149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[11:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta mál kemur hingað til 2. umr. og birtist eftir að umræður um þinglok eru hafnar. Mér finnst svolítið skrýtið að stjórnarmeirihlutinn ætli sér að klára svona stórt mál, á að því er virðist einum eða tveimur dögum, án þess að í rauninni hafi farið fram í samfélaginu nein veruleg umræða um það. Umræður um þessa hluti hafa verið töluvert miklar í mörgum löndum í kringum okkur, ekki hvað síst í Bretlandi þar sem má segja að umræða um sambærileg mál hafi verið meðal helstu pólitísku umræðuefnanna, og deilumálanna jafnvel, undanfarin tvö ár, þó að ekki sé þar gert ráð fyrir að ganga eins langt og hér er lagt til. Aðalatriðið er að þetta er stórt mál. Það varðar ýmis grundvallaratriði, grundvallarlagaspurningar, vísindi, velferð barna, heilbrigði og mannréttindi. Svoleiðis að ég hefði talið æskilegra að menn hefðu gengið í gegnum meiri umræðu um þetta mál í samfélaginu og hér á þinginu áður en það yrði afgreitt, enda hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ábendingar um hluti sem þurfi að skoða sérstaklega eða laga.

Ég gat um það að þessi mál hefðu vakið mikla umræðu víða erlendis. Oft vill sú umræða því miður verða nokkuð heiftúðug. Það hefur t.d. verið ráðist mjög harkalega á marga þekkta femínista sem hafa lýst efasemdum um hvaða leiðir hafa ýmist verið farnar eða stefnt í að fara í þessum málaflokki og eins hafa heilbrigðisstéttir jafnan sætt ámæli, leyfi þær sér að koma með ábendingar um tengsl síns starfsvettvangs við mál sem þessi.

Aðalatriðið í þessu er auðvitað að tryggja velferð alls almennings og mannréttindi en transfólk margt hvert hefur bent á í umræðu um þessi mál að það sem kallað er á ensku „gate keeping“, sem ég hugsa að mætti þýða á íslensku sem hliðvörslu, sé mikilvægur þáttur í þessu, þ.e. að menn virði hversu stór ákvörðun þetta eðli máls samkvæmt er. Því þurfi eitthvert lágmarksferli til að taka til að mynda ákvörðun um að skipta um kyn og fyrir vikið að þeir sem þá leggi í það ferli njóti þá stuðnings og auðvitað virðingar og réttinda í samræmi við það.

Ég ætla að grípa aðeins niður í umsögn frá Landspítalanum og nefna nokkrar greinar þessa frumvarps sem spítalinn gerir athugasemdir við, eða Ragna Kristmundsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, fyrir hönd spítalans. Varðandi 3. gr. segir í umsögn Landspítalans, með leyfi forseta:

„Við leggjum til að 1. mgr. verði eftirfarandi: „Sérhver einstaklingur nýtur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til:““

Afsakið, forseti. Ég ætlaði að sleppa þessu, þetta er orðalagsbreyting. Þar sem ég ætlaði að byrja á er athugasemd við 4.–5. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Við teljum ekki æskilegt að börn yngri en 18 ára geti breytt kynskráningu án þess að undantekningalaust sé leitað umsagnar sérfræðinga á þessu sviði, og að umsækjendur séu í þjónustu hjá transteymi BUGL. Við erum sammála því að ekki þurfi að gera kröfu um að viðkomandi hafi undirgengist ákveðna meðferð, en um er að ræða stóra og afdrifaríka ákvörðun, sem rétt er að taka í samráði við sérfrótt fagfólk. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að einstaklingur upplifi ósamræmi milli líkamlegs kyns og kynvitundar, og varla skaðlegt að fá aðstoð fagfólks við að greiða úr þeim og komast að bestu mögulegu niðurstöðu.“

Svo er það 9. gr. og athugasemdir við hana. Þar segir:

„Við mælum með nánari útlistun á kunnáttu og reynslu þeirra aðila sem sæti eiga í nefndinni, þar sem ekki er gefið að aðilar sem tilheyra þessum tilteknu starfsstéttum hafi hana til að bera. Einnig mættu þetta vera aðrir fagaðilar, það sem máli skiptir er að viðkomandi hafi þekkingu á geðheilbrigði barna og unglinga og málefnum transgender einstaklinga.“

Loks er athugasemd við 13. gr. í umsögn Landspítalans:

„Við teljum ekki æskilegt að binda í lög hvaða starfsstéttir eigi að vera í teyminu, að öðru leyti en því að það skuli vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. T.d. er í núverandi texta ekki minnst á hjúkrunarfræðinga, en teymisstjórar teymisins hafa frá stofnun þess verið hjúkrunarfræðingar, og það hefur gefist vel.

