149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í stuttu máli stenst málið ekki stefnu Pírata. Þegar ég kom seint inn í nefndina sem varamaður til að vinna var mjög auðvelt að fara bara yfir það. Við viljum að öll fiskveiðiauðlindin verði boðin upp á markaði og það er hægt að gera það hægt og rólega án þess að brjóta eignarréttindaákvæði stjórnarskrár eins og var vel unnið að í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem átti að taka 5% ári til baka og setja á uppboð. Á 20 árum væri fiskveiðiauðlindin þannig raunverulega leigð út af hinu opinbera, ríkinu, til lengri tíma. Það væri hægt að gera þetta líka til lengri tíma og tryggja þá meiri fyrirsjáanleika í greininni án þess að halda áfram að skapa þá hættulegu stöðu að menn geti farið að líta á þetta sem einhver séreignarréttindi.

Við erum þannig ekki hlynnt því að makríll sé settur inn í gamla fiskveiðistjórnarkerfið.

Jafnframt langar mig að benda á að við vinnslu í nefndinni kom í ljós að aðilar sem áttu fyrst að fá úthlutað en fengu ekki úthlutað samkvæmt lögunum og eru búnir að vinna mál í Hæstarétti eru með þá hugmynd að þeir eigi þessi réttindi og að ef ríkið ætli að úthluta þeim öðruvísi en hefði átt að gera 2010 sé verið að ganga á eignarréttindi þeirra. Eignarréttindin eru varin í stjórnarskrá þannig að ef farin verður sú leið sem er verið að fara núna yrði ég ekki hissa á því að þeir myndu kæra úthlutun sem ráðstafar heimildum til annarra aðila sem þeir hefðu fengið 2010. Sú leið sem er farin núna get ég ekki lesið öðruvísi, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið í nefndinni, en að standist ekki stjórnarskrána. Á þeim forsendum get ég ekki heldur stutt málið.

Ég skil hvers vegna farið er í þetta svona. Það er gríðarlega erfið staða sem allir eru í með fiskveiðistjórnarkerfið okkar. Það ætti bara að breyta því. Niðurstaðan í leiðinni sem stendur til að fara er að fara bil beggja. Hvenær var raunverulega hægt að fara að afla sér veiðireynslu? Sumir gátu ekki gert það 2010 eða fyrir þann tíma. Menn eru einhvern veginn að reyna að gera það þannig að allir fái eitthvað en allir verða samt sem áður óánægðir með það sem þeir fá.

Eins og ég segi stenst þetta ekki stefnu Pírata og ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði út frá henni. Ég er líka hlynntur þeirri stefnu, að auðlindin skuli tekin aftur til þjóðarinnar og leigð á markaði til lengri tíma. Þá loksins erum við komin með sjálfbærnivinkilinn. Við getum fengið einhvers konar þjóðarsátt um að landsmenn fái raunverulega eitthvað fyrir þá auðlind sem aðrir nýta, það virði sem hún er, þ.e. það sem menn eru tilbúnir að borga fyrir að leigja hana. Svo bendi ég aftur á að ég get ekki séð að þessi leið rúmist innan stjórnarskrárinnar.