félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar þar sem við tölum stundum um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Mig langar svolítið að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður sem talaði hér á undan sleppti honum. Það er mjög gott að hv. velferðarnefnd hafi tekið eftir því að lauma átti tveimur stafliðum inn í frumvarpið sem nú er til umræðu. Það eru þá sérstaklega stafliðir c og d, það þarf klárlega að ræða þá betur.
Eins og segir í umsögn Öryrkjabandalagsins virðist sem það hafi alls ekki fengið tækifæri til að vera með í ráðum þegar um slíka risabreytingu er að ræða. Mér sýnist á umsögn Öryrkjabandalagsins að það hafi aðeins fengið tvo daga til að vega og meta það sem lá fyrir.
Það er rétt að þetta er skref en ég tek undir orð formanns velferðarnefndar, hv. þm. Halldóru Mogensen, sem segir að þetta sé aðeins lítið hænuskref.
Það er rétt, sem fram kemur, að þessu er kastað fram á síðustu dögum þings og hlutirnir eiga að ganga mjög hratt í gegnum þingið. Þá er það enn og aftur hlutverk velferðarnefndar að rýna í þetta frumvarp og þar tóku menn eftir því að þessir stafliðir, c og d, voru teknir út. Mér detta í hug einkunnarorð Öryrkjabandalagsins: Ekkert um okkur án okkar. Það hefur greinilega alls ekki verið haft, af hendi félags- og barnamálaráðherra, samráð við Öryrkjabandalagið. Því var ekki velt upp hvort kæmi betur út, að settur yrði ákveðinn peningur eða ákveðið fjármagn inn í grunnlífeyri eða hvort það ætti að fara inn annars staðar. Öryrkjabandalaginu var sagt að það myndi geta haft áhrif á það hvernig þeim fjármunum yrði ráðstafað sem hér um ræðir, en síðan var aðeins ein kynning á einum stuttum fundi og svo var málinu lokað. Það er líka merkilegt að þessir stafliðir, c og d, voru aldrei kynntir, þeir voru aldrei orðaðir við Öryrkjabandalagið. Það er eiginlega fyrirséð að stafliðirnir hafi verið settir inn í frumvarpið með það að markmiði að skerða örorkulífeyrisgreiðslur enn frekar. Öryrkjabandalagið hefur einnig gagnrýnt, og ég vil taka undir það, að þó svo að þetta skerðingarhlutfall, sem nú er komið í 65 aura, sé lítið hænuskref hefur Öryrkjabandalagið ítrekað bent á að svo sé ekki meira sagt. Það er í raun skilið eftir í lausu lofti og Öryrkjabandalagið hefur ekki hugmynd um hvað muni koma svo.
Samráðshópur til að einfalda kerfið skilaði af sér niðurstöðu þar sem mér sýnist á öllu að verið sé að flækja kerfið. Og það sem meira er: Það er verið að byrja á röngum enda. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að fyrst hefði átt að byrja á því að setja fram hlutastörf. Síðan mætti auglýsa — ég hef talað um þetta áður — eftir þátttakendum sem hefðu getu til að ganga í þau störf. Eftir það mætti sjá hver reynslan yrði af því fyrirkomulagi og ákveða hvernig það hefði reynst og auglýsa svo bara aftur. Það sem ég er að vísa í eru sérstaklega hugmyndir um hvað gert var með NPA-aðstoð. Þá var farið í að auglýsa og þá var ákveðinn kvóti eða ákveðinn fjöldi sem gat sótt um að fá aukna persónulega aðstoð. Og ég sé ekki betur en að byrja verði á þeim enda. En valið var að búa til nýtt flækjustig. Samráðshópurinn skilaði frá sér þessum tillögum, sem í mínum huga eru ekkert annað en aukin flækja á því sem er þekkt í dag. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á virðist enginn skilja hvernig kerfið virkar. Það eru alla vega ekki margir sem skilja það.
