149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:57]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hef hingað til látið ógert að ræða mikið um þetta frumvarp efnislega. Mér hefur ekki þótt það tímabært og ég taldi rétt að allar upplýsingar lægju fyrir áður en ég tæki til máls um þetta frumvarp félags- og barnamálaráðherra.

Allt frá því að ég settist á þing hef ég látið mig varða málefni öryrkja. Þetta er flókinn málaflokkur sem er mögulega ástæðan fyrir því að fáir þingmenn veita honum áhuga þrátt fyrir að á Íslandi séu rétt um 20.000 öryrkjar. Þetta er fjölmennur hópur, fjölmennari en margar af okkar helstu atvinnugreinum. En það er engin tilviljun að málaflokkurinn er flókinn. Örorkulífeyriskerfið hefur nefnilega verið hannað með það í huga að vera flókið og fyrir vikið er það eitt flóknasta kerfi sem íslenskt samfélag hefur búið til, flóknara en kvótakerfið og flóknara en regluverk fyrir fjármálafyrirtæki. Fjöldi einstaklinga sem hafa fullkominn skilning á öllum reiknireglum örorkulífeyrisbóta er í raun afar lítill. Samt eru þetta reglurnar sem eiga að gilda um tekjur þeirra sem eru óvinnufærir sökum örorku. Flækjustigið endurspeglar fullkomlega kafkaískan fáránleikann sem felst í kerfinu. Ástæðan fyrir þessu flækjustigi er líklega margþætt en áhrifin eru mjög augljós. Því flóknara sem kerfið er, því erfiðara er að gagnrýna það og því erfiðara er að breyta því. Óréttlæti virkar ekki eins ósanngjarnt þegar maður skilur ekki hvernig það virkar.

Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem felur í sér að dregið verði úr hinni svonefndu krónu á móti krónu skerðingu, skerðingunni sem fulltrúar allra flokka sögðust vilja afnema í aðdraganda seinustu kosninga. Ég skal vera fyrst eða önnur til að viðurkenna að í þessu frumvarpi felst kjarabót fyrir örorkulífeyrisþega. Það er gott en þetta er hænuskref. Ákall öryrkja hefur alla tíð verið um fullkomið afnám krónu á móti krónu skerðingar. Þetta er breyting sem ráðherra gerir einn og að eigin frumkvæði, að því er virðist í miklum flýti rétt fyrir þinglok, án nokkurs samráðs við hagsmunasamtök öryrkja. Mér þykir það sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að starfshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga lauk störfum einungis fyrir nokkrum vikum þar sem áttu sæti fulltrúar öryrkja. Lágmarkssamráð hefði verið auðsótt, einfalt og fljótlegt verk af hálfu ráðherra. Það að hafa ekki samráð sýnir einfaldlega skeytingar- og hirðuleysi ráðherra um hagsmuni og velferð öryrkja.

Að meginstefnu til felur þetta frumvarp í sér að króna á móti krónu skerðingin verði 65 aurar á móti krónu skerðing í stað krónu á móti krónu. Kostnaðurinn við þessa aðgerð er 2,5 milljarðar, sem eru í sjálfu sér ekki svo svakalegur, en það er engu að síður ámælisvert að ráðherra hafi ekki einu sinni kannað hvernig sú aðgerð muni koma við fólk í mismunandi stöðu.

Engin greining er á því hvernig þetta kemur út fyrir örorkulífeyrisþega á mismunandi aldri, í mismunandi búsetuskilyrðum, með mismunandi tekjur o.s.frv. Þegar um svona fjárhæðir er að ræða hefði mér þótt eðlilegt að þess væri gætt af hálfu ráðherra að aðgerðin kæmi raunverulega til með að hjálpa þeim sem mest þyrftu á að halda, þeim sem króna á móti krónu skerðingin hefur hvað mest áhrif á.

Eftir samþykkt þessa frumvarps munu sitja eftir nokkrar staðreyndir sem mér hefði þótt eðlilegra að skoða í aðdraganda að framlagningu þess. Það verður enn skert frá fyrstu krónu. Það er ekkert frítekjumark. Öryrkjar mega enn ekki vinna sér neitt inn án þess að verða fyrir skerðingum á tekjum sínum. Það er enn ósamræmi milli ellilífeyris og örorkulífeyris, öryrkjar munu áfram búa við þyngri skerðingar en ellilífeyrisþegar. Þetta tekur ekki tillit til þeirra sem hafa lægstar tekjur heldur gengur jafnt yfir alla og kemur þá mögulega betur út fyrir þá sem hafa meiri starfsgetu eða er hipsum happs, skilst mér, hvernig áhrif þetta hefur.

