149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:30]
Horfa

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir (M):

Herra forseti. Þegar skoðuð eru gögn frumvarpsins er augljóst að mikil og góð vinna hefur farið fram. Það eru þó nokkur atriði sem mig langar að minnast á. Fyrst og fremst þyrfti að vera skýrara í frumvarpinu hvernig á að meðhöndla hagsmunaárekstra. Þegar Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn eru komin á eina hönd er augljóst að markmið fara ekki alltaf saman. Ég nefni dæmi: Hlutverk Seðlabankans við stjórnun peningastefnu með markmið um stöðugt verðlag fer ekki endilega saman við eftirlit með fjárhagslegum styrk fjármálastofnana, og eftirlit með fjárhagslegum styrk fjármálafyrirtækja fer ekki endilega saman við eftirlit viðskipta almennings við fjármálastofnanir sem er hluti af neytendavernd. Markmið þurfa ekki að fara saman og nú er verið að fjölga hlutverkum og markmiðum Seðlabankans með því að fella allt fjármálaeftirlit undir hann. Þetta eykur pólitískt vægi Seðlabankans og þar með ásókn stjórnmálamanna í að hafa áhrif á aðgerðir Seðlabankans. Jafnframt eykur þetta á embættismannavæðinguna þar sem embættismenn í Seðlabankanum hafa aukin pólitísk völd.

Í öðru lagi hefur hið opinbera oft verið gagnrýnt fyrir að vera heilt yfir ekki eins skilvirkt og einkageirinn. Í því frumvarpi sem hér um ræðir tel ég að skýrt dæmi um það komi fram. Ef skoðuð eru markmið frumvarpsins eru þau góð og gild en ég sakna þess að sjá ekki að hluti af markmiðunum sé að ná fram hagræðingu. Þá má segja að það sé nánast metnaðarlaust að sameina stofnanir án þess að ætla sér að ná fram hagræðingu því að eðli málsins samkvæmt ætti að vera hægt að ná fram hagræðingu á stoðsviðum án þess að það bitnaði á gæðum eftirlitsins.

Ef við nýtum ekki tækifærin við aðstæður eins og þegar fyrirtæki á vegum hins opinbera eru sameinuð, hvernig er von til að báknið minnki nokkurn tímann? Það hefur verið sýnt fram á að í meiri hluta tilfella þegar fyrirtæki eru sameinuð nást ekki fram þau markmið sem stefnt var að þannig að um vandasamt verk er að ræða sem þarf að hafa skýra stefnu og sýn til að vel til takist.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur einmitt fram að sagan hafi sýnt að útgjöld ríkisins hafa tilhneigingu til að aukast við sameiningu stofnana, já, aukast, ekki einu sinni standa í stað. Í öðrum umsögnum, samanber umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja, sést að skýrleika í gjaldtöku er ábótavant. Í frumvarpinu kemur fram að gjaldtaka Seðlabankans skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er og þar er minnst á ýmsa skýra og afmarkaða þjónustuþætti, en í lok upptalningarinnar kemur liður sem kallaður er rekstur fjármálainnviða. Ég velti fyrir mér hvort einhver viti hvað falli þar undir. Það hefði þurft að skilgreina betur í greinargerð með frumvarpinu hvað fellur þar undir því að óbreytt er þetta nánast opinn tékki fyrir hina sameinuðu stofnun og fyrirsjáanleikinn þar af leiðandi mjög takmarkaður fyrir viðskiptavininn.

Fjármálastofnanir borga, eins og önnur fyrirtæki í landinu, gríðarlega skatta og gjöld en til viðbótar borga þau yfir 2.300 milljónir í eftirlit. Það er eðlilegt að það lendi á fjármálafyrirtækjunum sjálfum að borga eftirlitið og að eftirlitið sé eins og best verður á kosið, en fyrirtæki sem eru í samskiptum við ríkið verða að geta haft einhvern fyrirsjáanleika til að geta gert ráðstafanir í rekstri sínum. Ef fyrirtæki í landinu vita reglurnar og gjaldskrá ríkisins aukast líkurnar á að hér verði eðlilegra samband milli opinbera og einkageirans neytendum til hagsbóta. Ef skýr stefna væri að með sameiningunni ætti að ná fram hagræðingu gætum við gefið okkur að markmiðið yrði ekki undir 10%, þ.e. rúmar 230 milljónir. Fyrir þann pening mætti gera gríðarlega margt gott og er þetta upphæð sem gæti munað öllu fyrir mörg verðug málefni og skilað sér margfalt til baka til þjóðfélagsins eða hreinlega þar sem virðist gleymast of oft að nýta tækifærið til lækkunar skatta. Við vitum að það eru mörg verðug málefni sem við sem samfélag viljum hafa í lagi og að peningarnir eru af skornum skammti.

Þess þá heldur þegar um sameiningar og breytingar hjá hinu opinbera er að ræða ætti, miðað við núverandi stærð kerfisins, rauði þráðurinn að vera að ná fram hagræðingu, bæði í formi skilvirkni og fjárhags, og þannig náum við að minnka báknið, lækka skatta og byggja upp blómlegt atvinnulíf sem skilar sér til hagsbóta fyrir land og þjóð.