149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:25]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki rétt að við þingmenn séum að ræða hér lögfræðileg atriði. Auðvitað má nefndin skoða þetta og alltaf má skoða hæfisreglur og hvort við þurfum að breyta einkamálalögunum og dómstólalögunum varðandi hæfi. Vanhæfi dómara kallar á alveg sérumræðu.

Ég get aðeins bætt við þetta. Mannréttindadómstóllinn í Strassborg ógildir enga dóma. Við getum velt fyrir okkur hvernig eigi að bregðast við einstökum dómum, hvort við eigum að lagfæra eitthvert ástand og breyta því, en þetta er allt búið og gert í mínum huga eins og svo margt annað. Við verðum að hætta að hugsa um að við séum með einhvern æðri dómstól úti í Evrópu. Við erum ekki með slíkan dómstól. Við verðum að taka tillit til þeirrar niðurstöðu þess dómstóls, hvort við þurfum að breyta einhverju í okkar fari og breyta lögum. Það kann vel að vera ástæða til að breyta einhverju í lögum, ég er samt ekki viss um það, en ég held að það sé mjög varhugavert að Alþingi eða atvinnuveganefnd fari eitthvað sérstaklega að velta fyrir sér hæfi í þessu einstaka máli.

Menn geta bara velt fyrir sér almennt um hæfi og vanhæfi dómara, þeirra sem úrskurða í stjórnsýslunni o.s.frv. Það er alltaf ákveðinn vafi og við getum deilt um það endalaust, en í þessu máli held ég að það sé mjög langt gengið að tala um vanhæfi dómarans.