149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég verð bara að segja eins og er að það er enginn tími eftir. Við erum búin að tapa honum. Það verður að setja einhver lög um þessar veiðar. Það er það sem við vorum að reyna að gera, við teygðum okkur eins langt og við gátum á alla kanta eins og ég sagði. Því miður fór sá góði vilji nefndarinnar einhvern veginn öfugt ofan í mjög marga og sérstaklega þá sem fá úthlutað aflaheimildum. Ég hélt að þeir aðilar myndu sýna einhverja sanngirni.

Ég veit að miklir hagsmunir eru í húfi og þess vegna er það líka krafa mín og annarra að á þeirri stundu sem þessum aflaheimildum er úthlutað standi maður ekki í pusi fyrir það að þeir fái ekki nóg. Aftur á móti held ég að tíminn sé að hlaupa frá okkur. Veiðar byrja innan skamms og það er mikilvægt að klára málið. Ég ætla ekkert að hlaupast undan því en mér fannst ég samt þurfa að segja það sem mér býr í brjósti. Þetta er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins eða eins eða neins, þetta er bara mín hugsun og mínar áhyggjur yfir því að þegar við í þinginu vinnum að jafn viðkvæmum hlutum og að úthluta aflaheimildum finnist kannski engum það nóg í öllum þeim verðmætum sem þau eru að skapa. Það er það sem ég er fyrst og fremst að segja hérna og lýsa yfir óánægju minni með þær móttökur sem við fáum fyrir það, en auðvitað ekki frá þjóðinni.