149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:20]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Eins og fram hefur komið í umræðunni er þetta margslungið mál en númer eitt, tvö og þrjú er mikilvægi þess að við búum til löggjöf fyrir þessa vaxandi atvinnugrein sem byggir á sjálfbærni, efnahagslega, umhverfislega og ekki síst samfélagslega. Hér fara einmitt allir þessir hagsmunir í raun saman en það er mikilvægt fyrir samfélagið að það ríki stöðugleiki í fiskeldi og til að hann sé til staðar verður að tryggja hagsmuni náttúrunnar. Ef gengið er á umhverfið er gengið á fiskeldið sem svo hefur áhrif á samfélagið.

Það er mín trú að hér séu stigin skref í rétta átt, sérstaklega með þeim breytingartillögum sem minni hluti atvinnuveganefndar leggur til og ég hvet auðvitað þingheim til að samþykkja allar.

Ég vil að lokum nýta tækifærið til að brýna hv. fjárlaganefnd til að tryggja að þær stofnanir sem fjalla um málefni fiskeldisins hafi nægjanlegt fjármagn til að sinna sínu hlutverki sómasamlega, enda mikil ábyrgð sem á þeim hvílir, bæði hvað varðar málsmeðferð og eftirlit. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)