149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[15:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst, svo að það sé á hreinu, tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni varðandi nýtingu orkunnar; að við leggjum áherslu á að reyna að beina henni í framleiðslu sem getur hjálpað til við heildarmyndina sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni. Ég heyri að hv. þingmaður er aðeins ósammála mér um álið en ég vil samt minna á að þetta er léttur málmur sem fyrir vikið sparar útblástur bifreiða og flugvéla og annars sem hann er nýttur í og hægt er að endurvinna ál nánast endalaust.

En svo að ég snúi mér að spurningu hv. þingmanns er það vissulega rétt að áhrifin af loftslagsbreytingum eru sannarlega farin að sjást. Það má velta því fyrir sér hvort veðrið hér utan við gluggann sé að einhverju leyti áhrif loftslagsbreytinga. En mér hefur engu að síður þótt vera of mikil tilhneiging — og kannski er það afleiðing af því hve stórt þetta mál er, mál sem flestir hafa áhuga á eða áhyggjur af — til að heimfæra áhrif loftslagsbreytinga á hluti sem eiga ekki endilega við og jafnvel, eins og ég nefndi sem dæmi í ræðu minni hér áðan, að halda fram fullyrðingum sem ekki standast nánari skoðun, til að mynda því að ofsaveður eða hvirfilbyljir hafi aukist mjög verulega frá því fyrir einhverjum áratugum.

Meginástæðan fyrir því að ég tel mikilvægt að menn fari ekki að tína of margt til, án þess að geta sýnt fram á að um bein áhrif loftslagsbreytinga sé að ræða, er að hættan er sú að þar sem áhrifin eru mjög raunveruleg minnki trúverðugleikinn, að menn kenni loftslagsbreytingum um hluti þar sem þær eru kannski ekki skýringin. En aftur kem ég að því sem ég gerði að meginþema ræðu minnar. Það eru vísindin og að við þurfum að geta treyst þeim.