149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[16:18]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir það hversu hratt hún vann þetta mál. Ég tek undir að vissulega hefði verið jákvætt ef málið hefði getað borið fyrr að en við vorum að bíða eftir niðurstöðum starfshóps sem skilaði af sér. Ráðherrann er algjörlega meðvitaður um að það hefði þurft að fá betra samráð en er engu að síður þakklátur fyrir starf nefndarinnar og hvernig hún kom að málinu.

Hér erum við að stíga gríðarlega mikilvægt skref til að hvetja fólk til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði sem er einmitt kjarninn í þeirri skýrslu sem skilað var nýlega. Ég er sérstaklega ánægður líka með að ríkisstjórnin stígi hér skref til afnáms skerðinga sem meðvitað var tekin ákvörðun um á sínum tíma þegar genginn var þessi vegur gagnvart eldri borgurum. Undir forystu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar var meðvitað tekin ákvörðun um að skilja öryrkja eftir á þeim tíma og það er ánægjulegt að við skulum í dag vera að gera breytingar á því og stíga þetta skref.

Ég þakka nefndinni fyrir það hversu hratt hún brást við í þessu efni og að við skulum ná þessu skrefi hérna (Forseti hringir.) vegna þess að sannarlega var ekki gott að skilja þennan hóp eftir 2016.