149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni um þetta mikilvæga mál sem snertir okkur öll og hefur fengið mikla athygli, eins og komið hefur fram hér, vegna margvíslegra náttúruhamfara sem menn telja að rekja megi til loftslagsbreytinga.

Ég vil í upphafi, herra forseti, koma aðeins inn á það sem mér þótti mjög athyglisvert, sem var í fréttum fyrir ekki svo löngu, þ.e. að loftslagsmálin og umræðan í tengslum við þau sé farin að valda börnum áhyggjum. Ég held að búið sé að gera könnun þess efnis hér á landi að börn séu áhyggjufull yfir þessari þróun og þeirri umræðu sem hefur farið fram. Þá er spurning hvort eðlilegt sé að fram fari fræðsla um þessi mál. Ég þekki það ekki nákvæmlega en eflaust eru þessi mál rædd í grunnskólum og framhaldsskólum. En það er spurning á hvaða forsendum sú fræðsla er. Nú er það þannig að hægt er að nálgast langan lista af vísindamönnum sem t.d. telja að þær loftslagsbreytingar sem við upplifum nú séu af náttúrulegum orsökum. Einnig er hægt að nálgast langan lista af vísindamönnum sem telja að ekki sé hægt að segja nákvæmlega fyrir um áhrif mannsins á loftslagsbreytingarnar og það er einnig hægt að nálgast langan lista af vísindamönnum sem telja að óþekktar ástæður séu að baki þessum loftslagsmálum. Ég er einfaldlega að segja að í þessari umræðu, og þá sérstaklega innan skólakerfisins, sé mikilvægt að allir þessir þættir séu skoðaðir, öll rök fyrir ástæðum þess að hitastig á jörðinni hefur hækkað og hækkað nokkuð hratt síðastliðin 30 ár. Þó að það hafi kannski ekki hækkað mikið á síðastliðnum 100 árum er það fyrst og fremst á síðastliðnum 30 árum, að því er mér skilst, sem hitastig á jörðinni hefur hækkað það mikið að það veldur áhyggjum. Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst áhyggjuefni að vita af því að börn hafi áhyggjur af þessu máli. Það þarf að nálgast með góðri fræðslu og gagnrýninni hugsun og þar berum við stjórnmálamenn líka ákveðna ábyrgð þegar við ræðum þessi mál.

En það sem ég vildi koma aðeins inn á og náði ekki að ljúka í umfjöllun minni hér síðast er skattheimtan, þ.e. kolefnisskatturinn, og hve mikið hann hefur hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Mig minnir að á þessum fjárlögum séu áætlaðir um 5,9 milljarðar í tekjur af kolefnisgjaldinu en einungis hluti þess rennur til aðgerða í loftslagsmálum. Það sem mér hefur þótt vanta í umræðuna um skattheimtuna og mótvægisaðgerðirnar er að þótt ljóst sé að skatturinn dragi þrótt úr hagkerfinu og minnki samkeppnishæfni fyrirtækja eru enn áform um að hækka þennan skatt. Ríkisstjórnin hefur enn áform um það. Það má minna á að kolefnisgjaldið nemur nú um 11 kr. á hvern lítra af bensíni og tæpum 13 kr. á hvern lítra af dísilolíu. Ég held að það sé rétt hjá mér að fullyrða að u.þ.b. 90% af þessari skattheimtu greiða bifreiðaeigendur. En ég held að það sé ekki nema innan við 10% sem þeir valda af þeirri mengun sem verið er að reyna að sporna við.

Þetta er umhugsunarefni, herra forseti. En vissulega er hugmyndafræðin göfug og málið stórt og mikið og verður að hafa áætlun í þeim efnum. Það er einmitt það sem við ræðum hér. En að mínu mati þarf að ígrunda vel tilgang, forsendur og markmið með skattheimtunni, sérstaklega hverja er verið að skattleggja og hverja ekki. Markmiðið með gjaldinu er að draga úr losun án þess að það grafi undan samkeppnishæfni atvinnulífsins. Þá ætti það sama að gilda hér á landi en í öðrum löndum hafa aðrir skattar verið lækkaðir á móti gjaldinu eða undanþágur gefnar frá öðrum sköttum. Því er ekki fyrir að fara hér. Ísland er t.d. eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engra undanþágna eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta. Það minnkar náttúrlega samkeppnishæfnina.

Hagstofa Íslands hefur gert rannsókn á útgjöldum heimilanna. Þar kemur fram að eldsneytisnotkun er þó nokkuð meiri í dreifbýli og munurinn endurspeglar þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að jafnaði að ferðast um lengri veg. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðurkennt að áhrif kolefnisgjaldsins séu meiri á íbúa í dreifbýli. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrir nokkru. Kolefnisgjaldið er skattahækkun á fólk og fyrirtæki í landinu. Það er ekkert launungarmál. Skatturinn kemur þyngra niður á landsbyggðinni. Við í Miðflokknum teljum að þessum skatti sé ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Það er brýnt að finna lausn á því máli. Við þetta má svo bæta því sem hefur komið hér fram að umhverfisráðherra hefur sagt að erfitt sé að meta nákvæmlega árangurinn af gjaldinu, mælt í minni losun en ella hefði verið hefði gjaldið ekki verið sett á. Þetta kom einnig fram hér á Alþingi í svari við fyrirspurn.

