149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[16:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna). Til að gera langa sögu stutta er að mínu mati og þingflokks Viðreisnar um að ræða gott mál sem hefur engu að síður þann annmarka að eftir mikla jóðsótt er að fæðast lítil mús. En mýs eru góðar í þessu tilfelli og við munum greiða atkvæði með frumvarpinu, þó að við hefðum viljað sjá lengra gengið og gerum enn fremur eilitlar athugasemdir við það hvernig þetta mál er unnið, á hvaða tímabili það kemur inn og hversu lítið var hlustað á síðustu stigum á hagsmunasamtök öryrkja sem höfðu ýmislegt fram að færa við vinnslu þessa máls.

Ég vil líka gera athugasemd við þá tilraun sem ráðherra gerði til þess að reyna að lauma inn í málið þeim liðum sem lúta að búsetuskerðingum á sérstakri framfærsluuppbót og því að bæta slysabótum inn í skerðingar (Forseti hringir.) þannig að ég held að það sé kannski ákveðin áminning: Ég held að við eigum ekki að vera að flækja mjög flókin mál á þingi heldur miklu frekar reyna að vinna að því að einfalda þau þannig að við skiljum þau. En þetta er rétt skref í rétta átt þannig að við segjum já við þessu máli.