149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langaði að leggja nokkur orð í púkkið varðandi þessa umræðu um fiskeldi áður en málið gengur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það er þannig með fiskeldi, eins og auðvitað öllum sem hafa fylgst með því er ljóst, að þarna er í rauninni um alveg magnaðan vaxtarsprota að ræða, sérstaklega á svæðum sem hafa verið veik um langt árabil og jafnvel áratugaskeið. Það þarf enginn að velkjast í vafa um þau miklu áhrif sem uppbyggingin sem nú þegar hefur orðið hefur haft á til að mynda sunnanverða Vestfirði, Vesturbyggð og Tálknafjörð, og væntingar eru um að vel gangi á norðanverðum Vestfjörðum síðar. Fyrir austan er mikil uppbygging í gangi og svæðin þar treysta á að vel takist til með þessa lagasetningu, þessa framtíðaruppbyggingu, eins og reikna má með að sé raunhæft að verði.

Ég ætla að leyfa mér að láta þessa ræðu mína hverfast dálítið um 8. gr. sem er í rauninni lögskilin á milli gamla kerfisins og nýja kerfisins. Við erum ekki í neinu lögfræðilegu tómarúmi í dag. Það eru til lög um fiskeldi sem er starfað eftir og sú uppbygging sem þegar hefur átt sér stað hefur átt sér stað innan þess ramma sem þar er markaður. Ég hef verið þeirrar skoðunar að á meðan sérstaklega þessi 8. greinar mál hafa verið jafn umdeild og verið hefur væri skynsamlegt að stíga til baka, gefa sér tíma fram á haustið, hvort sem það væri fram á hið svokallaða síðsumarsþing eða fram á nýtt þing, því að það hastar ekki svo að réttlætanlegt sé að kasta til hendinni hvað þessa hluti varðar.

Miðað við þær tvær línur sem nefndin hefur horft til sem skurðpunkts hvað það varðar að þegar til komnar umsóknir lifi, samanborið við að þær falli niður og þurfi þá að byrja upp á nýtt í nýju kerfi, hefur sá skurðpunktur gríðarleg áhrif. Ég hef gagnrýnt það mikið utan þingsalarins að nefndarmönnum séu ekki að fullu ljós þau áhrif sem sá skurðpunktur hefur á bæði svæði og síðan fyrirtæki því að það skiptir líka máli fyrir byggðirnar. Þannig er fyrst hægt að lesa í það hvaða áhrif hver skurðpunktur hefur fyrir til að mynda Vesturbyggð, Tálknafjörð, Ísafjarðarsvæðið, Bolungarvík og byggðirnar fyrir austan. Það er lágmarkskrafa, og ég vil bara leyfa mér að segja kurteisi, að þessar upplýsingar séu almennilega sundurliðaðar. Það sem þó hefur fengist fram undirstrikar hversu margt er matskennt í því sem verið er að horfa til sem skurðpunkta. Þá verða skilin eftir matskennd viðmið fyrir Skipulagsstofnun að úrskurða um hvorum megin hryggjar falli. Ég er þeirrar skoðunar að við í þessum sal eigum að taka svona ákvarðanir með galopin augun, vitandi hver áhrifin eru á hvert svæði og hverja byggð fyrir sig. Annað er ekki boðlegt.

Ég er þess vegna sem betur fer nokkuð bjartsýnn í dag eftir að hafa heyrt orð sem ég treysti á að bendi til þess að menn ætli sér að reyna að ná meiri sátt milli sjónarmiða í þessum efnum milli 2. og 3. umr. Ég held að menn þurfi að horfa til þess að skurðpunkturinn verði færður til og þá vil ég leggja til að miðað verði við að tillaga að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000, verði viðmiðið. Hún er ekki eins matskennd og þeir tveir skurðpunktar sem mest hafa verið til umræðu í nefndinni. Ef ekki næst sátt um þessa skurðlínu verði horft til þess að setja inn sólarlagsákvæði þannig að þau fyrirtæki sem eru búin að vera að undirbúa og hafa verið með umsóknir í vinnslu um jafnvel árabil, tvö, fjögur og upp í sex ár ef ég skil það rétt, hafi t.d. 24 mánuði til að klára þau leyfismál sem eru í ferli og að þau falli þá undir gamla kerfið.

