149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit getur löggjafinn ákveðið hvaða lög gilda um stjórn fiskveiða og löggjafinn leggur þetta núna til, þ.e. hæstv. ráðherra. Atvinnuveganefnd hefur haft málið til meðferðar og gert veigamiklar breytingar á því, einmitt til að mæta þessum útgerðum sem hófu veiðar síðar, þegar makríll kom upp að landinu og var veiðanlegur við strendur landsins. Þær breytingar koma mjög til móts við þá gagnrýni sem verið hefur á að veiðireynsluárin séu ekki sambærileg og þeirra stærstu sem byrjuðu veiðar hér upp úr 2007/2008 og voru að vissu leyti frumkvöðlar til að afla sér reynslu til að við fengjum þá okkar hlut gagnvart þeim þjóðum sem stunda makrílveiðar í kringum okkur þó að samningar hafi ekki náðst milli þessara þjóða í þeim efnum.

Ég vil bara segja að það er okkar hér, löggjafans, að ákveða hvernig stjórn veiða á makríl verður í framtíðinni, burt séð frá þessum hæstaréttardómi. Það er bara mál sem er eitt og sér varðandi kröfur um skaðabætur á hendur ríkinu. Það mál er algjörlega sjálfstætt en vissulega kom fram í þeim dómi að löggjafinn gæti ekki stjórnað fiskveiðum við landið með reglugerð. Síðan þarf bara að setjast yfir það mál eins og gert var, starfshópur var fenginn af hálfu sjávarútvegsráðherra til að fjalla um þessi mál. Þar voru listaðar upp fjórar leiðir sem færar væru. Þær eru vissulega fleiri en niðurstaðan varð að velja þá leið sem við erum að gera en það eru veigamiklar breytingar til bóta, að ég tel, á málinu.