Til þess að fara aftur inn í þennan c-lið frumvarpsins, sem hv. velferðarnefnd tókst sem betur fer að taka út úr frumvarpinu, átti að lögfesta svokallaða búsetuskerðingu á sérstakri framfærsluuppbót. Það má halda því fram að þá sé verið að girða fyrir, ef það hefði farið í gegn, að hæstv. félags- og barnamálaráðherra þyrfti að standa við að endurgreiða þær búsetuskerðingar sem eru ólögmætar — það verður aldrei nógu oft sagt að það er ólögmætt að ætla ekki að greiða þetta til baka, þessi tíu ár. Það er furðulegt til þess að vita að nú er hugmyndin að greiða aðeins fjögur ár til baka. Það er enn ein spurning sem er dálítið merkileg. Ef við förum aftur í þennan c-lið sem fjallar um búsetuskerðingarnar var ætlun hæstv. ráðherra að setja inn í frumvarpið, lauma inn í það, þáttum sem alls ekki hefur verið rætt um og er alls ekki sátt um. Því er haldið fram að það hefði haft skelfilegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.
Ef ég fer aðeins yfir í d-lið frumvarpsins sem hv. velferðarnefnd náði einnig að fella út, þá átti að lauma inn skerðingum er varða slysatryggingar. Það átti sem sagt að vera enn einn skerðingaflokkurinn. Þess vegna talaði ég um hér fyrr að það væri sannarlega verið að flækja kerfið. Og enn og aftur er alveg ljóst að það átti að heimila og tryggja lagagrundvöll fyrir frekari skerðingar.
Ég ætla aðeins að vitna í lokaorð álits Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:
„Af framangreindu má sjá að ÖBÍ er ekki sátt við þá útfærslu sem hér er kynnt. Við hefðum svo sannarlega viljað sjá samráð haft við fatlað fólk um það hvernig þessari fjárhæð hefði best verið varið. Þá er það ekki til að skapa traust í garð stjórnvalda að sjá hér laumað inn ákvæðum (sjá c- og d-lið) sem aldrei hafa verið kynnt eða rædd við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, og verða eftir því sem best fæst séð bara til að þrengja að örorkulífeyrisþegum. Það er von okkar að þessi tilteknu ákvæði verði tekin út úr frumvarpinu þannig að þau verði ekki lögfest.“
Það er einmitt það sem hv. velferðarnefnd tók að sér að gera, að fjarlægja þessa tvo stafliði sem hæstv. ráðherra ætlaði að lauma í gegn. Það er alveg stórmerkilegt að koma svo seint fram með þetta mál og halda að það rúlli bara hér í gegn. En ég skrifaði undir álit meiri hlutans með fyrirvara. Fyrirvarinn hjá mér liggur mest í því að ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að við reynum að minnka skerðingar, nú eru það 65 aurar á móti krónu, en það er alveg skýrt í mínum huga að króna á móti krónu tillagan, sem lá hér fyrir þinginu, er mun betur til þess fallin að afnema skerðingar. Og annað er hitt að það átti líka að vera liður í því að einfalda kerfið. Ég held að það sé aðalmálið, við verðum að fara að huga að því að vinda ofan af flækjustigi þessa kerfis á meðan fólk nær ekki að skilja hvað um er að ræða.
Að lokum ætla ég að grípa hér aðeins niður í umsögn Tryggingastofnunar sem líka barst hv. velferðarnefnd. Tryggingastofnun er með nokkrar ábendingar en bendir að lokum á það mikilvæga atriði að ekkert kostnaðarmat kom fram í greinargerð frumvarps hæstv. ráðherra, hvorki varðandi bótaflokk né annan kostnað. Tryggingastofnun gerir sér grein fyrir því að það muni verða umtalsverður aukinn kostnaður. Breytingar á kerfum kalla á aukinn kostnað og auðvitað er utanumhald vegna starfsmanna sem þarf að ráða vegna þess að Tryggingastofnun gerir sér grein fyrir því að verið er að auka flækjustig við útreikninga.