Við megum ekki gleyma einu, að fyrir þá og okkur sem leggjum áherslu á að umhverfismálin í þessum efnum séu traust og að hægt sé að gera kröfur til þess að iðnaðurinn byggist upp á sem bestan máta hvað náttúruna varðar skiptir máli að fyrirtækin sem starfa í þessum iðnaði séu sterk, öflug og hafi fjárhagslegan styrk til að takast á við þær kröfur sem gerðar eru. Það gerir engum gott að fjöldi fyrirtækja í eldinu verði mjög mikill.

Ég held að ég muni tölurnar rétt þegar ég segi að í Chile þar sem menn lentu í miklum vandræðum fyrir einhverjum árum stunduðu 140 aðilar eldi eftir þeirri löngu strandlengju. Í dag eru þeir annaðhvort 60 eða 80, það hefur sem sagt orðið veruleg fækkun. Og ástandið er miklum mun betra, fyrirtækin öflugri og það er hægt að gera kröfur til aðila sem hafa fjárhagslegan styrk.

Ég held að menn hafi gleymt þessu dálítið í umræðunni. Það getur spilað saman að fyrirtækin séu öflugri og að mál sem snúa að náttúrunni og vernd hennar séu betur búin. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um að ef iðnaðurinn sem slíkur eða fyrirtæki sem stunda þessa starfsemi í dag verða fyrir umtalsverðu höggi vegna þess hvar skurðpunkturinn verður mun það breyta áætlunum þeirra um uppbyggingu. Ef ég horfi yfir þá sem eru núna í salnum sýnist mér vera samansafn áhugamanna um skógrækt og þar vita menn að það þarf að undirbúa framtíðaráform með góðum fyrirvara. Sá fyrirvari er miklum mun lengri í fiskeldinu þar sem þarf að byggja upp seiðaeldisstöðvar, tryggja búnað, framkvæma rannsóknir og þar fram eftir götunum. Fyrirtækin verða að hafa góðan fyrirsjáanleika og okkur ber að stefna að honum.

Ég held að menn hafi kannski ekki áttað sig á því að 8. gr. stangast í engu á við það að ganga hart og ákveðið fram hvað það varðar að tryggja umhverfisverndina. Ef eitthvað er styður það að vilja ganga tiltölulega langt við fyrirsjáanleika byggðanna. Ef einhver taldi það andstæð sjónarmið að hafa skurðpunktinn framar í tímalínunni hvað leyfisveitingarnar varðar, ef einhver hér inni taldi það vinna gegn markmiðum um öfluga vörn um íslenska náttúru og íslenska villta laxastofninn, er það misskilningur. Ég held nefnilega að það sé einmitt öfugt. Því framar sem við drögum línuna hvað lögskilin varðar í tíma, þeim mun betri sending er það fyrir vörn hins íslenska villta laxastofns og þau náttúruverndarsjónarmið önnur sem við eiga í þessum efnum.

Ég vil brýna menn til að skoða þetta vandlega, að annaðhvort verði horft til þess að hafa skurðpunktinn við tillögu um matsáætlun til Skipulagsstofnunar, samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000, eða setja inn sólarlagsákvæði sem gefur fyrirtækjum tíma til að klára að vinna úr þeim umsóknum sem þegar eru í kerfinu og hafa útheimt mikinn kostnað og vinnu, jafnvel árum saman.

Ég ítreka von mína um að vinnan í atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umr. verði til góðs og óska nefndarmönnum alls hins besta.