149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[16:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Hér erum við að stíga skref til að draga úr krónu á móti krónu skerðingum sem verið hafa í kerfinu gagnvart örorkulífeyrisþegum. Ég fagna því sérstaklega að þetta skref sé stigið. Þessi hópur var því miður skilinn eftir árið 2016 og hefur beðið allt of lengi. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt það hér. Hins vegar er búið að marka ákveðna stefnu núna, stefnu sem miðar að því að innleiða nýtt og breytt og einfaldara almannatryggingakerfi. Þessar breytingar eru liður í því og ég fagna því sérstaklega. Hér erum við að ráðstafa þeim fjármunum sem er ráðstafað til málaflokksins í fjárlögum yfirstandandi árs. Ég vil líka þakka hv. velferðarnefnd fyrir hversu hratt hún vann þetta mál og ítreka að þetta mál komi seint inn vegna þess hve lengi skil drógust hjá þessari nefnd. Það hefði þurft að fá betri umfjöllun og fór m.a. ekki í gegnum samráðsgátt.

Ég taldi mikilvægt að þetta mál færi inn til þingsins og gæti orðið að lögum, sem er að gerast núna, og það er m.a. fyrir (Forseti hringir.) skjót viðbrögð bæði velferðarnefndar og þingsins.