikilvægt að hér kæmi fram hvernig menn sjá fyrir sér að þetta gæti þróast. Vissulega er það í höndum viðkomandi einstaklinga sem kannski þekkja hvert er ráðlegt að ferðast og hjá hvaða löndum ber að sneiða vegna þessa.

Þetta er umhugsunarefni sem ég vildi koma á framfæri í þessari umræðu.

Síðan langar mig að koma inn á umsögn Landspítalans. Í henni segir að á göngudeild BUGL hafi transgender einstaklingum verið sinnt um árabil. Framan af voru þetta örfáar tilvísanir á ári en frá árinu 2015 hefur þeim farið ört fjölgandi. Mér finnst athyglisvert að tilvísununum hafi farið fjölgandi. Ég veit ekki hvort framsögumaður þekkir sérstaklega hvað liggur þar að baki en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það ef þær liggja fyrir.

Síðan segir hér:

„Árið 2017 var ákveðið að stofna sér teymi fyrir þessa þjónustu, þar sem ljóst var orðið að nauðsynlegt væri að ákveðnir starfsmenn með til þess bæra þekkingu og þjálfun myndu halda utan um þennan hóp. Það sama ár voru 13 nýkomur í teymið, og 2018 voru þær 21.“

Þetta lýtur einnig að fjárveitingum og er sett svolítið í hendur ráðuneytisins þegar kemur að fjármögnun. Hér eru eiginlega komin tvö teymi og er spurning hvort það sé heppilegt í þessu sambandi. Ég varpa því aðeins fram.

Í umsögn Jafnréttisstofu er fjallað um þrjár spurningar sem hefur ekki verið varpað fram áður. Jafnréttisstofa segir neðarlega í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„1) Er einstaklingi sem fæðst hefur karlkyns en upplifir sig sem konu heimilt að taka þátt í keppnisíþróttum í kvennaflokki?“

Ég hef ekki rekist á að þessum ábendingum Jafnréttisstofu hafi verið svarað, en þá væri ágætt að það kæmi fram í þessari umræðu. Síðan er spurt í öðru og þriðja lagi:

„2) Er einstaklingi sem er með skráð kyn sem ekki er í samræmi við útlit þess heimilt að nota búningsaðstöðu hvors kyns?

3) Er einstaklingi sem er með skráð kyn sem er ekki í samræmi við útlit þess heimilt að nýta sér kvennaathvarf?“

Þetta eru alveg gildar spurningar og væri ágætt að fá fram hér hvort þetta hafi verið íhugað. Væntanlega hefur það verið rætt í nefndinni og væri fróðlegt að fá hér fram hver niðurstaðan hafi orðið.

Ég gleymdi að nefna það, herra forseti, í sambandi við umsögn Þjóðskrár að hér segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands hefur áður bent á að stofnunin telur að greiningarvinna og nauðsynlegar breytingar á kerfum stofnunarinnar muni taka að minnsta kosti tvö ár. Er sá frestur sem 17. gr. frumvarpsins kveður á um því of knappur að mati stofnunarinnar.“

Ég held að það sé mikilvægt að við tökum mið af þessum athugasemdum vegna þess að það er fyrst og fremst Þjóðskrá Íslands sem kemur til með að þurfa að fara í töluverða vinnu hvað þetta varðar. Í 17. gr. segir einmitt að lög þessi taki þegar gildi. Ég held að hér fari menn svolítið fram úr sér. Í svona máli, sem er mikilvægt mál eins og komið hefur fram, verður undirbúningurinn að vera góður og löggjafinn verður að taka tillit til athugasemda frá stofnuninni sem á að sjá um megnið af vinnunni þegar kemur að því að breyta þessari skráningu.

Mér finnst því nokkur álitamál varðandi þann þáttinn. Maður veltir svolítið fyrir sér hversu brýnt málið er. Þarna er rætt um að fjölgi í þessum hópi. Það væri svo sem gott að fá yfirlit um það hvað hugsanlega valdi því.

Síðan má spyrja varðandi t.d. fræðslu í grunnskólum hvernig þeim málum er háttað. Það finnst mér skipta máli. Að öðru leyti tel ég að þetta mál þarfnist betri og ítarlegri skoðunar. Ég treysti mér ekki til að styðja það eins og það liggur fyrir núna. Ég tel t.d. að það þurfi að svara spurningum sem Jafnréttisstofa hefur sent frá sér. Ég held að það sé svolítið mikilvægt, eins og t.d. með keppnisíþróttir. Það hefur valdið vandræðum eða kannski frekar álitaefnum á alþjóðavettvangi í íþróttakappleikjum. Að öðru leyti held ég að ég hafi lokið máli mínu um þetta efni. Eins og ég segi tel ég mikilvægt að skoða t.d. þetta sem ég nefndi með Jafnréttisstofu, að fá einhver svör við þeim spurningum sem þar eru settar fram. Að öðru leyti held ég að það sé nauðsynlegt að þetta mál sé skoðað nákvæmlega. Þarna eru mikil álitaefni, eins og með ung börn, sem hafa komið hér fram. En ég held að það sé mikilvægt að um þetta fari fram vönduð umræða, bæði í þingsal og í nefndinni.