149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[15:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, vissulega er ég sammála hv. þingmanni varðandi matvælaframleiðslu hér á Íslandi. Við þurfum að nýta þessa hreinu orku sem við búum yfir og þær auðlindir sem hér eru til innlendrar matvælaframleiðslu. Ég bind miklar vonir við að þau umhverfissjónarmið komi skýrt fram í nýrri matvælastefnu sem við bíðum eftir frá hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Ég er ekki sammála honum um að álið sé umhverfisvænasta afurðin af nýtingu okkar ágætu hreinu auðlinda. Og það sem hv. þingmaður talaði um, að við ættum að framleiða meira af umhverfisvænni orku, og er þá væntanlega að vísa til þess að við þurfum að virkja meira: Ég ætla rétt að vona að hv. þingmaður sé þar með að vísa til þess að nýta eigi þessa hreinu orku á umhverfisvænan máta.

Hann talaði um í ræðu sinni að ekki væri gott að gefa til kynna að áhrif loftslagsbreytinga væru önnur en þau eru í raunveruleikanum og mig langar að biðja hann um að útskýra þau orð nánar. Við sjáum skýr merki, og rannsóknir og tölur gefa það sterklega og meira en það til kynna, að við erum í miðjum hamförum, eins og Halldór Þorgeirsson og fleiri sem hafa unnið að loftslagsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um árabil hafa sagt opinberlega, við erum í raun og veru í miðjum hamförum þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga.

Mig langar til að fá útskýringu hv. þingmanns á þeim orðum að áhrifin séu önnur en oft sé látið liggja að. Þar held ég að við séum aðeins ósammála, ég og hv. þingmaður, vegna þess að ég held einmitt að áhrifin séu komin fram og muni skella harðar á okkur en við höfum séð áður.