149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það hefur verið ágreiningur um skiptingu veiðiheimilda á makríl og hann hefur staðið yfir undanfarin ár. Nú lítur út fyrir að hæstv. sjávarútvegsráðherra og stórútgerðin telji að úr þeim ágreiningi hafi verið leyst að nokkru með tveimur dómum Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2018 þar sem fallist er á kröfu áfrýjenda, tveggja útgerðarfélaga, um að viðurkennt yrði að íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem þau kynnu að hafa beðið af því að fiskiskipum í þeirra eigu hafi verið úthlutað minni aflaheimildum á árunum 2011–2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum um veiðar utan lögsögu Íslands, úthafsveiðilögum nr. 151/1996, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu sem við ræðum hér.

Í framhaldi af dómum Hæstaréttar ákvað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem skyldi fara yfir þýðingu dómanna og veita ráð um þær ákvarðanir sem taka þyrfti í kjölfarið. Hópinn skipuðu þau Arnór Snæbjörnsson, yfirlögfræðingur hjá ráðuneytinu, og lögmennirnir Hulda Árnadóttir og Jóhannes Karl Sveinsson. Brynhildur Benediktsdóttir, hagfræðingur hjá ráðuneytinu, starfaði með hópnum. Álit starfshópsins var að væri gefin út reglugerð vegna veiða á árinu 2019 sem miðaði við veiðireynslu á árunum 2013–2018 væri líklegt að sú úthlutun myndi skapa ríkinu áframhaldandi skaðabótaábyrgð. Ráðherra myndi líka halda áfram að baka þeim tjón sem fengju minna úthlutað en þeir hefðu fengið á grundvelli veiðireynslu á árunum fyrir 2011. Slík reglugerð væri þannig byggð á formlega fullnægjandi lagastoð en myndi hins vegar efnislega viðhalda ólögmætu ástandi. Því væri ráðherra rétt að beita sér fyrir því að Alþingi veitti honum valdheimildir sem kæmu í veg fyrir að áfram yrðu gefnar út reglugerðir sem bökuðu ríkinu bótaábyrgð.

Forseti. Um hvaða fjárhæðir er verið að ræða? Uppsjávarútgerðir fara fram á marga milljarða króna og krafa um það liggur hjá ríkislögmanni. Mjög miklir hagsmunir eru í húfi, ekki bara fyrir ríkið heldur einnig fyrir þær útgerðir sem samkvæmt frumvarpinu ættu að taka á sig 45% skerðingar á úthlutun afla. Atvinnuveganefnd krukkaði þó í þetta og býr til potta og girðingar.

Eftir að frumvarpið kom fram hefur verið birt niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu út af Al Thani málinu svokallaða. Þar er hæstaréttardómarinn Árni Kolbeinsson talinn vanhæfur til að dæma í því máli vegna fjölskyldutengsla sinna. Sonur hans, Kolbeinn Árnason, var starfsmaður í lögfræðideild Kaupþings fyrir hrun og vann fyrir skilanefnd bankans eftir hrun.

Einn af dómurunum í makrílmálinu var Árni Kolbeinsson. Samkvæmt nýföllnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu þarf að mínu mati að huga að hæfi Árni Kolbeinssonar varðandi makrílkvótann þar sem sonur hans, Kolbeinn Árnason, var framkvæmdastjóri LÍÚ og hafði ríka aðkomu að kröfugerðum á hendur ríkinu í tengslum við makrílhagsmuni aðila innan LÍÚ, en tveir þeirra höfðuðu síðan dómsmál á hendur ríkinu sem faðir hans dæmdi í. Þessu til viðbótar var Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu á árunum 1985–1998 og sem slíkur hafði hann ríka aðkomu að gerð úthafsveiðilaganna frá árinu 1996 sem dómurinn snýst allur um.

Eins og ég sagði áðan eru miklir hagsmunir í húfi eftir dóm Hæstaréttar frá 6. desember í fyrra sem sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í sama máli. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið yrði sýknað af kröfu útgerðanna og að málskostnaður milli aðila félli niður.

