149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

veiting ríkisborgararéttar.

966. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum. Í þetta sinn leggur nefndin til að 32 umsækjendum verði veittur ríkisborgararéttur en 196 umsóknir bárust. Einnig er lagt til í leiðinni að upprunaland eins einstaklings sem áður hafði verið veittur ríkisborgararéttur verði leiðrétt. Það er þess virði að nefna það líka í þessu samhengi að starf nefndarinnar hefur endurspeglað þó nokkra aukningu umsókna upp á síðkastið og því liggur meira á en áður að breyta lögum um ríkisborgararétt til að koma til móts við ýmis vandamál og þekkta galla í lögunum. Má þar nefna t.d. biðtíma sem verður til vegna sekta, þá sér í lagi kannski umferðarsekta sem fólk fær, sem þvælast mikið fyrir því. Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú þegar til umsagnar drög að frumvarpi.

En það er líka rétt að geta þess að allsherjar- og menntamálanefnd hyggst sjálf leggja fram frumvarp sem verður, alla vega í einhverjum skilningi, byggt á því frumvarpi en nefndin sjálf á samt eftir að koma sér saman um slíkt frumvarp. Það var von okkar í nefndinni að við hefðum getað lagt fram slíkt frumvarp á þessu þingi og fengið samþykkt vegna þess að það liggur eiginlega meira og meira á með tímanum. En við vonumst þess í stað til þess að geta lagt fram slíkt frumvarp í haust og er það vitaskuld háð því að nefndin komi sér saman um frumvarp sem hún vill leggja fram sameiginlega til lagfæringar á hinum ýmsu atriðum sem lagfæringa er þörf á.

Það er ekki neinu við þetta að bæta, virðulegi forseti, nema að óska þeim 32 einstaklingum og börnum þeirra til hamingju sem hafa hér fengið ríkisborgararétt og lýk ég þá máli mínu.