149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[15:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum hér til atkvæða um gríðarlega mikilvægt mannréttindamál, um kynrænt sjálfræði, en samþykkt þessa frumvarps felur í sér gríðarlega mikla réttarbót. Við í þingflokki Vinstri grænna munum greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Við munum hins vegar greiða atkvæði gegn tillögum minni hluta nefndarinnar sem snúa að því að færa í raun það sem er nú í bráðabirgðaákvæði inn í lögin. Við teljum að bæði í greinargerð með frumvarpinu sjálfu sem og í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar hafi komið fram fyrir því greinargóð rök hvers vegna best sé um málið búið í bráðabirgðaákvæði I og munum þar af leiðandi ekki styðja þessar breytingartillögur minni hlutans sem allar eru í tengslum við þetta bráðabirgðaákvæði.