Við setjum jafnframt spurningarmerki við það að binda í lög að kynjafræðingur eigi að vera í teyminu. Kynjafræðingar eru ekki heilbrigðisstétt og við teljum ekki þörf á að bæta slíkum við í teymið. Nær væri að veita meira fjármagn í teymið til að hækka starfshlutfall félagsráðgjafa og fá inn t.d. iðjuþjálfun og listmeðferð. Ef á að halda því til streitu að ráða inn kynjafræðing þarf að koma skýrt fram hvaða hlutverki viðkomandi á að gegna á spítalanum, auk þess að veita fjármagn fyrir ráðningunni.

Að vera manneskja fædd með ódæmigerð kyneinkenni hefur hingað til ekki verið gild tilvísunarástæða á geðdeild. Börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni hefur hins vegar ekki verið vísað frá BUGL ef þau glíma við geðrænan vanda, og það mun ekki breytast. Ef ætlast er til að BUGL taki að sér þjónustu og ráðgjöf við þennan skjólstæðingahóp sérstaklega þarf að veita til þess fjármagn, þar sem þá þyrfti að bæta við mannafla og þekkingu.

Að hlutast til um að skjólstæðingar njóti jafningjafræðslu telst ekki til verkefna sérhæfðra deilda sjúkrahúss, enda hafa hagsmunasamtök sinnt því með ágætum hingað til.

Teymið hefur ávallt, og mun áfram, vinna í samræmi við alþjóðlegar verklagsreglur World Professional Association for Transgender Health, sem unnar eru í samráði við transfólk um víða veröld. Vandséð er hverju lögbundið samráð við hagsmunasamtök transfólks á Íslandi myndi bæta við.“

Það er ekki meira um þetta að segja, herra forseti, en að þetta hljóta að vera ábendingar sem taka þurfi tillit til við frekari vinnslu þessa máls.

Ég ætla hér að lokum að nefna stuttlega klausu úr athugasemdum transteymis Landspítalans vegna þessa frumvarps en þar segir, með leyfi forseta:

„Núverandi lagafrumvarp virðist samið með nýlega löggjöf frá Möltu frá 2015 sem fyrirmynd. Þessi löggjöf er mun frjálslegri en sambærilegar löggjafir í nágrannalöndum okkar.“ — Hér er það dregið fram eina ferðina enn að hér er verið að ganga mun lengra en nágrannalönd hafa gert. — „Það er nýmæli í lögunum að menn leitast við að sleppa hefðbundnum greiningum og vinna út frá því. Þess ber þó að gæta að heilbrigðisyfirvöld á Möltu hafa litla reynslu af meðferð á transgender fólki. Maltverjar með kynama hafa til þessa orðið sér úti um hormóna á svarta markaðnum og leitað aðgerðar í Serbíu á eigin kostnað. Lögin voru sett 2015 en engin meðferð er enn komin í gang. Þetta varð til þess að heilbrigðisyfirvöld á Möltu buðu fulltrúum úr meðferðarteymi LSH, þeim Óttari Guðmundssyni og Elsu Báru Traustadóttur, til að koma og ræða við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisyfirvöld hvernig best sé að koma einhvers konar meðferðarstarfi á laggirnar. Læknar lýstu því yfir að þeir gætu ekki starfað samkvæmt þessum lögum þar sem erfitt væri að veita erfiða og krefjandi meðferð án greiningar.“

Þetta hlýtur að vera áhugavert í samhengi við þetta frumvarp hér sem mun byggt á þessari löggjöf frá Möltu.

Ég ætla að láta vera að rekja fleiri umsagnir, en þær eru allmargar og bent er á ýmis atriði sem varða heilbrigðisþjónustu, varða skráningu, fjármögnun, siðferðisleg álitamál, varða réttindi einstaklinga og heilbrigði barna. En þegar þetta er allt saman tekið og stærð og umfang þessa máls hefði ég talið æskilegra að menn gæfu sér betri tíma til að bregðast við þeim ábendingum sem fram eru komnar og kynnu að koma fram í framhaldinu. Ég hvet hv. þingmenn til að nálgast málið með þeim hætti.