149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Óháð afstöðu minni til umrædds svæðis verð ég að segja að ég var pínulítið hissa þegar ég sá þessa breytingartillögu. Við höfum hér dásamað samvinnu þvert á meiri hluta og minni hluta í vinnu allrar þessarar nefndar, en fyrst heyrði ég um hugmyndir um þetta þegar verið var að kynna álit minni hluta. Það er mjög þarft verk að setjast heildstætt yfir það að ákveða að einhver sérstök svæði hafi verndargildi, meira að segja svæði sem nú er verið að skoða verndun á sem eru burðarþolsmetin. Ef raunverulegur vilji hefði verið til að ná saman um þetta hefði átt að ræða þau mál þannig við vinnu alls málsins. Því miður var það ekki gert. Algjörlega óháð afstöðu til þessa svæðis get ég ekki tekið út eitt svæði af þeim mörgu sem ég væri til í að skoða hvort sérreglur ættu að gilda um.

Því segi ég nei.