149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

957. mál
[18:26]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að mæra hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formann atvinnuveganefndar, og atvinnuveganefndina fyrir hennar góða starf að þessu máli.

Ég ætla ekki að vera langorður en í stuttu máli sé ég þetta þannig fyrir mér að sú umgjörð sem hér er verið að skapa varðandi íslenska matvælaframleiðslu og þær kröfur sem við erum að gera séu algjörlega einstakar á heimsvísu. Lykillinn að þessu öllu saman og því sem við ræddum á undan er sá að við segjum: Gjörið svo vel, komið erlendis frá með ykkar vörur, en segjum jafnframt: Þið þurfi að standast þær kröfur sem við setjum hér um okkar framleiðslu.

Það er lykilatriðið í þessu.

Þegar þessar mótvægisaðgerðir verða komnar til framkvæmda óttast ég ekki um afdrif íslenskrar matvælaframleiðslu vegna þess að þegar kemur að gæðum, dýravelferð og aðbúnaði starfsfólks sem vinnur við matvælaframleiðslu eru fáir sem geta tengst við tillögurnar.

Þegar við fjöllum um íslenska matvælaframleiðslu þurfum við að hafa gæði og aftur gæði í huga. Það er það sem neytendur vilja þegar við fjöllum um matvælaöryggi, lýðheilsu landsins og vernd búfjárstofna. Það er svona eins og falleg sinfónía.