149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er mjög mikilvægt mál en ég veit ekki hvort ég er sammála þeim orðum hv. þingmanns að þetta sé sjálfsagt mál því að allt of oft eru því miður réttindi ekki sjálfsögð og meira að segja þó að árin líði er ekki sjálfgefið að réttindi fólks batni. Það sjáum við nú um heim allan. Til að bæta réttindi fólks í raun og veru þarf pólitískt þor til þess að taka ákvarðanir. Það þarf pólitískan vilja til að keyra þær ákvarðanir til enda og ég er mjög stolt af því að Alþingi sé komið á þennan stað í afgreiðslu þessa máls. Vissulega er spurningum ósvarað, þannig verður það alltaf, en ég er mjög ákveðin í því að halda áfram að vinna samkvæmt því bráðabirgðaákvæði sem er kveðið á um í frumvarpinu og reyna að ná sem bestri sátt um lausn þeirra mála.

Um leið er ég líka mjög þakklát fyrir þá almennt góðu sátt sem ég tel að hafi skapast á Alþingi um þetta réttindamál sem er mikilvægt fyrir stóran hóp fólks og mun aftur (Forseti hringir.) koma Íslandi í fremstu röð í málefnum og réttindum hinsegin fólks. Ég þakka fyrir þá góðu vinnu sem ég hef séð eiga sér stað á Alþingi og minni á að réttindin eru því miður ekki alltaf sjálfsögð.