149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kjararáð.

413. mál
[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra virðist hafa misst af ræðu minni, e.t.v. verið eitthvað utan við sig, kannski í símanum. Það er allt í lagi, slíkt getur hent. En ég nefndi einmitt sérstaklega í ræðu minni að mér þætti eðlilegt að ef þetta yrði niðurstaðan yrðu í framhaldinu hlutir eins og formannsálag skoðaðir sérstaklega, en formannsálag heyrir ekki undir þessi lög sem verið er að ræða hér.

Hér er fyrst og fremst um að ræða að við sýnum að störf þingmanna séu metin ekki miklu síður en störf ráðherra, jöfnum með öðrum orðum örlítið stöðu löggjafans og framkvæmdarvaldsins, sérstaklega ráðherra. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefur áhyggjur af því að eins og fyrirkomulagið er núna geti það leitt til þess að menn stofni hugsanlega nýja flokka myndi ég segja að þær áhyggjur væru óþarfar — ef þeir flokkar eru til þess fallnir að standa við þau fyrirheit sem þeir gefa. Það kann að vera að stjórnmálaflokkar lendi í þeirri stöðu, á gamals aldri, að hætta að sinna málefnum sem þeir standa fyrir, hætta að standa við kosningaloforðin, hætta að líta til afstöðu grasrótar sinnar, og þá getur alveg verið tilefni til þess að stofna nýja flokka og engin ástæða til að setja hindranir í veginn hvað það varðar.

Varðandi hins vegar málflutning hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar vil ég eingöngu undirstrika að hér er ekki um að ræða eitthvert mat á því hver sé hin rétta krónutala allra starfsmanna sem undir þessi lög heyra. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að draga úr þeim mikla mun sem hefur verið á kjörum ráðherra annars vegar og alþingismanna hins vegar og þar af leiðandi senda þau skilaboð að það sé ekki eins mikill munur og verið hefur á því hvaða virðingu þessi störf hljóta.