149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[14:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góða fyrirspurn. Ég get nefnt nokkur dæmi. Ég tel að við Íslendingar, eins og ég kom reyndar aðeins inn á áðan, ættum að leggja stóraukna áherslu á landgræðslu og skógrækt.

Og talandi um votlendið: Þó að tölur séu mjög á reiki er a.m.k. ljóst, og ég held að það sé óumdeilt, að ef skógi væri plantað í það land sem hefur verið þurrkað, án þess að ég sé að halda því fram að það eigi að gera það alls staðar, hefði það umtalsvert meiri jákvæð áhrif en að moka ofan í skurðina og bleyta aftur í jarðveginum. Annað er sú orkuframleiðsla sem við stundum hér á Íslandi. Ég held að það væri til bóta að við framleiddum meira af endurnýjanlegri, umhverfisvænni orku, að við nýttum þau tækifæri sem landið býður upp á. Að vísu verður það alltaf háð mati í hverju tilviki fyrir sig því að ég skal viðurkenna að það er ákveðinn fórnarkostnaður gagnvart náttúrunni við allar virkjunarframkvæmdir.

En ég tel þó að fyrir hendi séu enn vænlegir kostir til að auka framleiðslu umhverfisvænnar orku og nýta hana þá vonandi til framleiðslu umhverfisvænna hluta á borð við ál, sem er auðvitað mjög umhverfisvænn málmur; án þess, svo ég taki það fram, að ég sé endilega að halda því fram að fara eigi í meiri álframleiðslu. En það er ýmislegt fleira sem hægt væri að nýta hreina íslenska orku í. Svo ættum við að gera meira af því að nýta okkar eigin framleiðslu, ekki hvað síst íslenska matvælaframleiðslu. Flutningur á matvælum milli landa og þær aðferðir sem notaðar eru í landbúnaði víða erlendis hafa gríðarleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Það að borða meira af heilnæmum íslenskum mat, framleiddum í íslenskum sveitum, vonandi með sem umhverfisvænstum aðferðum, myndi strax hafa mikið að segja.