félagsleg aðstoð og almannatryggingar.
Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þetta mál og stöðu öryrkja almennt í samfélaginu. Mér finnst afskaplega sorglegt hvernig komið er fyrir öryrkjum í þessu landi þegar kemur að forgangsröðun ríkisfjármála í þágu þessa hóps. Í fyrsta lagi búa yfir 20.000 manns við þær aðstæður að vera öryrkjar eða fatlaðir á Íslandi og allt of lengi hefur þessi hópur setið eftir. Hann var skilinn eftir á hagvaxtarskeiðinu og nú lítur út fyrir að hann verði líka skilinn eftir á samdráttarskeiðinu. Þetta er algjörlega ótækt, herra forseti. Ísland er tíunda ríkasta land í heimi og það er fullkominn óþarfi að haga hlutunum með þeim hætti sem raun ber hér vitni. Ríkisstjórnin tekur hænuskref þegar kemur að því að draga úr svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu sem allir flokkar hafa ítrekað sagt að þeir vilji losna við, allir flokkar, ekki síst ríkisstjórnarflokkarnir. Ég velti fyrir mér af hverju við getum ekki sammælst um að taka skrefið til fulls og afnema svokallaða krónu á móti krónu skerðingu í einu skrefi.
Tölurnar ljúga ekki og ekki heldur excel-skjölin. Við sjáum að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt í mars sl. var gert ráð fyrir aukningu í málefni öryrkja um 4 milljarða sem er u.þ.b. einn þriðji af því sem það kostar að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Síðan fáum við breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, á fundi fjárlaganefndar sl. föstudag þar sem koma djúpt í fylgiskjali VII breytingartillögur þessara ríkisstjórnarflokka við fjármálaáætlun sem þessir flokkar sjálfir lögðu fram fyrir einungis rúmum tveimur mánuðum. Þar koma fram mikil pólitísk tíðindi því að svo virðist sem öryrkjar, af öllum hópum, eigi að taka á sig stærsta skellinn í þeim samdrætti sem íslenskt hagkerfi er að verða fyrir núna. Fjárframlög til öryrkja eiga að dragast saman um 8 milljarða kr. samanlagt næstu fimm árin. Auðvitað mun þessi hópur finna fyrir því. Það er tóm tjara sem maður hefur heyrt suma þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tala um, að þessi hópur muni ekki finna fyrir því þótt hann fái 8 milljörðum kr. minna næstu fimm árin samanlagt en til stóð fyrir einungis tveimur mánuðum.
Það er ótrúleg forgangsröðun, herra forseti, að hér sé hlutunum hagað með þessum hætti. Til að setja þetta í smásamhengi er niðurskurðurinn í fjárframlögum til öryrkja tíu sinnum hærri upphæð en niðurskurðurinn sem hin æðsta stjórnsýsla fær í breytingartillögum ríkisstjórnarflokkanna. Það er alveg ótrúlegt.
Ég hef talað mjög skýrt fyrir því, og við í Samfylkingunni, að við eigum að hlífa velferðarkerfinu og skólunum. Við sjáum að ekki bara öryrkjar eiga að fá högg í þessum breytingartillögum. Það er líka nýsköpun, 3 milljarðar, umhverfismálin, 1,4 milljarðar, framhaldsskólinn, 1,8 milljarðar, hjúkrunarheimilin fá beinlínis lækkun, fá minna 2024 en 2019, og sjúkrahúsþjónustan fær 4,7 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin í breytingartillögunum frá framlagðri fjármálaáætlun. Heilsugæsla og sérfræðiþjónusta fær 2 milljarða kr. lækkun.
Þetta er svört tafla, herra forseti, breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna á sinni eigin fjármálaáætlun.
Ég hef verið að hamast í þessu máli alla vikuna og ég vona svo sannarlega, því að málið er enn til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd, að menn sjái að sér og fari ekki eftir þessum breytingartillögum heldur hlífi þessum hópum eins og við ættum að gera. Á sama tíma var það forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að lækka veiðileyfagjöldin, gjöld sem eru í eðli sínu aðgöngumiði útgerðar að einum gjöfulustu fiskimiðum jarðar. Það er búið að lækka veiðileyfagjöldin niður í þá upphæð að þau nálgast tóbaksgjaldið, gjald sem við setjum á sígarettur sem 8–9% af þjóðinni reykja.
Hvers konar pólitík er þetta? Einungis fyrir einu ári ætluðu ríkisstjórnarflokkarnir að keyra í gegnum þingið lækkun á veiðileyfagjöldum um 3 milljarða. Stjórnarandstaðan stoppaði það á þeim tíma en flokkarnir náðu síðan lækkuninni í gegn sl. haust.
Svo má spyrja hvort það sé raunveruleg ástæða til að hafa hér lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum á sama tíma og við erum að ganga í gegnum samdrátt í hagkerfinu? Einnig: Þarf það að vera pólitískt forgangsmál að lækka svokallaðan bankaskatt um 8 milljarða kr.?
Ég bendi á aðrar leiðir en að fara í þennan vonda niðurskurð í gegnum breytingartillögur ríkisstjórnarinnar. Við þurfum ekki að fara þessa leið, herra forseti. Þetta eru vondar tillögur, þetta er vond pólitík og kjósendur Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks geta ekki setið heima og verið sáttir við forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Þetta er til skammar, herra forseti. Við eigum að gera miklu betur hér og fara fram á veginn en ekki aftur á bak. En þessi ríkisstjórn virðist vera föst í bakkgírnum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.