Ekki hafa verið boðaðar neinar aðgerðir í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar sem koma til móts við landsbyggðina vegna kolefnisskatts. Það er ekki að sjá að ívilna eigi umhverfisvænni starfsemi eða að aðrir skattar verði lækkaðir á móti. Nú þegar við horfum fram á niðursveiflu er viðbúið að ekki verði áhugi á því á ríkisstjórnarheimilinu að reyna að bæta úr hvað þetta varðar. Þessar breytingar á kolefnisgjaldinu eru skattahækkun og má kannski segja að þær séu settar í búning græns skatts, ef svo má orða það. Eðlilegt væri að lækka önnur gjöld og gjöld á aðra umhverfisvænni starfsemi á móti. Við verðum einnig að horfa til annarra landa hvað þetta varðar. Í Danmörku fóru t.d. stjórnvöld allt of geyst af stað þegar þau hækkuðu skatta vegna umhverfismála á fyrirtæki og í Noregi er kolefnisgjaldið lægra en á Íslandi og að hluta til endurgreitt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Það er nú þannig að kolefnisgjaldið má ekki auka kostnað íslenskra fyrirtækja umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Slíkt dregur úr samkeppnishæfninni og rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm til fjárfestinga. Um leið dregur úr líkum á því að markmiðinu með gjaldinu verði náð. Það sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar er að aðilar sem eru ekki virðisaukaskattsskyldir hér á landi eru undanþegnir kolefnisgjaldinu. Þannig þurfa t.d. erlend fiskiskip sem taka olíu ekki að greiða gjaldið en í sumum tilvikum eru þau við veiðar á sömu veiðislóð og þau íslensku. Hvorki erlend fiskiskip, skemmtiferðaskip né flutningaskip greiða kolefnisgjald við eldsneytistöku hér á landi og ekkert kolefnisgjald er greitt af flugeldsneyti hérlendis í ríkissjóð.

Þótt tækniframþróun sé hröð í þessum efnum er það ekki svo að hægt sé að fá stærri ökutæki, vinnuvélar og sum iðnaðartæki þannig að þau nýti endurnýjanlega orkugjafa. Þetta á t.d. við í jarðvinnugeiranum og í landbúnaði, ekki síst í landbúnaði. Þannig að á ákveðnum sviðum eru þessi orkuskipti ekki raunhæfur kostur sem stendur, sér í lagi þegar við horfum til iðnaðar- og atvinnutækja sem nota svokallaða litaolíu og möguleika slíkra aðila til orkuskipta eru því hverfandi. Kolefnisgjaldið er greinilega skattur sem leggst með mismunandi hætti á atvinnugreinar. Það er eðlilegt að gerð sé krafa um að til sé heildstæð stefna í málaflokknum áður en lengra er haldið — og þá á ég sérstaklega við skattalega hluta þessa máls. Við í Miðflokknum erum ekki að draga úr alvarleika þessa máls, loftslagsbreytinganna, síður en svo. En við þurfum að finna leið til þess að allir sitji við sama borð þegar kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar hvað varðar skattheimtu. Það er ekki sanngjarnt að ákveðinn hópur landsmanna þurfi að standa ríkari straum af þessari baráttu en aðrir. Mikið er rætt um rafmagnsbílavæðinguna í þessu sambandi. Þar er sú staðreynd fyrir hendi að það er ekki á færi allra að kaupa sér rafmagnsbifreið. Við þurfum að hafa í huga hvernig við ætlum við að koma á móts við þá aðila. Það þurfa í fyrsta lagi að vera mjög öflugar og góðar almenningssamgöngur og þær hafa ekki verið á landsbyggðinni. Það hefur verið mikill taprekstur á þeim almenningssamgöngum sem hafa verið þar. Þannig að það er margt að skoða í þessari skattheimtu.

Miðflokkurinn lagði til við síðasta fjárlagafrumvarp að boðuð hækkun kolefnisgjaldsins upp á 10% kæmi ekki til framkvæmda og auk þess lögðum við til að lækka gjaldið um 50% frá því 2017 þar til heildstæð stefna liggur fyrir um það hvernig Ísland ætli að nota sér kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar, án þess að það bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þrótt úr hagkerfinu. Höfum líka í huga að lækkun þessa gjalds dregur úr verðbólguþrýstingi og þar með verður verðlækkun á eldsneyti. En fyrst og fremst er það sanngirnismál að skattheimtu sé hagað þannig að allir sitji við sama borð. Það er lykilatriði í þeirri mikilvægu baráttu sem við stöndum nú frammi fyrir, og sumir hafa tekið svo djúpt í árinni að segja að um sé að ræða hamfarir — ég skal ekki fullyrða um það hér. En það er ljóst að vísbendingar eru um að hér geti hlutirnir versnað á komandi árum og þá sérstaklega hvað varðar náttúruvá, ef svo má að orði komast, válynd veður og annað slíkt sem rekja má til loftslagsbreytinga. En það er líka mikilvægt að við höldum uppi góðri fræðslu um þetta mál og skoðum allar hliðar málsins, öll rök með og öll rök á móti, og viðhöfum gagnrýna hugsun þegar kemur að umræðu um loftslagsmálin.