Þetta frumvarp flækir enn frekar reglur um skerðingar á örorkulífeyri þar sem það kynnir til sögunnar þrjú mismunandi skerðingarstig fyrir mismunandi tekjur. Það hefði verið lítið mál fyrir ráðherra að vinna þetta mál einfaldlega betur, með meiri fyrirvara og vera í samráði við hagsmunasamtök öryrkja við þá vinnu, hagsmunasamtök öryrkja sem eru með mjög góða hugmynd um hvernig þau hefðu helst viljað sjá þessum 2,5 milljörðum varið.

Ákallið um afnám krónu á móti krónu skerðingu hefur verið afar hávært mjög lengi í umræðunni og engin þörf á því að vinna þetta mál á handahlaupum korteri fyrir þinglok. Af hverju var ekki löngu búið að undirbúa þetta?

Þó að í þessu máli felist kjarabót fyrir öryrkja skrifa ég ekki undir nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar og tek þannig ekki undir afstöðu hans. Ástæðan er einföld. Mér finnst það vera sjálfsagt réttlætismál að afnema alla krónu á móti krónu skerðingu og það strax. Ég hef lagt fram frumvarp þess efnis, nú reyndar í annað skipti, en frumvarpið komst til velferðarnefndar í september sl. og þar hefur það nú setið fast í níu mánuði. Frumvarpið felur í sér eina einfalda lagabreytingu sem á einu bretti afnemur krónu á móti krónu skerðingu, auk þess að einfalda kerfið, eins og fulltrúar allra flokka segjast vilja gera fyrir kosningar, þ.e. að einfalda almannatryggingakerfið og afnema krónu á móti krónu skerðingu. En þegar ég bað um atkvæðagreiðslu um að málið yrði afgreitt úr nefnd í desember sl. var sú tillaga felld af meiri hlutanum. Málið er í raun afar skýrt, það er ekki pólitískur vilji fyrir því að afnema þessa skerðingu að fullu og líklega var sá vilji aldrei til staðar.

Forseti. Blessunarlega hefur komið í ljós að meiri hluti velferðarnefndar hefur ákveðið að fjarlægja c- og d-liði en mig langar samt að ræða þá aðeins. Til að það geti gerst þarf fyrst að segja smásögu, söguna af búsetuskerðingum. Ég ætla ekki að fara í miklum smáatriðum í það hvernig búsetuskerðingar komust á og því er kannski rétt að byrja söguna af úrskurði umboðsmanns Alþingis sumarið 2018. Þar kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að reikningsaðferð Tryggingastofnunar til að finna út búsetuhlutfall einstaklinga sem fluttust til Íslands eftir búsetu um tíma í öðru landi innan EES hafi verið ólögleg. Úrskurðurinn snerist í meginatriðum um að Tryggingastofnun hafi ekki haft heimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila, eins og hún hafði gert um árabil, milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nyti ekki bóta frá öðru EES-ríki.

Fyrir þau sem hafa ekki sett sig inn í örorkulífeyriskerfið og jafnvel inn í þetta sérstaka mál sem varðar búsetuskerðingar kann þetta að hljóma eins og framandi tungumál. Og það er nákvæmlega það sem ég var að lýsa áðan, þetta kerfi er svo ólýsanlega flókið að það er erfitt að vera reiður yfir óréttlætinu sem í því felst.

Ég ætla að útskýra það á mannamáli eða gera heiðarlega tilraun til þess.

Þegar einstaklingur sem á rétt á örorkulífeyrisbótum á Íslandi hefur búið hluta ævi sinnar í útlöndum á hann ekki fullan rétt. Það hversu miklar bætur hann fær fer eftir því hvað hann bjó lengi í útlöndum. Aðferðin sem Tryggingastofnun ríkisins beitti fólst í stuttu máli í því að gert var ráð fyrir því að hann myndi verja hlutfallslega jafn miklum tíma erlendis og hann hafði gert frá 16 ára aldri þangað til hann varð öryrki. Í þessu tiltekna máli umboðsmanns voru málavextir þannig að 16 ára stúlka flutti til Danmerkur með foreldrum sínum og svo aftur til Íslands u.þ.b. 21 árs gömul. Hún var metin 100% öryrki árið 2013 en litið var svo á að hún hefði verið óvinnufær frá árinu 2011, þá u.þ.b. 22 ára. Þegar verið var að ákveða rétt hennar til örorkulífeyrisbóta var því bara þetta stutta tímabil undir, þ.e. tíminn frá 16–22 ára aldurs, og af þessum sex árum hafði hún verið fimm erlendis. Bótaréttur hennar var því aðeins 118.000 kr. á mánuði.