Eftir samtal við hv. þingmenn sem sitja í hv. atvinnuveganefnd skilst mér að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu um vanhæfi Árni Kolbeinssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem fenginn var sérstaklega til liðs til að dæma í makrílmálinu og hugsanleg áhrif á dóm Hæstaréttar hafi ekki verið rædd á fundum nefndarinnar. Það finnst mér með ólíkindum, herra forseti, og undarleg hagsmunagæsla fyrir hönd fólksins í landinu þegar sýslað er með þjóðareign. Ég leyfi mér hér með að fara fram á að hv. atvinnuveganefnd fjalli um málið á milli umræðna. Annað væri stórkostleg handvömm. Við erum nefnilega hér til að gæta að hag almennings — eða er það ekki annars? Stundum efast ég um að það eigi við um okkur öll, einkum þegar kemur að málum sem tengjast fiskveiðiauðlindinni okkar. Ef möguleiki er á því að í þessum dómi leiki einhver vafi á hæfi dómara sem dæmdi í þessu máli eigum við auðvitað að kanna þá stöðu vandlega áður en gengið er frá þessu máli. Ég treysti því að hv. atvinnuveganefnd fari yfir það mál á milli umræðna.

Hitt er svo annað mál að fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni og hægt er að taka strax skref í rétta átt með því að samþykkja breytingartillögu við frumvarpið þar sem gert er ráð fyrir útboði á makrílkvótanum. Hvers vegna ættum við að hugleiða útboð á fiskveiðiheimildum? Markmiðið með útboðsleið er í meginatriðum þríþætt, að auka jafnræði við úthlutun á sameign þjóðarinnar, lækka þröskulda fyrir nýliða og láta greinina sjálfa ákveða hvað hún vill og getur greitt fyrir heimildirnar í stað þess að stjórnmálamenn geri það eins og nú er.

Ég minni á að í 1. málslið 1. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er svo fyrir mælt að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þá er kveðið svo á um í 3. málslið að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þegar íslenska ríkið semur um veiðiheimildir á fjarlægum miðum er verið að gera það fyrir íslensku þjóðina en ekki útgerðina í landinu. Ég lít svo á að það sama eigi þá við um þann kvóta.

Jafnframt hafa fallið hæstaréttardómar þar sem réttur löggjafans til að breyta um úthlutunaraðferð á kvóta er áréttaður. Í dómi vegna máls Vinnslustöðvarinnar hf. gegn íslenska ríkinu frá mars 2017 segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Jafnframt er því slegið föstu í síðari dóminum að löggjafinn geti ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og þeim eftir atvikum endurúthlutað, svo og kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun nytjastofnanna.“

Við höfum algjörlega í hendi okkar hvernig við gerum þetta, enda gerum við það þannig að ekki er allur kvóti tekinn og boðinn út í einu heldur í ákveðnum skrefum.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í atvinnuveganefnd leggur fram breytingartillögu um þetta mál þar sem þetta er útskýrt og lagt til að í fyrsta skrefi verði einn þriðji makrílkvótans boðinn út. Síðan er fjallað um hvernig úthluta eigi hinum tveimur þriðju hlutunum og að hluti gjaldsins sem fengist fyrir útboðið myndi renna til sjávarútvegsbyggða, enda er réttlátt að þetta renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem síðan myndi deila út tekjunum. Það er sanngjarnt.

Þetta er það sem ég vildi segja, forseti, í þessari umræðu hér. Ég ítreka að það eru ýmsar spurningar sem þarf að svara áður en við göngum frá þessu máli. Ég er ekki í hv. atvinnuveganefnd en ég vona að nefndarmenn séu sammála því að það þurfi að leggjast yfir þetta mál með einhverjum hætti og að löglærðir menn í salnum séu sammála mér um það og leggi lið þegar kemur að slíkum málum.