félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna) frá meiri hluta velferðarnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Ágúst Þór Sigurðsson og Hildi Sverrisdóttur Röed frá félagsmálaráðuneytinu, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Sigurjón Unnar Sveinsson, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Bergþór Heimi Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands og Árna Múla Jónasson og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Tryggingastofnun ríkisins.
Líkt og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem í daglegu tali hefur verið kallað króna á móti krónu skerðing. Einnig er markmiðið að auka sveigjanleika hvað varðar meðferð atvinnutekna lífeyrisþega við útreikning greiðslna þannig að það verði valkostur að tilfallandi eða tímabundnar atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif á útreikning bóta í þeim mánuðum þegar þeirra er aflað en skerði ekki rétt til bóta í öðrum mánuðum.
Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Í ákvæðum a–e-liðar er lagt til að ýmis ákvæði reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1200/2018, verði lögfest. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að við hækkun tekjuviðmiða í a- og b-lið væri ekki nógu langt gengið.
Þá var við umfjöllun nefndarinnar bent á að þótt ákvæði c- og d-liðar fælu einnig í sér lögfestingu á ákvæðum reglugerðarinnar lægju áhrif lögfestingar þeirra ekki að öllu leyti fyrir. Í c-lið er lagt til að fjárhæð uppbótar skuli reiknast í samræmi við réttindi til lífeyris, samanber 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og í d-lið er lagt til að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar skuli teljast til tekna við útreikning lífeyrisuppbótar. Meiri hlutinn bendir á að í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri segir að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga teljist til tekna og því feli ákvæðið ekki í sér efnislega breytingu. Hins vegar var bent á að rétt væri, áður en slíkt ákvæði yrði lögfest, að hafa ítarlegt samráð. Meiri hlutinn tekur undir þetta og telur c- og d-liði þarfnast frekari umfjöllunar. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu að stafliðirnir verði felldir brott.
Í f-lið er lagt til að við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþegans með þeim undanþágum sem lagðar eru til í frumvarpinu og raktar eru í greinargerð. Hins vegar er lagt til að ekki skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Til að tryggja samræmi við aðrar breytingartillögur leggur meiri hlutinn til að tilvísun til laga um slysatryggingar almannatrygginga verði felld úr ákvæðinu. Meiri hlutinn bendir þó á að sú breyting hefur þá efnislegu þýðingu að bætur samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga munu áfram teljast til tekna samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð en þó þannig að einungis 65% þeirra teljist til tekna við útreikning framfærsluuppbótar.
Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 16. gr. laga um almannatryggingar að við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna verði heimilt að telja einungis til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ákvæði 5. mgr. 16. gr. laganna væri í mörgum tilfellum ósanngjarnt og þá sérstaklega gagnvart lífeyrisþegum sem starfa einungis hluta ársins. Atvinnutekjum sem aflað væri einstaka mánuði ársins væri jafnað niður á alla mánuði þess og skipti jafnvel ekki máli hvort viðkomandi hefði fengið lífeyrisgreiðslur í þeim mánuðum eða ekki. Tekjurnar gætu þannig leitt til þess að skuld myndist vegna ofgreiddra bóta.
Með frumvarpinu væri lagt til grundvallar að lífeyrisþegi gæti valið hvort framangreint fyrirkomulag væri viðhaft eða hvort atvinnutekjur verði einungis lagðar til grundvallar í þeim mánuðum þegar þeirra er aflað. Við endurreikning bótafjárhæða samkvæmt 7. mgr. 16. gr. geri Tryggingastofnun ríkisins samanburð á útreikningi greiðslna til viðkomandi lífeyrisþega samkvæmt báðum aðferðum og leggi til grundvallar þá niðurstöðu sem leiðir til hærri greiðslna til viðkomandi.
Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að af orðalagi 2. gr. væri ekki skýrt að ákvæðið fæli í sér undanþágu frá ákvæði 5. mgr. 16. gr. sem tæki einungis til atvinnutekna. Gæti ákvæðið því valdið þeim misskilningi að við áætlun tekna samkvæmt ákvæðinu ætti einungis að taka tillit til atvinnutekna. Meiri hlutinn leggur til breytingu til að auka skýrleika ákvæðisins. Leggur meiri hlutinn til að ákvæðið orðist þannig að heimilt sé að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Sé þannig skýrt af ákvæðinu að það feli í sér sérreglu sem taki einungis til atvinnutekna en um aðrar tekjur fari samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.
Í ljósi annarra ábendinga félagsmálaráðuneytisins leggur meiri hlutinn einnig til að í 2. málslið 2. gr. verði fjallað um samanburð á útreikningum heildargreiðslna, en ekki eingöngu greiðslna, til að taka af allan vafa um að samanburður skuli gerður á áhrifum beggja leiðanna á heildargreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:
1. Við 1. gr.
a. C- og d-liður falli brott.
b. Í stað orðanna „Bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um almannatryggingar og lögum um slysatryggingar“ í 2. málslið f-liðar komi: Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar.
2. Við 2. gr.
a. Í stað orðanna „heimilt að telja einungis til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði sem þeirra er aflað“ í 1. málslið efnismálsgreinar komi: heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað.
b. Í stað orðsins „greiðslna“ í 2. málslið efnismálsgreinar komi: heildargreiðslna.
Anna Kolbrún Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Andrés Ingi Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Undir álitið rita, auk framsögumanns, Ásmundar Friðrikssonar, Ólafur Þór Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.