149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég átti eftir að mæla fyrir minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli. Þó að ég hafi litlu við prýðisgóða ræðu hv. þm. Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur að bæta vil ég fara yfir þetta minnihlutaálit. Það er ekki langt, herra forseti, en það hljóðar svo:

„Annar minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur verkefnisstjórn um endurskoðun lagaumgjarðar um Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlit eiga hrós skilið fyrir vönduð og fagmannleg vinnubrögð við smíði þeirra frumvarpa sem hér eru til umfjöllunar. Þá telur 2. minni hluti vinnu efnahags- og viðskiptanefndar um málin hafa verið góða og breytingartillögur meiri hlutans við frumvarpið vera til bóta. Hins vegar telur 2. minni hluti að skynsamlegt sé að fresta samþykkt frumvarpanna um sinn svo að ráðrúm gefist til að huga nánar að ýmsum álitamálum sem enn er ósvarað, ekki síst vegna ábendinga úr mörgum áttum þar sem varað er við því að viðskiptaháttaeftirlit verði á hendi hinnar sameinuðu stofnunar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.“

Undir þetta ritar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þetta álit er stutt vegna þess að ég vildi fyrst og fremst koma á framfæri annars vegar skilaboðum um að vinnan hefði vissulega verið um margt til fyrirmyndar en hins vegar hefur það staðið upp úr í umræðu nefndarinnar og komið fram í ábendingum fjölmargra gesta nefndarinnar að málið sé ekki fullbúið og að þar séu enn þá ýmis álitamál. Þegar um er að ræða sameiningu ríkisstofnana sem almennt ættu að teljast jákvæð tíðindi hefði maður viljað sjá meiri samlegðaráhrif, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns hér á undan, en einnig er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér í þessu tilviki hversu mikið vald er samkvæmt þessu komið á hönd einnar stofnunar og nánast löggæsluvald.

Þetta verður að setja í samhengi við atburðarás undanfarinna ára og raunar áratugar og þau mál sem upp hafa komið vegna til að mynda gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Ég hvet til að þetta verði skoðað betur, auk ýmissa annarra álitamála sem upp hafa komið í umræðum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Loks vil ég geta þess, herra forseti, að nú hefur komið í ljós að við umfjöllun um umsóknir um stöðu seðlabankastjóra hafa umsækjendur fengið þau skilaboð að þeir væru að sækja um starfið eins og það lítur út núna en ekki starf seðlabankastjóra í nýrri sameinaðri stofnun. Það hlýtur þá að þýða að þegar þessi lög hafa tekið gildi verði að nýju auglýst staða seðlabankastjóra og þá seðlabankastjóra sem sé best til þess fallinn að uppfylla hlutverkið sem hinni nýju stofnun er ætlað að sinna.