149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

957. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Atvinnuveganefnd flytur þingsályktunartillöguna og var hún sammála um að tillagan myndi styrkja mjög það mál sem var rætt hér á undan. Þingsályktunartillagan er í 17 liðum og ég ætla að renna aðeins yfir þá:

1. Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.

2. Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.

3. Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.

4. Sett verði á fót áhættumatsnefnd.

5. Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.

6. Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.

7. Innleidd verði reglugerð um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.

8. Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu á alifuglakjöti án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.

9. Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.

10. Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.

11. Innleidd verði innkaupastefna opinberra aðila á matvælum.

12. Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.

13. Ráðist verði í átak um betri merkingar á matvælum.

14. Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.

15. Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingarsjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.

16. Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.

17. Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.

Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og kynni hana atvinnuveganefnd.

Atvinnuveganefnd bætir við tveimur aðgerðum frá því sem var í aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra. Önnur varðar 5. lið, aðgerðaáætlun sem fjallar um að ráðist verði í átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum. Slíkt gerir meðferð ýmissa hættulegra sýkinga erfiðari og kostnaðarsamari og í sumum tilvikum ómögulega. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum. Við viljum vera þar í fararbroddi til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Einnig er í þessari þingsályktunartillögu fjallað um mikilvægi þess að efla nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu. Það er lagt til að setja á fót sjóð með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Með því að sameina þessa sjóði má efla nýsköpunarumhverfi atvinnugreinanna og til að ná því markmiði verður sett aukið fjármagn í slíkan sjóð. Jafnframt þarf að tryggja að hlutfallsleg skipting fjármagnsins til atvinnugreinanna verði með sambærilegum hætti og nú er.

Þá leggur nefndin til að bæta við tveim aðgerðum umfram þær 15 sem fyrir voru. Þær snúa að því að endurskoða tollskrá fyrir landbúnaðarvörur sem ég tel mjög mikilvægt og að ráðist verði í sérstakt átak um aukið eftirlit í fjóra mánuði í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.

Ég tel að með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu skjótum við traustari stoðum undir innlenda framleiðslu og lýðheilsu landsmanna og tryggjum hana eftir bestu getu. Eins og fram hefur komið er þessi aðgerðaáætlun mjög fjölbreytt og flestar aðgerðanna ættu að vera tilbúnar þegar frumvarpið tekur gildi, en aðrar eru viðvarandi verkefni líkt og þær sem snúa að samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu. Því verkefni lýkur aldrei eins og við vitum, en samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar verður að sjálfsögðu best tryggð með því að gæði hans sé sem best, og betri en innfluttra matvæla.

Ég tel mjög mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að þessari þingsályktunartillögu verði hrundið hratt og vel í framkvæmd og mikilvægt að ráðherra skili Alþingi skýrslu um framgang hennar, kynni hana fyrir atvinnuveganefnd og tryggi nægt fjármagn til að fylgja þessari aðgerðaáætlun eftir.

Ég er bjartsýn fyrir hönd íslensks landbúnaðar eins og sá hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér og er bóndi og bústólpi.