Þetta dæmi sýnir nákvæmlega hversu ósanngjarnar búsetuskerðingar geta verið. Hérna er 16 ára stúlka sem flytur til útlanda með foreldrum sínum og býr þar um nokkurra ára skeið og snýr svo aftur til Íslands, heimilis síns stærsta hluta ævinnar, og henni er sagt að velferðarsamfélagið Ísland vilji að hún dragi fram lífið á 118.000 kr. á mánuði það sem eftir er ævinnar.

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis var sú að þessi reikniaðferð Tryggingastofnunar væri ólögleg, að henni væri ekki heimilt að reikna þessi framtíðarár þannig að þau yrðu í sama hlutfalli og tíminn frá 16 ára aldri fram að því að viðkomandi var metin öryrki. Þessi ár ætti einfaldlega að telja til búsetu á Íslandi. Það væri hin eina löglega túlkun á ákvæðum almannatryggingalaga.

Það að greiða öryrkjum í samræmi við lög á ekki að vera flókið. Sé það of flókið eiga öryrkjar ekki að bera hallann af því og bíða í marga mánuði eftir að greiðslur hefjist. Sú er raunin nú. Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að það hefur tekið svona ofboðslega langan tíma að hefja réttar greiðslur til öryrkja? Mögulega er svarið að finna í þessu frumvarpi sem og frumvarpi félags- og barnamálaráðherra sem sett var inn í samráðsgátt stjórnvalda þann 13. maí sl., en það frumvarp felur í sér að búsetuskerðingar eru í raun lögfestar. Svar ráðherra við úrskurði umboðsmanns við því að þessar skerðingar séu ólöglegar verður þá í raun bara: Þá gerum við þær löglegar, óháð því hvort þær eru ósanngjarnar, ómannúðlegar, óréttlátar — og brot á EES-reglum ef út í það er farið.

Ráðherra sýndi með þessu frumvarpi að hann vildi helst ekki greiða öryrkjum í samræmi við gildandi lög. Það er bara þannig. Hann vildi bara breyta lögunum — og það fjórum dögum eftir að ráðuneytið sendi út fréttatilkynningu þess efnis að endurgreiðslur vegna leiðréttinga á búsetuhlutfalli væru að hefjast.

Afar hörð gagnrýni á frumvarpið hefur, í það minnsta enn sem komið er, komið í veg fyrir framgang þess. Það hefur ekki verið lagt fram á Alþingi og ég vona að svo verði aldrei. En það frumvarp sem við ræðum hér er ekki síður áhugavert. Eins og fram hefur komið ætlar meiri hluti nefndarinnar að fella út c- og d-lið 1. gr. frumvarpsins. Það er gott og það er rétt niðurstaða, en c-liðnum var nefnilega ætlað að lögfesta búsetuskerðingar á þessari sérstöku framfærsluuppbót sem við höfum verið að ræða. Í þessum lið segir að fjárhæð sérstöku framfærsluuppbótarinnar skuli reiknast í samræmi við réttindi til lífeyris, samanber 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Breyting þessi er rökstudd þannig að verið sé að lögfesta viðtekna framkvæmd Tryggingastofnunar, þ.e. að beita búsetuskerðingum á þessa sérstöku framfærsluuppbót. Með því er í raun verið að lögfesta mjög umdeilda reglugerð og um leið taka afstöðu til þess, án umræðu eða nánari skoðunar, að beita eigi búsetuskerðingum á lágmarksframfærslu. Þetta er sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að ráðherra hengir þessa í raun ótengdu breytingu við frumvarpið sitt sem hefur það hlutverk að draga úr krónu á móti krónu skerðingu öryrkja. Svo virðist sem ráðherra svíði svo svakalega að þurfa að greiða öryrkjum þessa fjármuni, sem þeir eiga þó rétt á, að hann freistar þess að lauma inn þessari umdeildu grein og vonar að enginn taki eftir því. Ég get bara ekki séð það öðruvísi. Með annarri hendinni býður hann minni háttar kjarabót en með hinni frekari skerðingar.

Forseti. Við lok þessa þingvetrar mun ég láta af störfum sem formaður velferðarnefndar. Það hefur verið einstaklega lærdómsríkt verkefni að takast á við þennan tíma og að mörgu leyti er ég sátt við þau mál sem við höfum unnið að og klárað á síðustu tveimur árum. Að mestu leyti hefur líka gengið vel að vinna saman innan nefndarinnar. Ein mín helsta eftirsjá er líklega sú að okkur láðist að koma á víðtækari kjarabótum fyrir öryrkja. Við erum þó vel á veg komin og ég er hvergi hætt, bara svo það komi skýrt fram, ég mun halda áfram að krefjast þess að loforð um afnám krónu á móti krónu skerðingar verði efnd og berjast fyrir því að hér fái allir tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi, óháð því hver starfsgeta þeirra er.