149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[14:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta frumvarp, sem heitir frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, er frábært mál að flestu leyti, frumvarp sem mun, þegar það verður að lögum, hafa í för með sér gríðarlega mikilvægar réttarbætur hvað varðar rétt einstaklinga til að skilgreina eigið kyn. Þetta mun standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og réttarbæturnar gerast eiginlega ekki miklu meiri. Jafnframt mun þetta skipa Íslandi í fremstu röð í þessum málaflokki, málaflokki hinsegin fólks, og það er kominn tími til að við verðum þar í fremstu röð hvað varðar lagalega stöðu samhliða því sem við erum þar hvað varðar samfélagslega og félagslega stöðu að mörgu leyti.

Þessi gleðilega staða er ekki síst að þakka einstaklingum úr samtökunum Trans Ísland, Intersex Ísland og Samtökunum '78 sem hafa verið óþreytandi í því að tala fyrir nýjum, breyttum og bættum viðhorfum í málefnum hinsegin fólks. Það er eiginlega magnað hvaða árangur hefur náðst en það er líka magnað hve margt er óunnið enn. Ég naut þess í gær að sitja hér við þinghald ungmenna þar sem fríður flokkur ungs fólks ræddi sérstaklega þrjú málefni, heilbrigðismál, jafnréttismál og umhverfismál. Í jafnréttismálunum var m.a. rætt um málefni hinsegin fólks og ræðurnar voru skemmtilega unnar, og e.t.v. mættum við læra af þeim, í samvinnu allra sem að málum koma. Það sem hópurinn hafði til málanna að leggja þar var m.a. lítil saga af ungum dreng, 13 ára gömlum, sem kemur til aðstandenda og segist vera skotinn í öðrum dreng. Viðbrögðin sem hann fær eru: Þú ert allt of ungur til að velta þessu fyrir sér, til að hugsa um svona hluti. Litla fimm ára stúlkan sem kemur til aðstandenda og segist vera skotin í strák fær önnur viðbrögð: Það er svo sætt. Þetta sýnir bara hvað við erum samofin þessum gömlu viðhorfum og hvað það er tímabært að berja svolítið í grunnstoðirnar, og það er verið að gera það, á þessum gömlu rótgrónu viðhorfum, m.a. með þessu frumvarpi. Það er ómetanlegt í réttindabaráttu og fyrir minnihlutahópa almennt að hafa svona öflug samtök og öfluga málsvara á bak við sig og það er ekki bara fyrir þessa minnihlutahópa heldur fyrir samfélagið allt, okkur öll sem viljum búa í opnu, frjálslyndu, víðsýnu samfélagi, af því að við teljum að líf okkar, ekki bara þeirra sem málið varðar beint, sé líka betra með þessu.

Ég fagna þessu frumvarpi. Mig langar hins vegar aðeins að nefna ákveðin vonbrigði með að ekki var tekið undir breytingartillögu minni hlutans í allsherjar- og menntamálanefnd varðandi það að taka út ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu um að í staðinn fyrir að við færum beint í að rétta hag barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni yrði skipaður starfshópur til að skoða þau mál enn frekar. Ég tel þau mál hreinlega vera fullskoðuð. Það þarf bara að taka ákvörðun um þetta. Að sama skapi var heldur ekki tekið undir tillögur minni hlutans um að gera læknum og heilbrigðisstarfsfólki skylt að halda skrá yfir slík inngrip. Ég mun styðja málið vegna þess að það er að öðru leyti mjög gott og ég treysti því að þessu ákvæði verði fylgt eftir af okkur, af löggjafanum og öðrum sem málið snertir, að það verði ekki svæft í þessum starfshópi. Við eigum ekki síst að gæta réttinda þessa hóps vegna þess að þessi ónauðsynlegu inngrip eru fyrst og fremst framkvæmd á börnum, það að láta þau sitja eftir segir bara hálfa söguna. Ég ætla að taka viljann fyrir verkið og trúa því að þessi starfshópur fari aftur í gegnum málið, vinni hratt og vel og skili tillögum til nauðsynlegra úrbóta fyrir þennan hóp líka.